Beint í efni

Koparborgin

Koparborgin
Höfundur
Ragnhildur Hólmgeirsdóttir
Útgefandi
Björt
Staður
Reykjavík
Ár
2015
Flokkur
Unglingabækur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Drengurinn Pietro flýr gamla heimili sitt, staurahverfið þar sem húsin standa á staurum í sjónum nálægt höfninni í stórri borg. Hræðileg, mannskæð pest geysar í hverfinu og allir veikjast, Pietro þar með talinn. Einhverjir reyna að flýja en íbúar í öðrum hverfum borgarinnar gera hvað sem er til að koma í veg fyrir það, takist einhverjum að komast undan mun pestin breiðast út. Á einhvern undraverðan hátt tekst Pietro samt sem áður að sleppa og eftir að hafa hrakist hundeltur um borgina flýr hann út í bannfærðan vita, þar sem borgarbúar ná ekki til hans. Í vitanum er hann öruggur en ógnvænlegir hlutir eiga sér stað á meðan hann dvelur þar sem eiga eftir að hafa áhrif á alla framvindu sögunnar og líf Pietro.

Þegar Pietro hefur dvalist um hríð í vitanum verður ekki hjá því komist að snúa aftur til borgarinnar. Hann leitar skjóls í hinu goðsagnakennda Víxlarahúsi, þar sem eingöngu börn mega búa og fullorðnum er bannaður aðgangur. Húsið er eins og rammgert virki, fullt af leyndardómum og leynigöngum og Pietro ákveður að honum sé fyrir bestu að halda sem mestu um sjálfan sig leyndu fyrir hinum sem þar búa. Í einu leynihólfa hússins rekst hann svo óvænt á dularfullan hlut sem hann er sannfærður um að tengist atburðunum í vitanum á einhvern hátt og þegar nýr drengur kemur í Víxlarahúsið áttar Pietro sig smám saman á því hvað það er sem hann verður að gera. Það er einhver óútskýranleg spenna í loftinu og eftir að ferð um borgina breytist óvænt í hættuför sér hann að hann má engan tíma missa. Hans bíður hættulegt verkefni sem hann verður að ná að leysa áður en allt er um seinan. En Pietro heldur ekki einn af stað, nýji drengurinn Ian slæst í för með honum enda er hann hugrakkur og í leit að ævintýrum og Soffía, sem er hægri hönd yfirbarnsins í Víxlarahúsinu, eltir þá til að komast að því hvað stendur til.

För Pietro og hinna barnanna liggur um borgina og að háborginni þar sem furstafjölskyldan og æðstu stéttirnar búa. Háborgin er algerlega lokuð umheiminum og þangað fara eingöngu þeir sem hafa verið útvaldir til að þjóna furstafjölskyldunni og galdrafólk eða nornir sem eru send þangað í fangelsi. Þeir sem fara inn fyrir múrana sjást aldrei framar og flestir telja að þeir hljóti hræðileg örlög. Borgin öll býr yfir einhverskonar töframætti sem nær hápunkti sínum í háborginni og þeir sem vilja lifa af læra að forðast allt sem henni tengist.

Koparborgin gerist í þessari heillandi borg sem minnir helst á evrópska stórborg á tímum endurreisnarinnar. Sviðsetning sögunnar er öll einstaklega vel gerð, borgin verður mjög lifandi þar sem hvert smáatriði er úthugsað og heildarmyndin verður skýr í huga lesandans. En borgin er meira en bara hús og götur, henni tengjast ótal sögur og hefðir sem lita líf barnanna í Víxlarahúsinu og íbúanna allra og gera söguna enn meira heillandi.

Til þess að ná að leysa verkefnið sem hefur verið lagt fyrir hann verður Pietro ekki eingöngu að takast á við hættur á götum borgarinnar heldur draga í efa allt sem honum hefur verið kennt um hana og hvað má og má ekki ætli maður að komast þar af. Hugmyndum hans um hina dauðu, galdra, háborgina og furstann er kollvarpað í þessari ferð og ef ætlunarverk hans á að takast verður hann að gera hluti sem hann hefði aldrei dreymt um að nokkur gæti gert án þess að gjalda fyrir það með lífi sínu.

Sagan heldur athygli lesandans frá fyrstu blaðsíðu með æsilegum flótta Pietro undan plágunni og óhugnaðinum sem fylgir henni. Innsýn í fortíð Pietro og sögu borgarinnar er fléttað saman við atburðarrásina og áhugi lesandans á afdrifum hans er þannig vakinn. Þrátt fyrir að sagan fylgi Pietro er hann í fyrstu frekar fjarlægur og meiri áhersla er á sviðsetningu og atburðarrás en persónusköpun, þó að persóna hans verði skýrari eftir því sem líður á söguna. Soffía og Ian vega Pietro ágætlega upp og mynda andstæða póla, Soffía er alin upp í borginni og veit eins og Pietro hvaða ógnarkraftar búa í henni á meðan aðkomumaðurinn Ian lætur sér fátt um finnast. Hann trúir ekki á mátt galdra og skilur ekki sögu borgarinnar og hvaða áhrif hún hefur á íbúana. Fyrir vikið er hann oft á tíðum óheftari en hin þótt stundum þyki þeim hann full djarfur.

Koparborgin hefur allt sem til þarf: galdra, illmenni, svikara, hetjur og sanna vini. Hún er auk þess bæði grípandi og falleg, ógnvekjandi og frekar hryllileg á köflum. Barátta góðs og ills er sígilt umfjöllunarefni fantasíunnar og hér er einnig fjallað um stéttskiptingu og misrétti, illa meðferð á þeim sem eru öðruvísi, áhrif forréttinda, sektarkennd og hvernig maður kemst af þegar allt sem maður trúir reynist reist á sandi. Allt í allt virkilega flott fantasía sem er óhætt að mæla með.

María Bjarkadóttir, nóvember 2015