Beint í efni

Ljóð námu völd

Ljóð námu völd
Höfundur
Sigurður Pálsson
Útgefandi
Forlagið
Staður
Reykjavík
Ár
1990
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Kjartan Már Ómarsson

Sunnudaginn 21. mars 2021 var alþjóðadagur ljóðsins haldinn hátíðlegur víða um heim og kaus Bókmenntaborgin Reykjavík að fagna því með að raungera nokkur ljóð Sigurðar Pálssonar - fjögur réttara sagt. Segja má að hugmyndin hafi fæðst upp úr lestri annars skálds, en á nýársdag kom fjöldi skálda saman í Gröndalshúsi til þess að lesa inn árið á meðan dagljóst var í borginni. Bergþóru Snæbjörnsdóttur seinkaði ögn og því fékk Ragnar Helgi Ólafsson - einn upphafsmanna þessa viðburðar sem var nú haldinn í fjórða sinn – óvænt það hlutverk að hafa lítið eitt ofan af fyrir áheyrendum á meðan Bergþóra fór úr úlpunni og fékk sér kaffi. Meðal annars las Ragnar Helgi „Nokkrar verklegar æfingar í atburðaskáldskap“ eftir Sigurð Pálsson. Sjá má fyrir sér að Ragnar hafi þar verið í hlutverki sáðmanns á akri íslenskrar orðlistar því áttatíu dögum síðar færir Bókmenntaborgin íslenskum ljóðaunnendum afrakstur þess lestrar, fjögur myndskeið sem sýna tilraun til að framkvæma „Nokkrar verklegar æfingar í atburðaskáldskap“ rúmum þrjátíu árum eftir að þær birtust fyrst á prenti.

Sigurður Pálsson var afkastamikið skáld og sannkallaður lífsförunautur ljóðsins eins og útgáfuferill hans ber vitni um en á starfsævi hans komu út 16 ljóðabækur með jöfnu millibili ásamt því sem hann ritaði skáldsögur, leikrit og endurminningabækur. Sjötta ljóðabók Sigurðar, Ljóð námu völd, kom út árið 1990 og var sú þriðja í ,námuflokknum‘ en áður höfðu komið út ,námubækurnar‘ Ljóð námu land (1985) og Ljóð námu menn (1988). Ljóð námu völd skiptist í fimm hluta (Ljóðnámuvöld, Mánaðaljóð, Von og óvon, Sveifla, Salt) sem hver um sig inniheldur lítinn flokk ljóða. Í lok ,Sveifluhlutans‘ er syrpa sem Sigurður titlar „Nokkrar verklegar æfingar í atburðaskáldskap“. Titillinn einn og sér kallar á nokkra umhugsun. Kannski ekki síst hvað ,atburðaskáldskapur‘ sé. Orðið skapar ákveðin hugrenningartengsl við það sem er í daglegu máli kallað ,listgjörningur‘ en er – hugsanlega – þegar betur er að gáð eilítið vandmeðfarnara.

Í lestri virka ,æfingarnar‘ ögn eins og absúrdleikrit eða súrrealísk örverk og er það ekki að ástæðulausu því Sigurður var þessum stefum vel kunnugur. Hann hafði til dæmis þýtt Paroles (1945) eftir súrrealistann Jacques Prévert seint á níunda áratugnum sem kom út undir titlinum Ljóð í mæltu máli (1987) og L’Amour la Poésie (1929) ásamt völdum ljóðum eftir Paul Éluard tæpum áratug síðar sem Ástin ljóðlistin og önnur ljóð, en báðir tilheyrðu Prévert og Éluard ,fyrstu bylgju‘ sögulega súrrealismans sem lagði fram stefnuskrá sína árið 1924 undir handleiðslu André Breton.

Eiríkur Guðmundsson talar um það á einum stað að mörg ljóð Sigurðar Pálssonar beri merki um barnslega trú, að þau hafi getu til þess að ,nema‘ völd í „hugum lesenda og grípa inn í eða hafa áhrif á tilveru þeirra“ („Mörg andlit akasíutrésins”, bls. 489) og jafnframt að viðhorf Sigurðar séu fólgin í því að ljóðlistin sé undirstaða þess að hægt sé „að lifa merkingarbæru lífi hér og nú“ (489). Hér má greina enduróm yfirlýstra markmiða súrrealista sögulegu framúrstefnunnar, að knýja fram róttæka menningarlega og andlega byltingu sem skyldi frelsa manninn undan hlekkjum rökhyggjunnar, þar sem virkni skáldlegrar og listrænnar hugsunar í hversdagslífi almennings vó þungt á skálunum. Andspænis fyrrsögðu er freistandi að varpa fram þeirri spurningu hvort flokka eigi ,æfingar‘ Sigurðar undir súrrealískan verknað, en áður en gerð er tilraun til þess að svara því er hollt að hafa í huga að ,æfingarnar‘ eru ekki einu skrif Sigurðar af þessu tagi.

Í fyrstu bók Sigurðar, Ljóð vega salt (1975) er stuttur kafli sem kallaðist „Örstyttur (ljóð fyrir svið: leiksvið og leikrými)“. Þar eru fjórar ,senur‘ með sviðslýsingum, persónum og jafnvel tilmælum um búninga. Örstytturnar mætti hugsa sér sem stutt absúrdleikverk eða súrrealíska gjörninga eins og „Örstytta I“ ber með sér:

svið: hvítt rúm. hvítt borð. á því er hitamælir, rjómasprauta og undirskál. rauðar slöngur á veggjunum, sem þenjast út 120 sinnum á mínútu, taktfast.

hann: klæddur í ökklasíða peysu

hún: í apabúningi

hann liggur í rúminu með hátalara. hún kemur inn í apabúningi og gengur að honum og byrjar að rekja peysuna upp neðan frá. hann veltist út um allt á meðan; útúr rúminu, uppí það aftur eins og kólerusjúklingur eða vitfirringur og umlar í hátalarann það sem honum býr í brjósti. þegar hún hefur rakið upp nægju sína tekur hún hitamæli af borðinu og mælir hann. tekur síðan rjómasprautu og sprautar á vegginn töluna sem mælirinn sýnir. brýtur síðan mælinn í tvennt þannig að kvikasilfrið flæði á undirskálina. bendir síðan einhverjum áhorfanda sem henni líst illa á að koma uppá svið. matar hann á kvikasilfrinu með teskeið. áhorfandinn dettur dauður niður (kvikasilfur er eitrað). slöngurnar á veggjunum hætta að slá. hún klæðir sig úr apabúningnum og færir þeim rúmliggjandi fulla skál af jarðarberjum. hann er fullkomlega rólegur og hún lýkur við að rekja utan af honum peysuna. (83)

Þá birtist kafli í Ljóð vega gerð (1982) sem kallaðist „Talmyndastyttur (stuttar talmyndir): Ljóð fyrir svið 1972-1981“. Þar koma fyrir sjónir lesanda fjórar ,talmyndastyttur‘ sem merktar eru sviði (Laugardalslaugin; Austurstræti; Tjörnin í Reykjavík og Syðri Tjörnin í Reykjavík). Í fyrstu Talmyndastyttu er Guðbergi Bergssyni gert að stinga sér ofan í Laugardalslaugina, synda eins hratt og hann getur milli bakka og fara með ljóð og láta bjarga sér frá drukknun. Í annarri talmyndastyttu Sigurðar á svartur maður í hvítum skóm einum fata að hlaupa frá Lækjartorgi í átt að Hallærisplaninu á sama tíma og hundrað kílóa ísmoli fellur niður í fallhlíf á horn Austur- og Aðalstrætis eftir að Austurstrætið hefur verið málað eldrautt endanna á milli. Hinar tvær stytturnar eru með álíka sniði og hverfast um konur og Reykjavíkurtjörn. Önnur gengur kringum Tjörnina meðfram því sem hún þylur endurtekið ljóð undir tónlist Brahms á meðan vatnið í Tjörninni smádökknar þar til „vatnið [er] orðið dökkblátt eins og blek og grasið eins og sina“ (101). Í „Talmyndastytta IV“ siglir svartklædd eldri kona hins vegar út á Tjörnina.

Svið: Syðri Tjörnin í Reykjavík

Á nýju tungli stendur gráhærð alsvartklædd

kona í ljósgrænum litlum báti í miðri Syðri

Tjörninni í Reykjavík. Hún kastar árunum fyrir

borð. Kveikir síðan á lukt í stafni bátsins,

annarri á stjórnborða, þriðju á bakborða.

Stendur síðan á þóftu bátsins í miðjum þessum

luktarljósaþríhyrningi og fer með eftirfarandi:

Árin líða undir lok

(líða árin?)

ekki við ástin

nei og aftur já

ástin

Draumar líða undir lok

(líða draumar?)

ekki við ástin

nei og aftur já

ástin

Við líðum undir lok

(líðum við?)

ekki við ástin

nei og aftur já

ástin

Síðan krýpur hún á þóftuna og segir:

Sérðu ekki geislann

í enni mínu

Karon Karon

Ljósin á luktunum slökkna þá af sjálfu sér.

Gamla konan sígur útaf í þóftunni niður í bátinn.

Ljós stígur upp af enni hennar. (103)

Séu þessir þrír ljóðaflokkar bornir saman má sjá hvort í senn líkindi og ólíkindi. Annars vegar sjáum við hvernig Sigurður vinnur meðvitað í ljóðagerð sinni að því að færa út kvíar ljóðsins af blaðsíðunni og í átt að einhvers konar verklýsingu sem brýtur upp vanalega tilveru borgarans í þekktu umhverfi borgarinnar. Ljóðið verður að tæki til að dásama augnablikið og svipta burt hulu vanans í „stöðugri uppreisn gegn niðurdrepandi öflum tilverunnar“ eins og það er orðað á einum stað. Í huga skáldsins er ljóð ekki aðeins til lesturs og innhverfrar íhugunar, það skal framkvæmt – líkt og galdur.

Þá má einnig sjá framvindu í því hvernig ljóðverknaður Sigurðar færist af sviðsfjölunum (ég skynja a.m.k. örstytturnar eins og aktúel leikhúsverk) og út í borgarlandslagið. Örstytturnar eiga sér stað á óskilgreindu sviði en eru engu að síður afgirt umgjörð einhvers konar leikhúss. Sviðið er þannig múrað inni, umkringt leikhúsveggjum og óaðgengilegt pöplinum í ákveðnum skilningi, því það er einkenni broddborgara að þeir hafi ,rými‘ til umráða, hafi lyklavöld og skotsilfur til að kaupa sér aðgang að menningunni en jaðarmennin hafi aðeins tímann til taks, líkt og Michel Certeau benti á sínum tíma á. Hversdagurinn væri í því samhengi andrými borgaralegs þjóðskipulags og tákngervingur grunnstoða lífsins sem yfirþyrmandi aðferðir nútímatækninnar geta ekki stjórnað. Talmyndirnar eru því hugsanlega ,almennari‘ í einhverjum skilningi því þær standa fyrir opnum tjöldum og eins væru þær and-borgaralegri, því þær kosta ekki neitt (nema tíma).

Í ljóðum Sigurðar frá áttunda áratugnum er ekki laust við gagnrýnan tón í garð neyslumenningar og góðborgarahátts eins og greina má í opnunarljóði bókarinnar Ljóð vega menn sem kom út árið 1980. Þar talar Sigurður um splundruð „smáborgarvíti“, „helvíti neyslumenningarinnar“ og „feit[a] mærð hinna efalausu“ og agíterar fyrir flótta á hringvegi ljóðsins burt fá „síbylju háskalausrar málamyndabaráttu“ burt frá „síbylju óumbreytileikans pempíuglaða“ og „síbylju öryggislæstu sannleikskommóðunnar“ („Á hringvegi ljóðsins“, bls. 7-8). Átta árum síðar má heyra sömu hugsun hringja í ljóði hans „Möskvar“: „Það er enginn ótvíræður munur / á dauðum hlutum í búðargluggum / og okkur sem speglumst í þeim“ (bls. 34) og því þarf engan að undra að Sigurður vinni áfram með þessi stef en brjóti niður veggi og festi sig í sessi í almenningsrýminu.

Þá er aðeins þriðja skrefið óstigið, að innlima lesandann sjálfan í textann og gera að drifafli á hringvegi ljóðsins. Í fyrri tveimur ljóðagjörningum Sigurðar er lesandanum boðið að bregða upp kviksjá og virða fyrir sér nýtt samræmi - endurlifa, endurmeta, endurskilgreina og endurnýjast. En lesandinn, að því undanskildu að hann sé þátttakandi í merkingarsköpun textans, er óvirkur. Í „Nokkrum verklegum æfingum í atburðaskáldskap“ er lesanda á hinn bóginn ekki aðeins boðið að virkja skáldskapinn, hann gengur inn í verkið með framkvæmdinni og „textar“ tilveru sína um stund. Hann á í virku samtali við skáldið og leiðbeiningarnar, fer eftir bókinni.

Staðirnir sem ,æfingar‘ Sigurðar skulu eiga sér stað á eru gott betur en hlutlausar hallir í hnitakerfi borgarinnar. Þeir mynda ákveðna heild í skipulagslegum miðpunkti Reykjavíkur. Alþingi, Pósthúsið, Reykjavíkurapótek og Hótel Borg eru annað og meir en tóm burðarvirki sem hafa eiginleika til þess að rúma fólk. Þetta eru merkingarþrungnir staðir í sjálfsmynd borgarinnar/borgaranna. Þær byggingar sem hér um ræðir eru ekki eintómt járn og gler, eintómir hurðarhúnar og gljáfægð gólf, heldur eru þær boðberar hugmynda: Stjórnsýsla, fjarskipti, lyfjamenning og lúxushótel eru borgaraleg fyrirbæri. Þingmaðurinn hækkar skatta, sendir skeyti út í heim, sækir sér upp-og-niður-töflur í tekið og fær sér loks brandí á Borginni. Þetta eru „smáborgarvítin“ og „helvíti neyslumenningarinnar“ sem Sigurður talar um.

Það er kannski í því samhengi, líka, sem „Nokkrar verklegar æfingar í atburðaskáldskap“ eru frábrugðnar absúrd-, og eða súrrealískri stefnu fyrri flokkanna og standa nær hugmyndum frönsku sitúasjónistanna sem voru nokkuð ötulir á sjötta og sjöunda tug í Frakklandi. Þeir sóttu margt til starfsemi og hugmynda súrrealista, en settu fram jafnvel enn róttækari kröfu um einingu listar og lífs en þeir fyrrnefndu. Meðal stefnumála sitúasjónista var að brjóta upp ríkjandi borgarskipulag og hefur Benedikt Hjartarson einmitt bent á að í „þeirra huga var stórborgin tákngervingur þess sýndarsamfélags sem stefndi að æ meiri heildstæðni og einsleitni og gerði þegnana að hlutlausum áhorfendum“ („Staðlausir staðir“, bls. 84). Það er kannski ekki síst þetta hlutlausa ástand sem ,æfingunum‘ er stefnt gegn, en til að virkja þegnana og sundra einingu sýndarsamfélagsins bjuggu sitúasjónistar til ,aðstæður‘ sem afhjúpuðu hina borgaralegu hugmyndafræði sem lægi að baki. Slíkar ,aðstæður‘ voru skilgreindar sem: andartak í lífinu, skapað á áþreifanlegan og vísvitandi hátt með sameiginlegri skipulagningu á heildstæðu andrúmslofti og leik með viðburði. Þær voru meðvituð tilraun til þess að valda brestum í sjálfsmynd viðstaddra og knýja þá til að breyta lífsháttum sínum með því að „veita þeim innsýn í aðra lífsskipan sem grundvallast á „leik““ (85). „Nokkrar verklegar æfingar í atburðaskáldskap“ eru því í ákveðnum skilningi eins og forskrift að sitúasjónísku andartaki sem veldur brestum í sjálfsmynd þeirra sem hafast við í borgarlegustu byggingum miðbæjarins.

Að því sögðu mætti yfirvega annan en ekki síður forvitnilegan anga sem eftir stendur, sem væri textaleg geymd borgarinnar líkt og hún birtist okkur í bókmenntunum. Ljóst er að sú borg sem lifir í ljóði Sigurðar hefur tekið nokkrum breytingum. Pósthúsið er farið, í dag er húsið tóm rauðmáluð skel sem engan hefur langað að leigja undanfarin ár; Reykjavíkurapótek flutti sömuleiðis um síðustu aldamót; fyrrum aðaldyr Alþingis eru núorðið einungis opnar á tyllidögum; búið er að skilja sundur rekstur hótelsins og veitingastaðarins á Hótel Borg og rekrarstjóri veitingasalarins hafði ekki tök á að bjóða okkur inn.

Þá má deila um hvort tilraunin hafi heppnast (eðli tilrauna er kannski slíkt að það skipti engu hvort þær heppnist eða ekki). Að einhverju leyti líður manni eins og krossriddara ljóðsins, þeim sem kemur hugsjóninni í verk. En í hreinskilni sagt er maður hugsanlega skyldari skósveini með háleitar hugmyndir, blanda af Pansa og þykjustusitúasjónista, því þrátt fyrir að einhvers konar framkvæmd hafi átt sér stað var hún gerð eftir settum reglum smáborgarans. Við hringdum á undan okkur, báðum um leyfi, vorum bljúg og bugtandi í hvarvetna. Þetta var kannski ekki fullkomlega eftir bókinni.

Kjartan Már Ómarsson, 23. mars 2021