Beint í efni

Launsátur, Þú sérð mig ekki, Úti

Launsátur, Þú sérð mig ekki, Úti
Höfundur
Eva Björg Ægisdóttir
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2021
Flokkur
Skáldsögur
Launsátur, Þú sérð mig ekki, Úti
Höfundur
Ragnar Jónasson
Útgefandi
Bjartur-Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2021
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Snædís Björnsdóttir

Myrkrið læðist að, dagarnir styttast sífellt og það kólnar í veðri. Þegar veturinn gengur í garð rennur tími glæpasagnanna sannarlega upp. Nú í vetur komu út margar spennandi glæpasögur en hér verður fjallað um þrjár þeirra, Launsátur eftir Jónínu Leósdóttur, Þú sérð mig ekki eftir Evu Björgu Ægisdóttur og Úti eftir Ragnar Jónssson. Glæpasögurnar þrjár eiga margt sameiginlegt þó ólíkar séu og viðfangsefni þeirra teygir sig allt frá dularfullum skemmdarverkum og íkveikjum yfir í ættardeilur, framhjáhald og hryllilegar veiðiferðir uppi á heiði. Þær falla einnig að ólíkum undirgreinum glæpasögunnar og líta má á Launsátur sem nokkurs konar ráðgátusögu á meðan Þú sérð mig ekki og Úti falla fremur að undirgrein sálfræðitryllisins. Draugagang af margvíslegu tagi er þar að auki að finna í Þú sérð mig ekki og Úti en sú síðarnefnda sver sig einmitt nokkuð í ætt við hryllingssöguna á meðan þeirri fyrri svipar fremur til hefðbundinnar fjölskyldusögu.

Launsátur

Glæpamál í miðjum faraldri

Hvað gerist þegar hið kunnulega verður skyndilega framandi og hættulegt, þegar aðstæður sem við töldum áður öruggar verða allt í einu háskalegar? Launsátur er ný glæpasaga eftir Jónínu Leósdóttur og hefst í miðri fyrstu bylgju Covid-19 faraldursins þegar nálar taka að finnast í hversdagslegum neysluvörum á borð við ávexti, kokteilpylsur og klósettpappír. Skyndilega er það ekki einungis Covid-19 sem ber að óttast heldur leynist hættan hvarvetna og enginn er hólpinn. En hver hefur svo sem tíma til að rannsaka torvelt glæpamál í miðjum faraldri og eltast við lævísan glæpamann sem stingur nálum í ávexti þegar hálf lögregludeildin er í sóttkví og sífellt er verið að herða sóttvarnaraðgerðir?

Ef til vill kunna einhverjir lesendur að sakna söguhetjunnar Eddu úr fyrri glæpasögum Jónínu Leósdóttur, Eddumála-seríunni, en Launsátur er fyrsta bókin um rannsóknarlögreglukonuna Soffíu og fyrrverandi eiginmann hennar, sálfræðinginn Adam. Aðdáendur Eddumálabókanna þurfa þó ekki að örvænta því hér stíga fram á sjónarsviðið heillandi nýjar aðalpersónur sem gaman verður að fylgjast með. Saman mynda Soffía og Adam – sem eiga að baki áralangt hjónaband en eru fráskilin þegar sagan hefst – skemmtilegt tvíeyki og rannsóknarteymi sem fellur vel að hefðbundinni formúlu glæpa- eða ráðgátusögunnar. Dýnamíkin á milli hjónanna fyrrverandi er afar skemmtileg og fyndin á köflum og samband þeirra drífur frásögnina áfram. Sögupersónan Jenný bætist síðan við tvíeykið þegar nokkuð er liðið á frásögnina og atburðarásin tekur þá óvænta stefnu. Samband Jennýar og Adams er forvitnilegt og spennandi en skilur lesandann að vísu eftir með margar ósvaraðar spurningar. Hvaðan kemur Jenný eiginlega, og hve lengi hefur hún verið hluti af lífi Adams og jafnvel Soffíu líka? Ef til vill hefði mátt kafa dýpra í samband Adams, Jennýar og Soffíu en eins og er bíð ég bara spennt eftir næstu bók um þetta óvenjulega þríeyki og hlakka til að kynnast þeim betur.

Uppbygging Launsáturs er nokkuð hefðbundinn, glæpurinn er kynntur til sögunnar á fyrstu blaðsíðum bókarinnar og lesandinn kemur þannig beint inn í atburðarásina. Eftir því sem líður á frásögninna vindur hið dularfulla nálarmál upp á sig og inn í söguna fléttast fleiri glæpir au þess sem stórættuð fjölskylda dregst inn í rannsókn glæpamálsins. Smám saman kemur í ljós að fjölskyldan hefur ýmis leyndarmál að geyma, upp koma flókin erfðamál og rifið er ofan af gömlum sárum. Það er því ýmislegt í frásögninni sem kemur á óvart og Jónínu tekst vel að halda spennunni út alla bókina.

Það sem einkennir Launsátur er ekki síst það hversu niðurnjörvuð hún er í tíma og rúmi. Sagan á sér stað í Reykjavík vorið 2020, um það leyti sem Covid-19 faraldurinn greindist fyrst hér á landi, og inn á milli kafla má finna textabrot undir tiltekinni dagsetningu sem færa fréttir af útbreiðslu Covid-19 og auðvelda um leið lesendum að staðsetja sig tímanlega.

LAUGARDAGUR 04.04.2020

Tæplega 1.400 einstaklingar á Íslandi með staðfest Covid-smit og um 6.300 manns í sóttkví.
Fjörutíu og fjórir sjúklingar með Covid-19 liggja á Landspítalanum, þar af ellefu á gjörgæsl og átta þeirra í öndunarvél ... sá yngsti þrjátíu og sjö ára.
Fjórir hafa látist á Íslandi af völdum veirunnar.

Nálægðin við Covid litar andrúmsloft sögunnar óhugnaði og óvissu þó vissulega sé einnig fjallað um faraldurinn á húmorískan máta. Að sama skapi má segja að þemu bókarinnar endurómi að einhverju leyti þá berskjöldun sem fylgir því þegar faraldur líkt og Covid-19 geysar í samfélaginu og hversdagslegir hlutir á borð við innflutta ávexti og klósettferð á veitingastað verða allt í einu varasamir og geta jafnvel dregið fólk til dauða.

Þú sérð mig ekki

Draugagangur á Snæfellsnesi

Líkt og Launsátur fjallar nýútgefin glæpasaga Evu Bjargar Ægisdóttur Þú sérð mig ekki um skuggahliðar og leyndarmál stórættaðrar fjölskyldu. Sagan segir frá hinni auðugu Snæbergsfjölskyldu sem kemur saman á nýju glæsihóteli á Snæfellsnesi í tilefni af afmæli ættföðursins. Eftir því sem líður á veisluhöldin eykst spennan innan hópsins samstíga því að veðrið versnar og draugar fortíðarinnar fara á stjá.  

Þú sérð mig ekki er nokkuð óhefðbundin glæpasaga jafnt að formi sem og efni og er að því leyti frábrugðin Launsátri þrátt fyrir að viðfangsefni bókanna tveggja eigi margt sameiginlegt. Sagan hefst á því að lík eins veislugestanna finnst eftir að hann hefur fallið fram af kletti en ekki er ljóst hvert fórnarlambið er, og hvað þá gerandinn. Það sem á eftir fer er því í raun bæði leit að fórnarlambi og geranda sem og áhugaverð stúdía á Snæbergsfjölskyldunni sem í gegnum frásögnina sýnir á sér margar óvæntar hliðar. Frásögnin er sögð í fyrstu persónu nútíð og lesandinn fær þannig að hlýða á á frásögn nokkurra sögupersóna sem allar liggja undir grun – ýmist sem morðingi eða fórnarlamb – og skyggnast inn í hugarheim þeirra. Lesandanum gefst færi á að rýna í sögupersónurnar og grannskoða tengslin þeirra á milli og ef til vill geta sér til um hver framdi morðið og hvert fórnarlamb þess var. Frásagnarmáti sögunnar er því í senn frumlegur og spennandi og er þetta afar vel gert. Ólíkt Launsátri fer lítið fyrir eiginlegum rannsóknarlögreglum sögunnar, þeim Sævari og Herði, í frásögninni, en látið er að því liggja að þeir muni gegna stærra hlutverki í næstu bókum ásamt lögreglukonunni Elmu sem kynnt er til sögunnar á lokasíðunum og er einmitt aðalpersónan í fyrri bókum Evu Bjargar.

Samfélagsmiðlar leika stórt hlutverk í bókinni sem tekur jafnframt á ýmsum viðkvæmum málum á borð við árásir eltihrella og hefndarklám. Þar spilar frægð Snæbergsfjölskyldunnar einnig inn í en margir fjölskyldumeðlimir hennar halda einmitt úti þekktum reikningum á samfélagsmiðlum. Þar hafa þeir fylgjendur í tugþúsundatali sem fylgja fjölskyldunni eftir í hverju fótmáli líkt og hálfgerðar vofur. Í gegnum söguna verða samfélagsmiðlar því að drungalegum vettvangi þar sem glæsilegur lífsstíll fjölskyldunnar vekur upp bæði öfund og aðdáun en sá sem býr á bakvið skjáinn reynist ekki ávallt allur þar sem hann er séður.

Íslensk veðrátta og þjóðsögur leika mikilvægt hlutverk í Þú sérð mig ekki og svipar henni þannig til nýrrar glæpasögu Ragnars Jónassonar, Úti, sem á sér einnig stað í óbyggðum Íslands. Sögusvið Þú sérð mig ekki er afar afmarkað og nútímalegt glæsihótelið á Snæfellsnesi, þar sem fjölskyldan dvelur yfir veisluhöldin, er óvænt og skemmtileg aukapersóna í bókinni. Eftir því sem á líður á söguna verður hótelið sífellt óhugnalegra: ljós flökta, hurðir skellast og andlit birtast á glugga. Kuldaleg og hrá hönnunin hótelsins fær þannig á sig þjóðsagnakenndan blæ.

Úti

Sálfræðilegur hryllingur uppi á heiði

Glæpasagan Úti eftir Ragnar Jónasson segir frá fjórum vinum, þeim Daníel, Gunnlaugi, Ármanni og Helenu, sem fara saman í veiðiferð upp á heiði snemma veturs og lenda þar í miklu óveðri. Saman leita þau skjóls í litlum veiðikofa og upp hefst óvænt atburðarás. Rétt eins og Þú sérð mig ekki er Úti sálfræðileg glæpasaga sem hverfist um innra líf og leyndarmál sögupersónanna. Í báðum sögum er lesendum gefið færi á að lesa í hinar ólíku sögupersónur bókarinnar og geta sér til um hvað fram hefur farið þeirra á milli áður en sagan hefst. Frásagnarmáti Úti er þó ólíkur þeim sem viðhafður er í Þú sérð mig ekki að því leyti að frásögnin er í þriðju persónu en ekki fyrstu persónu eins og í bók Evu Bjargar. Hver kafli í Úti er þannig tileinkaður einni persónu sem greinir frá atburðum veiðiferðarinnar út frá sínu sjónarhorni en er þó vís til þess að halda ýmsu frá lesandanum. Sögusvið bókarinnar er mjög afmarkað líkt og í Þú sérð mig ekki og tímarammi hennar sömuleiðis sem eykur á spennuna.

Uppbygging bókarinnar er nokkuð frábrugðin formi Launsáturs og Þú sérð mig ekki en þegar sagan hefst er glæpurinn ekki enn kominn til sögunnar og hann á sér ekki stað fyrr en nokkuð er liðið á bókina. Frá fyrstu blaðsíðum bókarinnar er þó ljóst að ekki er allt með felldu. Upphafskaflinn slær tóninn fyrir það sem koma skal og skýtur lesandanum skelk í bringu: „Daníel reyndi að hrópa, en kom ekki upp orði, gat ekki hreyft sig, stóð bara kyrr og horfði fram fyrir sig. Honum snöggkólnaði, hrollurinn hríslaðist upp eftir líkamanum á ógnarhraða. Hann hafði aldrei verið svona hræddur.“ Líkt og í Þú sérð mig ekki leika íslensk náttúra, veðurofsi og þjóðsögur lykilhlutverk í því að skapa sögunni ískyggilega umgjörð og drungalegt andrúmsloft.

Höfundur velur að halda ýmsum upplýsingum um sögupersónurnar fjórar og fortíð þeirra frá lesandanum sem koma í ljós síðar í frásögninni og lestrarupplifunin felst mikið í því að púsla saman ólíkum vísbendingum og búa til heildstæða mynd. Lesandinn veit sömuleiðis alltaf minna en sögupersónurnar sjálfar og er því ávallt skrefi á eftir þeim. Ég er þó ekki viss um að atburðarásin í heild sinni, eins og hún er lögð út undir lok bókar, stæði fyllilega undir sér ef ekki væri fyrir frásagnarmátann sem heldur lesendum á tánum út söguna. Sumar þeirra upplýsinga sem ekki eru gefnar upp fyrr en liðið er á söguna virðast nokkuð handahófskenndar en hefðu ef til vill getað styrkt söguþráðinn og sögupersónurnar sjálfar hefðu þær komið fram fyrr í frásögninni. Frásögnin er þó engu síður spennandi og höfundi tekst að skjóta lesandanum skelk í bringu með dularfullri atburðarás og óvæntum uppljóstrunum.
 

Snædís Björnsdóttir, desember 2021