Beint í efni

Leiðin út í heim

Leiðin út í heim
Höfundur
Hermann Stefánsson
Útgefandi
Sæmundur
Staður
Selfoss
Ár
2015
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Vera Knútsdóttir

Leiðin út í heim er fimmta skáldsaga Hermanns Stefánssonar og nýjasta afurð ferils sem hófst með skáldfræðiritinu Sjónhverfingar árið 2003.  Á eftir fylgdi þríleikurinn um rithöfundinn Guðjón og konu hans Helenu í sögunum Níu þjófalyklar (2004), Stefnuljós (2005) og Algleymi (2008). Fyrir tveimur árum gaf Hermann út skáldsöguna Hælið í 1005, tímariti sem kom út um árabil og hann ásamt fleirum stóð að, og í fyrra kom út endurminningabókin Spennustöðin á vegum Tunglútgáfunnar. Eintökin sem Tunglútgáfan gefur út eru meira en lítið fágæt því hver bók er aðeins gefin út í 69 eintökum og eingöngu seld í útgáfuhófi sem fram fer undir fullu tungli. Spennustöðin fór því ef til vill ekki hátt en hlaut lof þeirra sem lásu og hana er hægt að nálgast á öllum betri bókasöfnum bæjarins.

Hugtakið skáldsaga verður yfirleitt flókið í meðförum Hermanns. Sem dæmi má nefna smásagnasafnið Níu þjófalykla, sem reyndist skáldsaga í dulargervi, og önnur verk sem hefur ýmist verið lýst með hugtökum á borð við „hugmyndatryllir“ eða borið undirtitla eins og „stílabók“ eða „skáldfræðirit“. Hermann er þar að auki einn helsti fulltrúi hinnar póstmódernísku sjálfsögu (e. metafiction) á Íslandi. Hugtakið á við sögur sem lýsa tilurð sinni, vísa stöðugt í sjálfar sig og birta um leið hugleiðingar um skrif, frásagnir og skáldskap almennt. Sjálft frásagnarformið er höfundi hugleikið og hann gerir markvisst tilraunir með það og miðlar þar að auki tilraunum sínum til lesandans. Verk Hermanns eru því verk á mörkum skilgreininga og einkennast ýmist af fléttu skáldskapar og veruleika eða skáldskapar og fræða.

Það á ennig við um Leiðina út í heim. Hún er öðrum þræði umritun á barnasögunni sem allir lesendur þekkja, Palli var einn í heiminum. Jafnframt hefur frásögnin að geyma vangaveltur sögumannsins um ritun sögunnar og þau viðfangsefni sem barnasagan tæpir á og vísar til, en fjallar ekki beint um. Saga Hermanns fylgir atburðarás barnasögunnar nokkuð vel. Við fylgjumst með Palla ganga á grasinu einmitt þar sem ekki má ganga, keyra strætisvagn og elda sér hafragraut á hóteli. En hinn raunsæislegi frásagnarmáti, sem við þekkjum úr barnasögunni, víkur fyrir annarlegum veruleika Palla í Leiðinni sem birtist lesendum sem hálfgerður draumveruleiki. Lesendur vita ekki alltaf hvort Palli í Leiðinni er vakandi eða sofandi en sá óljósi þáttur er ef til vill úrvinnsla höfundar á heldur billegum endalokum barnasögunnar þar sem Palli vaknar og sérkennilegar aðstæðurnar eru afgreiddar með heldur einfaldri töfralausn; sem draumur.

Stíll sögunnar, og þá sérstaklega í upphafi, er lágstemmdur. Að sama skapi skynjar lesandinn að mikið kraumar undir yfirborðinu og bíður eftir að brjóta sér leið upp á textaflötinn. Að því leyti minnir upphaf Leiðarinnar út í heim á hið sígilda verk Albert Camus, Útlendinginn. Síðar taka að birtast beinar vísanir í verk Camus, til dæmis í söguna um Sísifos, sem kemur reyndar oft við sögu í verkum Hermanns, sem og beinar vísanir og vangaveltur um tilvistarstefnuna. Lesendur barnasögunnar um Palla sem var einn í heiminum leiða ef til vill ekki hugann að tilvistarlegum aukamerkingum frásagnarinnar. Þegar betur er að gáð, og með umritun Hermanns á sögunni, er ljóst að hér er ekki aðeins um að ræða tilraun til að gera saklausa barnasögu að tilvistarlegu verki heldur draga fram og skerpa á hugmyndum sem liggja upprunalegu sögunni til grundvallar. Þetta má til að mynda sjá í eftirfarandi textabroti:

Haldi fram sem horfir verður hann laus undan allri þeirri þrúgandi ábyrgð sem því fylgir að eiga hlutdeild í samfélagi og persónuleg ábyrgð hans um leið meiri en nokkru sinni fyrr. Hann veltir fyrir sér hvort hann eigi ekki að skammast sín fyrir að kætast yfir mannleysinu og einsemd sinni. Er fögnuður hans andfélagslegur og óheimill? (bls. 18)

Eins og á oft við um sögur ætlaðar börnum lýsir barnasagan þroska aðalpersónunnar og í lokin gerir Palli sér grein fyrir mikilvægi „annarra“ í heiminum. Leiðin út í heim tæpir einnig á svipuðum stefjum en flækir þau um leið. Á köflum telur lesandinn sig fylgja eftir dæmigerðri andhetju í anda tilvistarstefnulegs skáldskapar og vera staddur í svokallaðri andþroskasögu þar sem hinu sígilda mótífi þroskasögunnar er snúið á haus. En endalokin og stöðug leit Palla í Leiðinni að öðrum persónum og manneskjum koma í veg fyrir að hún verði afgreidd á einfaldan hátt sem annaðhvort eða saga. Þetta kemur skýrt fram þegar lesandi ber titil Hermanns við titil barnasögunnar og veltir fyrir sér hvernig titlarnir kallast á. Titill barnasögunnar er gagnsær og lýsir þeim aðstæðum sem  frásögnin birtir nokkuð afdráttarlaust. Hins vegar, og þrátt fyrir að titillinn Leiðin út í heim virðist gefa til kynna stefnu sem teygir sig í átt að þroskasögu, verður sú hugmynd sífellt flóknari eftir því sem líður á lesturinn.

Vangaveltur sögumannsins í Leiðinni draga einnig athygli lesandans að stöðu skáldskaparins í samtímanum og að samkeppni hinnar prentuðu skáldsögu við aðra miðla.  Til dæmis netmiðla sem allir lesendur geta nálgast, eigi þeir tölvu og hafi þeir nettengingu, og svalar látlausri nýjungagirni og forvitni þeirra með óþrjótandi uppsprettu af dægurefni á öllum tímum sólarhringsins. Þær aðstæður benda til þess að prentuð skáldverk í nútímanum verði að mæta ákveðnum kröfum sem birtist meðal annars í áherslunni á áþreifanleika þeirra sem hluta. Höfundur Leiðarinnar er meðvitaður um þær áherslur því bókin er einkar fallega hönnuð og eigulegur prentgripur. En að sama skapi birtist einnig krafan um breyttar áherslur í frásagnaraðferð skáldsagna sem höfundur veltir fyrir sér með írónískum hætti:

Jæja, nú þarf að gerast eitthvað allt annað. Þannig eru bækur. Það þarf að kaflaskipta þeim þannig að lesandinn nenni að lesa þær. Þær þurfa að vera í litlum flekum fyrir fimm ára börn, þau eru besta viðmiðið. Sífellt kemur eitthvað nýtt og nýtt. Svo kemur eitthvað annað. Leiðinn fær yfirhöndina og heimtar enn aðra nýjung. (bls. 75)

Leiðin út í heim er forvitnileg viðbót í tilraunaflóru rithöfundarins Hermanns Stefánssonar. Þá er sagan til þess fallin að hafa áhrif á viðhorf lesenda til skáldskapar, en þeir gætu tekið að velta fyrir sér aukamerkingum og skírskotunum annarra barnasagna sem þeir lásu í æsku.

Vera Knútsdóttir, nóvember 2015