Beint í efni

Ljóðveldið Ísland

Ljóðveldið Ísland
Höfundur
Sindri Freysson
Útgefandi
Óskráð
Staður
Reykjavík
Ár
2009
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Það er gömul klisja að listin blómstri undir erfiðum kringumstæðum. Hungur, kreppur og hörmungar hverskyns eru samkvæmt þessu helstu fulltrúar listagyðjanna sem í krafti eymdar streyma óheftar um soltnar æðar skálda, myndlistamanna, leikara og annarra stofustássa. Því miður er ýmislegt til í þessu, þó löngu sé orðið ljóst að hungrað og kalið skáld sé kannski ekki endilega vel fallið til að skila frá sér snilli. Hinsvegar er einfalt að sjá að hverskyns umrót í samfélaginu er listafólki iðulega hvati, hvort sem er til tilrauna eða aukinna pólitískra átaka. Reyndar hefur pólitík einkennt nokkuð íslenskar bókmenntir á síðustu árum og tengist sú bylgja annarsvegar uppgangi íslenskra glæpasagna sem hafa verið iðnar við það hlutverk sitt að fjalla um samfélagsleg átakamál og hinsvegar hafa skáld sem tengjast Nýhil hópnum teflt fram pólitískum skrifum af ýmsu tagi. Síðast en ekki síst ber að nefna hlut myndasögunnar, en höfundar eins og Halldór Baldursson og Hugleikur Dagsson hafa leikið mikilvægt hlutverk í því að halda uppi spéspegli fyrir íslenska þjóð: þjóðina sem Sindri Freysson kallar ‘ljóðveldið Ísland’.

Bók Sindra, Ljóðveldið Ísland, er hápólitískt söguljóð, þarsem saga lýðveldisins í 65 ár er rakin í 66 erindum, eins og segir á titilsíðu. Bókin er beint viðbragð við kreppunni og þar veltir höfundur fyrir sér sögu íslenska lýðveldisins og stiklar á ýmsum atburðum, bæði stórum og smáum. Markmiðið er að greina íslenska lýðveldið og varpa ljóði, afsakið, ljósi á kreppuna sem nú fer hörðum höndum um bankareikninga (en ekki bensíntanka ef marka má fáránlegt bílafarganið) Íslendinga. Í heildina má segja að þetta heppnist. Þrátt fyrir að stefið ‘ljóðveldið’ verði ofurlítið þreytt þegar á líður, þá nær það ekki að draga úr þeim slagkrafti sem einkennir bókina. Lokakaflanir, þeir sem eru næst okkur í tíma, eru kannski hvað óreglulegastir í laginu, enda þar af mörgu að taka og fjarlægðin hefur ekki gert höfundi eins auðvelt fyrir að raða atburðum, eins og fyrr segir bæði smáum og stórum, í það sláandi samhengi sem hann nær að fanga víða framar í bókinni. Á hinn bóginn er kannski eðlilegt að mikið gangi á undir lokin, bálkurinn er þess eðlis og jafnvel mætti segja að finna megi samspil milli þeirrar upplausnar sem ljóðið lýsir og þeirrar upplausnar sem kemur inn í ljóðið þarna undir lokin.

Almennt séð tekst Sindra alveg ágætlega að halda jafnvægi milli ‘ljóðsins’ (hvað sem það nú er) og hins pólitíska boðskapar, á stundum kallar hann fram áhrifamiklar myndir (þær eru kannski hvað mest áberandi á fyrstu áratugunum), bæði í myndmáli og atburðarás. Það sem mér finnst einna sterkast er hvernig höfundur fléttar hina ýmsu atburði saman í áhugavert samhengi og skapar óvæntar tengingar sem gera það að verkum að lesandi er knúinn til að skoða söguna, ljóðið og tímann uppá nýtt. Sem slík myndi ég halda að Ljóðveldið Ísland ætti að vera skyldulesning í skólum (þó það sé hætt við að með því að nota orð eins og skylda fari nemendur í baklás), hér er boðið uppá skemmtilega, rífandi hraða og hvassa söguskoðun sem opnar áhugaverða sýn á Ísland í dag, Ísland í gær, og, því miður, líklegast Ísland á morgun.

Úlfhildur Dagsdóttir, október 2009