Beint í efni

Land tækifæranna

Land tækifæranna
Höfundur
Ævar Örn Jósepsson
Útgefandi
Uppheimar
Staður
Reykjavík
Ár
2008
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Ingibjörg Rögnvaldsdóttir

Í Landi tækifæranna hitta lesendur aftur lögguteymi Ævars, þau Árna, Guðna, Katrínu og Stefán. Þetta er fimmta bókin þar sem þau eru í aðalhlutverki, en nú eru tvö ár síðan Sá yðar sem syndlaus er, sú fjórða í röðinni, kom út. Stefán hefur hækkað í tign og kemur því minna við sögu í þessari bók en þeim fyrri en Katrín hefur tekið við af honum sem yfirmaður hópsins. Margir lesendur hafa án efa fylgst með þeim félögum í framhaldsmyndinni Svartir englar sem sjónvarpið sýndi nú í haust en þeir þættir eru gerðir eftir tveimur fyrstu bókunum, Skítadjobb og Svartir englar.

Eins og í fyrri bókunum staðsetur Ævar söguna nákvæmlega í tíma og rúmi. Land tækifæranna gerist í nútímanum, í orðsins fyllstu merkingu. Hún hefst í október 2008, bankakerfið er hrunið og landið á leið inn í djúpa efnahagskreppu. Það kom fram í viðtali við höfundinn í einu dagblaðanna í október að hann hefði ákveðið að endurskrifa umhverfi sögunnar eftir að fjármálakerfið hrundi, væntanlega vegna þess að hann hefur verið búinn að tímasetja hana í október og nóvember á þessu ári. Það er ekki hægt annað en dást að því hversu vel hefur tekist til, það er hvergi að finna hnökra í lýsingum á samtímaviðburðum. Sagan gerist í Reykjavík og Hafnarfirði, og eins og höfundur notar atburði úr fréttum líðandi stundar, þá staðsetur hann einnig atburði sögunnar á stöðum sem lesendur þekkja eða kannast við. 

Í upphafi finnst lík af pólskum verkamanni í yfirgefinni bruggverksmiðju. Rannsókn málsins beinir athygli lögreglunnar að starfsemi pólsku mafínnar á Íslandi en hún leiðir hana líka á slóðir íslenskra útrásarvíkinga sem reynast vera félagar og skólabræður Árna frá því á menntaskólaárunum í Hafnarfirði. Þegar einn þeirra finnst myrtur eftir endurfund gamalla bekkjarsystkina fer málið að flækjast og ýmislegt bendir til þess að tengsl séu á milli þessarra tveggja mála. Þetta reynist Árna sérstaklega erfitt því jafnhliða því að rannsaka málið þarf hann að kljást við eigin tilfinningar gagnvart þessum fyrrum félögum sínum. Hér – eins og í raunveruleikanum – eru það karlmenn sem eru gerendur í útrásinni, konurnar í sögunni eru á hliðarlínunni, fylgjast með og toga í spotta þar sem það á við. Plottið er þétt og vel unnið og vönustu krimmalesendur eiga fullt í fangi með að átta sig á hver er að ljúga og hver segir satt, hver drap hvern og hvers vegna.

Samfara því að Árni, Katrín og Guðni leita að morðingjum (eða morðingja) þessarra ólíku manna kynnast lesendur þeirra einkamálum og heimilishögum. Eitt af því sem einkennir góðar glæpasögur er góð persónusköpun og þegar höfundar skrifa margar bækur um sömu einstaklingana þurfa þeir að leggja rækt við þá og þróa áfram, t.d. gegnum sögur um einkalíf þeirra og persónulega hagi. Það er ekki síst hvernig höfundi tekst að vekja áhuga og samkennd með sögupersónunum sem verður til þess að við bíðum full eftirvæntingar eftir næstu bók. Við viljum fá að fylgjast með Árna í föðurhlutverkinu, hvernig Katrínu tekst að fóta sig sem yfirmaður í karlasamfélagi lögreglunnar og hvernig brothætt samband Guðna og Helenu dóttur hans þróast. Ævar Örn og skáldbróðir hans Arnaldur Indriðason eiga það sameiginlegt að hafa skapað trúverðugt teymi íslenskra rannsóknarlögreglumanna. Lesendur þeirra bíða spenntir eftir að fá að fylgjast með og verða svekktir ef ekki fréttist af þeim á hverju ári, svona eins og þegar maður fær ekki jólakort með helstu tíðindum ársins frá fjarstöddum vinum. En það verður enginn svikinn af „jólakortinu“ frá þeim Árna, Katrínu, Guðna og Stefáni í ár.

Ingibjörg Rögnvaldsdóttir, desember 2008