Beint í efni

Lygasaga

Lygasaga
Höfundur
Linda Vilhjálmsdóttir
Útgefandi
Forlagið
Staður
Reykjavík
Ár
2003
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Einhverntíma var til bæði bók og mynd sem hét Barflugur, eða álíka, og fjallaði um fólk sem of-sótti bari. Þótti þetta merkilegt því þarna var verið að skoða hið félagslega vandamál og sjúkdóm alkóhólisma frá nýju sjónarhorni. Hvorki las ég bókina né sá myndina, hafði enda lítinn áhuga á viðfangsefninu sem sálgreinar myndu sjálfsagt túlka sem einhverskonar ótta eða flótta af minni hálfu, og læt ég hérmeð lokið mínum játningum á þessu sviði.

Það var því ekki af mikilli tilhlökkun sem ég hnipraði mig saman í stól með nýja skáldsögu Lindu Vilhjálmsdóttur, Lygasögu. Þó var ég í hjarta mínu hughraust því Linda er jú eitt af okkar albestu yngri skáldum. Í stuttu máli sagt tókst Lindu fljótlega að sannfæra mig um að skortur minn á tilhlökkun væri fráleitur og að auðvitað gæti svona gott skáld eins og hún gert góða skáldsögu úr (mál)efni sem virkar svolítið þreytt. Kemur þar helst til stíllinn sem er svalur en jafnframt skarpskyggn, hreinn og beinn, án þess að vera flatur og átakamikill án þess að fara út í æsingamennsku sem slettist sem 'sensationalismi'. Svo ég límdist við bókina og kláraði hana í einum rykk.

Sagan lýsir konu sem á við áfengisvandamál að stríða og vinnur á því. Frásögnin er öll í fyrstu persónu og skiptist á milli þess að rifja upp æskuna og minnast fyllería. Sjónarhornið skiptist því á milli hins barnslega, hins drukkna og svo sjónarhorns hins þurra söguhöfundar sem kannar þetta allt niður í kjölinn. Þannig er dregin upp mynd af því hvernig komplexar í æsku drógu stúlkuna í átt til vímuefna og hvernig sú upplifun hélt áfram að stýra lífi ungrar og seinna fullorðinnar konu. Hér má segja að sé um sérlegt kvenlegt sjónarhorn að ræða, því vandamálin eru klassísk kvenleg vandamál, annarsvegar þörf fyrir fullkomnun og hinsvegar ólýsanlegur kvíði gagnvart því að standa sig ekki og ná aldrei að skara framúr. Strax árið 1929 greindi sálgreinirinn (það er engin tilviljun að ég nefndi sálgreini hér að framan) Joan Riviere þetta ástand í konum á framabraut og ræddi í tengslum við kvenleika þeirra og vandamál með hann: kona má ekki vera of klár, þá er hún ógnun, en samt á hún að geta svo margt. Vissulega hafa vandamálin breyst með tímanum, en eftir stendur þessi sama togstreita kvíða og þarfar fyrir að sanna sig og tjá sig og ná langt. Miðað við allt þetta finnst mér hreint afrek að Linda hafi komið út sínum fjórum frábæru ljóðabókum, en sú nýjasta Öll fallegu orðin er mörgum sérlega minnisstæð.

En hvað með það, togstreita þessi verður til þess að konan leiðist út í vímugjafa sem létta á kvíðanum og stilla af spennuna, og bókin lýsir semsagt þessu á afskaplega skorinortan hátt, barferðum, kynnum af barþjónum, 'blakkátum' og svo í bland vímu bernskunnar og unglingsáranna. Á stundum fannst mér ég vera í hlutverki kaþólsks prests sem hlustar á játningar, svo mögnuð var þulan, án þess þó að fara nokkurntíma yfirum í drama eða tilfinningalegu offlæði.

Lygasaga er ein af þeim skáldsögum sem byggð er á sjálfsævisögu og er gott dæmi um þau fljótandi mörk sem eru milli þessara tveggja forma. Í viðtölum fer Linda ekki leynt með það að þetta sé hennar saga. Það kemur þó ekki í veg fyrir að sagan minnir meira á skáldsögu en þær sjálfsævisögur sem við Íslendingar eigum að venjast, í henni er mjög skáldsöguleg vitund og það er sem slík sem hún virkar svo vel.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2003