Beint í efni

Ljósa

Ljósa
Höfundur
Kristín Steinsdóttir
Útgefandi
Dimma
Staður
Reykjavík
Ár
2011
Flokkur
Hljóðbækur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Margir þræðir fléttast saman í þessari nýju skáldsögu Kristínar Steinsdóttur. Segja má að aðalumfjöllunarefnið sé vaxandi geðsýki eða hugsýki aðalsöguhetjunnar, Ljósu, en margt fleira kemur til. Það sem kannski blasir fyrst við lesanda er að höfundur er að vinna með íslenska sveitasagnahefð. Íslenska sveitasagan, sérstaklega í meðförum kvenrithöfunda á borð við Guðrúnu frá Lundi og Ingibjörgu Sigurðardóttur, hefur löngum tengst ástarsögunni sterkum böndum. Enda er það ástarsorg sem skapar fyrsta alvarlega áfall Ljósu. Sveitasagan er líka nátengd heimi kvenna en staða konunnar er sérlega nálæg í allri sögunni. Tök Kristínar á viðfangsefnum þessum og samþáttun þeirra eru fumlaus og án allrar væmni, það er hógvær kraftur í þessari sögu sem bæði minnir á fyrri skáldsögur höfundar fyrir fullorðna og er frábrugðinn þeim. Ljósa er greinilega viðamesta skáldsaga Kristínar til þessa, fyrri sögur hennar, Sólin sest að morgni (2004) og Á eigin vegum (2006), eru mun styttri.

Magn er þó ekki endilega það sama og gæði eins og Kristín sýndi í þeim sögum. Ljósa er hins vegar dæmi þess að magn og gæði geti farið saman, því skáldsagan er bæði áhrifamikil og falleg.

Ljósa er dóttir hreppstjórahjóna á Austurlandi síðla á nítjándu öld. Hún á stóran systkinahóp, ekki síst vegna þess að faðir hennar er ákaflega lauslátur og barnar bæði vinnukonur og aðrar konur sem á vegi hans verða. Ljósa elskar móður sína og dáir föður sinn líka, þrátt fyrir þessa bresti hans sem hún sér að valda móðurinni mikilli sorg. Strax hér hefst ómöguleg togstreita innra með stúlkunni, sem á sinn þátt í andlegum erfiðleikum hennar. Hún kynnist ungum manni sem faðirinn hafnar, meðal annars vegna þess að hann er brjóstveikur, og sendir stúlkuna í skóla til Reykjavíkur. Þar blómstrar hún, enda gædd góðri greind og sérstökum hæfileikum þegar kemur að saumaskap og orgelleik. Hún er þó hætt komin þegar ljóst verður að af frekara sambandi við piltinn verður ekki.

Hér má þegar sjá ýmis kunnugleg þemu sveita- og ástarsögunnar, en berklaveikin hefur af einhverjum ástæðum löngum verið sveipuð rómantískum hjúpi. Sagan af hreppstjóranum sem hleypur útundan sér, en telur þó engan mann nógu góðan fyrir dóttur sína, er einnig klassísk, en í meðförum höfundar verða þessi þemu þó aldrei klisjukennd og kemur þar ekki síst til agað tungumálið og sterkur stíll. Hér varð mér svo einnig hugsað til sagna Einars Más Guðmundssonar, bæði Engla alheimsins (1993) sem einnig fjallar um ástarsorg sem opnar sár geðveikinnar og Drauma á jörðu (2000), en þar kemur berklaveikin meðal annars við sögu.

Ljósa fer aftur heim í sveitina til foreldra sinna og sver að yfirgefa þau aldrei, ekki síst vill hún vera móður sinni stuðningur. Ungur maður, Vigfús, biður hennar og eftir nokkra umhugsun játast hún honum, án þess þó að elska hann verulega. Hún krefst þess að vera áfram heima, en andrúmsloftið á heimilinu er ekki gott, ekki síst vegna þess að faðirinn er ekki sáttur við tengdasoninn. Hugsýki Ljósu eykst og eykst svo enn þegar Vigfús kaupir jörð og heimtar að flytja þangað.

Það er sérlega eftirtektarvert að fylgjast með því hvernig höfundur byggir upp heim geðveikinnar í samspili við stöðu konunnar. Ljósa er góðu vön frá hreppstjóraheimilinu en eiginmaðurinn forsmáir alla sóun - er greinilega svo hagsýnn að það jaðrar við nísku. Að sjálfsögðu er það huggun kvennanna, kaffi og sætabrauð, sem er meðal þess sem hann gagnrýnir. Sömuleiðis hefur hann takmarkaða þolinmæði gagnvart hannyrðum konu sinnar, og það þrátt fyrir að þær hafi ótvírætt praktískt gildi, bæði fyrir fjölskylduna og heimilið og svo til að bera björg í bú en Ljósa er eftirsótt saumakona. Það sama á við um orgelleikinn og sönginn, sem er ein helsta gleði Ljósu. Hér kemur strax fram togstreita kynjanna, Vigfús vill að eiginkonan hugsi um heimilið að hefðbundnum hætti og skilur ekki þörf hennar fyrir að láta sköpunargleðina njóta sín í saumaskap og söng. En því er ítrekað lýst hvernig þessi tvö atriði hjálpa henni að halda heilsu. Barnahópurinn eykur svo enn á álagið, Ljósa er stöðugt barnshafandi og þrátt fyrir að hún elski börnin þá er ljóst að þau slíta henni út. Arfur föðurins kemur svo fram í stöðugum ótta Ljósu við að Vigfús haldi framhjá henni og hún þolir ekki að hafa vinnukonur á heimilinu, sem síðan eykur álagið á hana enn.

Hér varð mér hugsað til þekktrar smásögu bandarísku skáldkonunnar Charlotte Perkins Gilman, „Gula veggfóðrið“ (1892, á ísl. 1982), sem einmitt er skrifuð um sama leyti og skáldsaga Kristínar gerist, en þar verður sögukonan smám saman geðveik vegna þess að henni tekst ekki að uppfylla hefðbundið eiginkonuhlutverk.

Kristín tengir geðsýki Ljósu hefðbundnum íslenskum temum, en að sögn hafði álfkona lagt álög á föður hennar. Sjálf á hún sér álfkonulund og sér einnig framliðna. Þessi skyggnigáfa, sem einnig er kunnuglegt tema sveitasagna, eykst svo mjög þegar andlegu ástandi hrakar og lesandi áttar sig á að mögulega voru yfirnáttúrulegir hæfileikar alltaf hluti af geðveiki stúlkunnar.

Á þennan hátt mætast margir ólíkir heimar í skáldsögu Kristínar Steinsdóttur og líkt og saumaskapurinn leikur í höndum Ljósu er færni höfundar í því að þætta saman þessa þræði ótvíræð. Einn þráðurinn enn er svo höllin sjálf, faðirinn byggir timburhús sem líkist höll en er þó voðalega kalt. Í höllinni birtist því hliðstæða við togstreituna sem Ljósa upplifir milli foreldra hennar, höllin er hið fullkomna glæsilega heimili, en er jafnframt ómögulegt vegna kuldans. Þessi tilfærsla milli húsa markar einnig tilfærslu í tíma, frá hinu gamla til hins nýja og fyrir Ljósu frá æsku til fullorðinsára. Jafnframt hrakar geðheilsu hennar og því er hægt að sjá hvernig höllin verður að táknmynd innilokunar enda birtist höllin í hennar villtustu draumum um að stofna kvennaskóla í sveitinni - draumur sem svo augljóslega er sprottinn af kvenlegri geðsýki.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2010