Beint í efni

Maðurinn fyrir ofan og konan fyrir neðan

Maðurinn fyrir ofan og konan fyrir neðan
Höfundur
Hlín Agnarsdóttir
Útgefandi
Storytel
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Smásögur
Höfundur umfjöllunar
Þórunn Hrefna

Ný yfirlitsgrein um verk Hlínar Agnarsdóttur hefur litið dagsins ljós hér á vefnum og höfundur hennar er Þórunn Hrefna. Greinin nær allt til dagsins í dag með nýútkomnu verki Hlínar, Yfirsjónir, og við birtum hana hér í heild sinni:

Að skemmta fólki

Hlín Agnarsdóttir hafði látið töluvert að sér kveða í leikritaskrifum áður en fyrsta skáldsaga hennar kom út. Af þekktari leikhúsverkum Hlínar má nefna Láttu ekki deigan síga, Guðmundur (ásamt Eddu Björgvinsdóttur, 1984), revíu sem segir af Guðmundi, manni af 68-kynslóðinni. Hann lítur yfir farinn veg og segir syni sínum af námsmannauppreisnum, mótmælakúltúr og  hippamenningu ungdómsáranna. Konur skelfa (1996) gerist á kvennaklósetti á skemmtistað og er skopstæling á ýmsum þáttum í skemmtanamenningu Íslendinga. Þessi verk nutu gríðarlegra vinsælda og voru sýnd lengi og víða. Af fleiri leikverkum Hlínar má nefna : Alheimsferðir Erna (1993), sem hlaut fyrstu verðlaun í samkeppni um leikþætti sem áttu að fjalla um alnæmisvandann. Erna markaðssetur frjálslyndi Íslendinga í kynferðismálum, en stendur frammi fyrir því að þurfa sjálf að endurskoða frjálslyndi sitt, þar sem hún er hugsanlega smituð af HIV-veirunni. Annað dæmi er Gallerí Njála (1997) sem var í kynningu sagt „fyndið, erótískt og rammíslenskt nútímaleikrit sem segir frá dramatísku ástarsambandi menntakonu og rútubílstjóra sem kynnast á ferð sinni um Njáluslóðir“. Hlín hefur skrifað fjölmörg önnur leikverk fyrir svið og útvarp.

Skrípaleikur við Norðurbrún

Fyrsta skáldsaga Hlínar er Hátt uppi við Norðurbrún, sem kom út 2001. Á bókarkápu segir að Hátt uppi við Norðurbrún sé „snargeggjuð nútímaskáldsaga“ og í kynningu á henni er sagt að hér „rassskelli höfundur þjóðina“.  Vissulega er mikið fjör í sögunni, sem hefst í háhýsi við Norðurbrún í Reykjavík um aldamótin síðustu. Hlín skrifar um Öddu Ísabellu Ingvarz, sem hefur búið í sömu íbúðinni alla ævi. Hún þekkir og hefur samskipti við flesta í húsinu, og hjá henni er mikill gestagangur, enda er hún nútíma sálusorgari, eða „þerripía“, sem rekur mínígeðdeild í rúminu heima hjá sér. Þerripían er samkvæmt henni sjálfri „pía sem þerrar tár þeirra sem þjást andlega“. Hún býður fólki upp í rúm til sín þar sem hún hefur kenningar um að það skapi fullkominn trúnað: „Í rúminu líður öllum best, sérstaklega með öðrum. Þar er leyndarmálum hvíslað í eyra og þar leka tár á kodda“ (19) og ennfremur „Hjá mér fá skjólstæðingarnir tækifæri til að endurupplifa þessa tilfinningu frumbernskunnar þegar allt var öruggt“ (37).

Meðferðarstarf Öddu Ísabellu er þó ekki of fyrirferðarmikið í sögunni, þar sem flækjur skapast snemma og söguhetjan er of önnum kafin við eigin vandamál til þess að hlutast til um annarra.

Eiginmaður Öddu Ísabellu og barnsfaðir, Hreinn Hrafn Haraldsson, sem hún býr að vísu ekki lengur með, kemur mikið við sögu í fyrri hluta bókarinnar. Hann er bæði drykkfelldur og ofbeldishneigður og kemur sér alls staðar út úr húsi, en er þó hámenntaður líffræðingur sem leitar að „síkkópatageninu“ og hefur margoft sótt um vinnu hjá Íslenskri gervagreiningu. Fleiri persónur eru Ari Ferdinard bróðir Öddu Ísabellu, börn hennar, Sæmundur Fróði og Hildur, auk íbúa í húsinu, leigubílstjórans Eiríks og hommanna Lúðvíks og Tony (kallaðir Thorsteinsonhjónin) sem þrá að eignast barn og fá Öddu með sér til þeirra áforma. Á fimmtugsaldri gerist Adda Ísabella leigumóðir og síðari hluti bókarinnar „Móður-harðindi“ hverfist að mestu um það.

Sagan er skrifuð beint inn í samtíma sinn, ytri tími er tiltekinn 1999, og stólpagrín er gert að hafaríinu í kringum yfirvofandi aldamótaár. Á skemmtistað er Adda Ísabella kynnt fyrir  „2000-fólkinu“.

Við borðið hjá henni situr sýningarstjóri ársins 2000, maðurinn hennar, framkvæmdastjóri ársins 2000, sonur þeirra, markaðsstjóri ársins 2000, kærastan hans, kynningarstjóri ársins 2000, bróðir hennar, fjölmiðlafulltrúi ársins 2000 og kærastan hans, aðalfyrirsæta ársins 2000 (77).

Það brestur á með hópsleik og slagsmálum þegar Adda fer út að skemmta sér, þótt Hreinn Hrafn hafi að hennar mati lagast í skapinu og „beiti aðeins ofbeldi í undantekningatilfellum“ (78).

Hlín slær að einhverju leyti tóninn fyrir það sem koma skal í síðari verkunum, þar sem Hátt uppi við Norðurbrún er skýr ádeila. Í þetta sinn á sjálfhverfu og yfirborðsmennsku. Adda Ísabella fær heimsóknir frá glanstímaritinu Sjálfsmynd og Sæmundur Fróði heldur kvikmyndatökuvélum á lofti eftir meint andlát föðurins, ætlar að gera heimildarmynd, „heimild sonar um fyrstu dagana eftir hvarf föður hans“. Hann skrifar líka minningargrein, sem miklu frekar er kynningargrein – kynning á sálarlífi hans sjálfs.

Hátt uppi við Norðurbrún er skaupsaga, nokkurs konar farsi í skáldsagnaformi. Stíllinn er göslaralegur og það er dólgur í húmornum. Margar persónur eru í sögunni og fæstar vandaðar, framhjáhöld, skilnaðir, fyllirí og vesen. Svo brestur á með kór – líkt og í grískum harmleik, um miðbik sögu, þegar Suðurlandsskjálftinn ríður yfir og hinn drykkfelldi líffræðingur hverfur ofan í jörðina.

Skrípaleikurinn nær líklega hámarki þegar Adda sem hefur gengist undir frumstæða sæðingu Thorsteinsonhjónanna og er komin sjö mánuði á leið leikur í gospelmyndbandi. Hún birtist á forsíðu Rascat, helgarútgáfu Sjálfsmyndar, veifandi gullstaf með Hengilinn í baksýn og í fyrirsögninni stendur: „Leigumóðirin Adda Ísabella vekur heimsathygli í hlutverki Guðs“ (240). Upphaflega átti að sýna frá barnsfæðingunni á Skjá beinum en móðirin flýr og eignast afkvæmið í fjárhúsi „fjarri skrásettri heimsbyggð“. Farsakennd ærslin og sviðsetningin í fjárhúsinu bera skýr merki um áhrif úr leikhúsinu, en slík áhrif má sjá víða í höfundarverki Hlínar Agnarsdóttur.

Trúfíflin

Blómin frá Maó (2009) hefst í búsáhaldabyltingunni. Söguhetjan Sigurborg Eyfjörð er að búa sig undir að Miðstöð munnlegrar sögu taki við hana viðtal um fortíð hennar í Maóistahreyfingu á áttunda áratugnum. Í bænum er búsáhaldabyltingin í algleymingi og Sigurborg, sem kölluð er Bogga, „drattaðist loks niður á Austurvöll“,  þótt henni þyki hún hafa mótmælt nóg um ævina. Hún sér rauða fána í mannhafinu og hugsar „Ég sem hélt að allt rautt væri dautt í þessu landi nema blóðið í æðum þjóðarinnar sem hafði streymt lygnt sem áin Don í fullvissu þess að auðurinn væri eilífur“ (11).

Bogga tekur að bera saman þessi mótmæli við mótmæli fortíðarinnar: „Mig rekur ekki minni til að ég hafi fundið fyrir sams konar reiði þegar við ætluðum að bylta þjóðfélaginu, ég og formaðurinn. Reiði okkar var leikur einn í samanburði við reiðina sem bullaði og sauð eins og heitur hver í mótmælendum“ (11).

Hún sér unga stúlku láta að sér kveða í byltingunni, og fær að vita að stúlkan sé háskólanemi og hugsar „Háskólanemi alveg eins og ég hafði verið þegar ég gerðist trúfífl við hirð formannsins.“ (11)  Í mannhafinu kemur hún svo auga á Má fyrrverandi formann öreigasamtakanna pró Kína m-l (Öspin m-l) og fer að rifja upp liðna tíma.

Þegar Bogga hefur nám í félagsráðgjöf í háskólanum 1974 sér hún auglýstan leshring Maóista og gengur til liðs við hann. Sagan hverfist  svo um starfsemi hreyfingarinnar og nær ákveðnum hápunkti þegar aðalsöguhetjan fer til Kína og fær að hitta sjálfan Maó formann. Líka er í sögunni aukaþráður um faðerni Boggu og síðar faðerni sonar hennar.

Bogga (sem er kölluð Sigurborg í hreyfingunni, því formanninum finnst gælunafnið ekki nógu virðulegt) býr í kommúnu hluta af Maótímanum og þar á hún ekki góða vist. Reglurnar þar eru sumar bráðfyndnar, en eitt af því sem henni er uppálagt að gera er að taka niður mynd eftir Nínu Tryggvadóttur sem hún hefur hengt upp á vegg í herbergi sínu þar sem „öll óhlutbundin list er borgaralegt prump og snobb“ að mati formannsins, en listin á samkvæmt honum að lýsa raunverulegu lífi öreiganna:

„Svo ef ég væri í þínum sporum, Sigurborg, tæki ég þessa mynd eftir Nínu niður, hún er ekki af neinu og segir ekkert. Hún samræmist ekki skoðunum okkar hér og er í hróplegu ósamræmi við þann alþýðustíl sem ríkir hér innanhúss.“ (135)

Margt í Blómunum frá Maó er sprenghlægilegt. Svo stórt lítur formaðurinn á sig og hreyfinguna að öll eru þau látin taka sér dulnefni, ef KGB myndi komast á snoðir um áform þeirra um byltingu.

Bogga, sem hefur dulnefnið Skotta, verður varaformaður og er hvött til þess að hætta námi. „Ef ég héldi áfram í Háskólanum væri hætta á því að ég yrði borgaraleg menntakona sem ætti enga samleið með verkakonum og ef ég vildi vera sönn í baráttunni, hætti ég auðvitað tafarlaust í háskólanum og fengi mér vinnu við hlið Guðnýjar í Þvottahúsi ríkisspítalanna“ (102).

Kvenfrelsið sem átti að fylgja með róttækninni er meira í orði en á borði. Bogga kemst að því (og með býsna áþreifanlegum hætti þegar hún hittir Maó) að orðin eru innantóm.

Talað um að „ræsa frasavélina“ og af frösum er nóg í kringum hreyfinguna. Félagi Sigurborg svarar því fumlaust þegar Andrés, gamall vinur hennar og föðurímynd, spyr vantrúaður hvort hún sé orðin maóisti: „Maóisti og maóisti, við skulum segja að ég styðji alþýðulýðveldið í Kína frekar en endurskoðunarsinnana í Kreml“ (92).

Andrés er rödd skynseminnar og bendir henni strax á að Maó sé ekkert frábrugðinn öðrum einræðisherrum heimsins og ráðleggur henni að láta alla öreigarómantík eiga sig.

Henni tekst ekki að sannfæra Andrés, sem veit lengra en nef hans nær og þegar hún fer af fundi hans afgreiðir hún þennan gamla vin sinn með því að það sé „sama helvítis smáborgararassgatið undir honum og öllum hinum sem voru á móti Öspinni“ (116).

Hin raunverulega alþýða bókarinnar er móðir Boggu og amma, jarðbundnar verkakonur sem alltaf hafa staðið sína plikt og ekki þurfa að skreyta líf sitt frösum. Innantóm orðin og umbúðirnar í kringum hugsjónastarfið reynast ekki það bjarg sem Bogga og félagar hennar geta staðið á til lengdar.

Hlín telst til 68-kynslóðarinnar og hefur skrifað um hana áður, m.a. í leikritinu Láttu ekki deigan síga, Guðmundur (1984). Eins og í öllum verkum hennar er húmorinn með í för í Blómunum frá Maó. Tileinkunn fremst í bókinni er ljóðið „Til trúfífla“ eftir Dag Sigurðarson sem hefst á orðunum „Ó þið sem hafið lokast inni / í sjálfbyggðu völundarhúsi / þrælhugsaðrar vitleysu“.

Hrunið var afleiðing öfga kapítalismans, fortíð Boggu í öfgum vinstrisins er stillt upp andspænis, þótt afleiðingarnar af því starfi hafi ekki verið neitt á pari við hrunið. Kannski er vandi trúfíflanna alltaf sá sami, hvaða stefnu sem þau fylgja. Að eiga á hættu að lokast inni í vitleysunni.

Framtíðarlausn um málefni aldraðara

Hilduleikur (2020) fellur í flokk dystópía og lýsir elliiðnaði náinnar framtíðar. Arnhildur Adamsdóttir, sem krefst þess að vera kölluð Hilda, er eldri kona sem streitist á móti því að lenda í klóm einkafyrirtækisins Futura Eterna. Hin eilífa framtíð býður  „Framtíðarlausn um málefni aldraðra“ og vekur óhugnanleg hugrenningartengsl við „Hina endanlegu lausn gyðingavandamálsins“ sem skipulögð var í þessari heimsálfu fyrir nokkrum áratugum. Fyrirtækið með fína nafninu sérhæfir sig í snyrtilegri afgreiðslu á eldri borgurum landsins til þess að aðstandendur og ríki þurfi ekki að sjá um þá – og alls ekki eyða í þá peningum.

Sögumaður er ritlistarneminn Bragi Austan, sem byrjaði sem heimilishjálp Hildu, en flytur síðan inn til hennar. Hilda á þrjú börn, en Gunnar sonur hennar og tengdadóttirin Jóhanna koma mest við sögu, þar sem þau hvetja Hildu til þess að feta þá braut sem Futura Eterna hefur markað fyrir fólk sem komið er á Aflifunaraldur. Fyrirtækið hefur vald til þess að ráðskast með það hvernig fólk býr, þar sem reiknað hefur verið út að manneskjur á þessum tiltekna aldri þurfi bara tólf fermetra til búsetu og þeim því uppálagt að flytja í svokallaða „ellikúpu“. Hilda kýs að búa í sinni rúmgóðu íbúð í Ljósheimunum, hefur fengið fjölda viðvarana frá Futura Eterna og á að borga refsiskatt fyrir alla umframfermetrana.

Meðfærileg gamalmenni eru eftirlæti allra, en Hilda er hreint ekki í þeirra hópi. Þegar Baldur vinur hennar, sem hún hefur kynnst á netinu og lent í skemmtilegu ævintýri með, slasar sig og lendir á Lokadeild Futura Eterna (því auðvitað ræður fyrirtækið því hvenær ævi fólks lýkur)  þá tekur Hilda til sinna ráða.

Framtíðarmyndin sem Hlín dregur upp í Hilduleik er að sönnu nöturleg, en þó má segja að ákveðnar tilhneigingar í þessa átt megi sjá í samtíma okkar. Hlín hefur t.a.m. sagt í viðtölum að hugmyndina að sögunni hafi hún fengið þegar móðir hennar varð gömul og veik og barðist fyrir því að fá sjálf að ráða sinni búsetu.

Tilhneiging hins kapítalíska samtíma í þá átt að allt verði að skila arði – og tungumálið sem fyrirtækið hefur skapað, sem minnir á Nýtungu George Orwell, tungumál sem hefur það að markmiði að fela raunverulega merkingu orðanna, slétta og fegra yfirborðið og slá ryki í augu fólks. Regluverkið með sínum frösum þykist miða að því að búa öldruðum áhyggjulaust ævikvöld, en í raun stefnir allt að því að drepa gamalmennin þegar það borgar sig ekki lengur að halda þeim á lífi. Með öðrum orðum, þegar þau hætta að skila arði.

Ádeilan er hörð á kapítalismann, kerfishugsunina og fólkið sem gengst inn á það sem stórfyrirtækið og Oddur Oddsson eigandi þess skapar. Fólkið sem samþykkir að „svona sé þetta nú bara“ og telur sig of lítil peð í regluverkinu til þess að það geti nokkuð gert til þess að breyta því.  Gunnar sonur Hildu er þannig sannkölluð sauðkind, en Jóhanna kona hans er af öðrum meiði, beitir sér af öllu afli gegn Hildu og á bágt með að þola sterkan vilja hennar og lífsþrá. Enda er Jóhanna hluti af „kerfinu“ sem starfsmaður Velferðarráðuneytisins.

Hlín gerir í Hilduleik það sem hún gerir vel, að benda á hræsni og tvískinnung og skrifa háðskan og meinfyndinn texta.

Maðurinn fyrir ofan og konan fyrir neðan

Yfirsjónir (2022) er „sagnasveigur um hrollvekjandi nánd“ sem einvörðungu kemur út á Storytel. Í sögunum, sem eru tengdar smásögur, er fjallað um samskipti kynjanna og í þeim öllum er einhvers konar ofbeldi í spilunum.

Í fyrstu sögunni „Skyndihríð“ tekur maður upp í bílinn sinn konu sem er nakin á víðavangi. Hún hefur verið beitt ofbeldi og hann hlúir að henni. Við þessar aðstæður skapast sérkennileg nánd milli bláókunnugs fólks. Í „Endurfundum“ kemur kona sem býr erlendis heim til Íslands til þess að jarða móður sína. Konan er með óuppgert mál í farteskinu, kynferðisofbeldi sem hún lenti í ung. Fljótlega eftir heimkomuna hittir hún mann sem hún hefur reynt hálfa ævina að gleyma. Í sögunni „Síðasta verkið“ kynnumst við framhjáhaldara miklum sem talar fjálglega um konurnar í lífi sínu og eigið ágæti. Hann kemur heim til sín, finnur hvergi konuna sína og gerir ráð fyrir því að hún sé farin að halda framhjá, en það er nú öðru nær. „Heimkoman“, fjórða sagan, fjallar um endurfundi. Kona sem hefur horfið sporlaust mörgum árum fyrr skýtur upp kollinum og setur sig í samband við gamlan kærasta. Hún hefur bersýnilega erfiða reynslu að baki og það er ekki létt að ná fótfestu á ný. Síðasta sagan „Maðurinn fyrir ofan“ greinir frá „konunni fyrir neðan“, konu sem býr í kjallara hjá manni sem notar hana þegar honum hentar. Þegar honum býðst eitthvað betra er hún orðin einmitt það: Konan fyrir neðan. Hún lætur ýmislegt yfir sig ganga og fer alltaf aftur til mannsins, hlustar meira að segja á ástarleiki hans og nýju kærustunnar, eftir að hún hefur búið sig undir að flytja inn með honum.

Margs konar ofbeldi birtist í þessum sögum og afleiðingar þess eru djúpar og alvarlegar. Því miður enda þær ekki allar með því að konunum takist að komast undan ofbeldismönnum sínum.

Eftir að þú fórst

Að láta lífið rætast (2003), sem hefur undirtitilinn Ástarsaga aðstandanda er sjálfsævisöguleg og önnur af tveimur slíkum í höfundarverki Hlínar. Þar fjallar hún um samband sitt við Þorvald, mann sem hún bjó með (með hléum og ýmsum snúningum) í sextán ár. Þorvaldur er alkóhólisti og þegar frásögn Hlínar hefst situr hún við banabeð hans, 45 ára gamals. Hún var „mótleikarinn“ og helsjúk af meðvirkni.

Maðurinn í lífi mínu varð alkóhólistinn í lífi mínu og ég varð kona alkóhólistans hvort sem mér líkaði það betur eða verr. Ástarsambandið við hann var stöðugur flótti frá sjálfri mér inn í hans líf og óreiðu. Ég gat gleymt eigin sálaróreiðu með því að vera stöðugt upptekin af því að taka til í hans. Tvö fullorðin börn höfðu hist, tvö vanhæf börn sem hvorugt kunni nægilega vel að takast á við fullorðinslífið. (15)

Þegar Þorvaldur er dáinn hefst endurlitið og frásögnin af samskiptum þeirra frá því að þau kynntust. Frásögnin er brotin upp með ýmsum fróðleik sem tengist viðfangsefninu; alkóhólisma og sjúkum samskiptum. Hlín fléttar af kostgæfni heimsbókmenntirnar saman við eigin reynslu. Hún gaumgæfir alkóhólistann Púntila og hinn meðvirka Matta í leikverkinu Púntila og Matti eftir Bertolt Brecht og segir frá afa sínum glímumanninum, sem var líka alkóhólisti og hún bjó hjá sem unglingur. Magnús í Bræðratungu úr Íslandsklukkunni er þarna nálægur, grískar goðsögur/harmleikir og AA-fræðin uppi á borðum.

Í bókinni eru einnig brot úr bréfum sem gengu á milli elskendanna og hlutar af texta sem Hlín nefnir Eftir að þú fórst, nokkurs konar sorgardagbók sem hún skrifaði eftir andlát Þorvaldar:

Ég stend við hvert einasta orð, ég elskaði þig, þrátt fyrir afglöp þín, fíkn, volæði, eymd, drykkjuskap, fangelsisdóm, gjaldþrot, skuldir og að síðustu veikindi, því eins og Kirkegaard segir í Kærlighedens gjerninger, þá er manneskja á bakvið allt saman, það er manneskja á bakvið fíkilinn, glæpamanninn, lögfræðinginn, dómarann, yfirlækninn. Og þetta verður mér satt að segja óendanleg uppspretta til að skoða aðrar manneskjur því þú ert í öllum og allir eru í þér, Unum noris omnes. (120)

Það eru mikil átök og djúpar tilfinningar í þessari bók. Skilningur á aðstæðunum og sátt: Við vorum sjúk og gátum ekki betur. En það er líka húmor í endurlitinu. Þegar þroskuð kona sem hefur „unnið í sínum málum“, lítur til baka getur hún hlegið góðlátlega að trúgirni sinni og öllu dómadags ruglinu. Þetta er heillandi og bókin er bráðskemmtileg, þótt sorgin sé mikil og sár.

Í bókarlok skrifar Hlín að fyrir henni séu skrif bókarinnar „lokaáfanginn í leitinni“. Þau séu persónuleg reikningsskil manneskju sem vanrækti sálræna bókhaldið allt of lengi. Það er líka augljóst að höfundur Að láta lífið rætast hefur nokkra fjarlægð á söguefnið. Hlín kannast til að mynda vel við eigin þátt í tvíleiknum, að stjórnsemi hennar og löngun til þess að „leikstýra“ Þorvaldi hafi gert það að verkum að þeirra samskipti urðu flóknari en ella.

Ótrúlegt hvað við gátum hangið lengi saman, sundurkramin í þeirri kvöl. Og þótt hann væri sá kvaldi, þá var ég kvaldi mótleikarinn. Ég datt alltaf í hann, þegar hann datt í það. (10)

Þegar Þorvaldur hefur brotið allar brýr að baki sér og kemur dauðvona í ömurlegu ástandi og fær næturgistingu hjá sinni fyrrverandi sambýliskonu skilur hann eftir orðsendingu að morgni: „„Fyrirgefðu mér, þetta verður betra í fyllingu tímans.“ Þetta með fyllingu tímans var orðatiltæki sem hann greip oft til, sér og öðrum til huggunar þegar allt virtist komið í þrot. En fylling tímans kom aldrei“ (117).

Það er táknrænt fyrir hinn nýja skilning að ljóð Christinu Rossetti rammar frásögnina inn, ásamt dauða Þorvaldar. Hann færir Hlín ljóðið í upphafi: „When I am dead, my dearest, / Sing no sad songs for me;“ Í lok bókarinnar er ljóðið svo birt í nýrri íslenskri þýðingu Karls Guðmundssonar: „Hafðu´ekki yfir nein harmljóð, / hjartkæri vinur minn“ Á milli ljóðanna þýðingin, frásögnin af dauða manns og sjúkleikanum sem varð honum að aldurtila.

Bréf til föðurins

Í lok bókarinnar Að láta lífið rætast segir Hlín frá því þegar hún er í ástarsorg og sænsk vinkona hennar segir við hana: „Skrifaðu bók um pabba þinn og þá skilurðu sjálfa þig betur“. Það má segja með nokkurri vissu að Meydómur (2021) sé bókin sem vinkonan ráðlagði henni að skrifa.

Hér er Hlín aftur að fjalla um eigin ævi. Sumt af því sem fram kemur í Að láta lífið rætast, um æsku hennar, er hér undirstrikað og að þessum árum liðnum eykur það umfang sitt. Foreldrar Hlínar eru látnir þegar bókin kemur út – það er ekki ólíklegt að sú staðreynd veiti enn frekara frelsi til tjáningar, þótt ekki hafi verið dregin dul á ýmsa þætti í æskunni í Að láta lífið rætast. Sagan er að stórum hluta skrifuð í annarri persónu eintölu, til föður hennar, eins og Kafka skrifaði Bréf til föðurins. Hlín er meðvituð um það og vitnar margsinnis til Kafka í bókinni. Enda feðurnir tveir ansi yfirþyrmandi og alltumlykjandi.

Hún ætlaði alltaf að skrifa þér bréf, segja að hún elskaði þig, segja að hún hataði þig, segja hver hún væri, að hún væri skyggn, að hún væri önnur, að hún væri falleg og fyndi til, segja þér til syndanna, segja að þú værir ljótur, að þú værir vondur, segja að hún vildi eignast pabba, að föðurgervið væri lélegt og trúðsgervið sömuleiðis, já hún ætlaði alltaf að skrifa þér bréf eins og Kafka, og spyrja hvort þú héldir virkilega að þú værir tvíburabróðir guðs. (11)

Bókin hefst á því að hringt er í Hlín og henni sagt að faðirinn sé að deyja, og kallast þannig á við Að láta lífið rætast sem hefst á andláti Þorvaldar, mannsins sem hún hefur búið með árum saman. Þessar tvær bækur eru uppgjörsbækur – æskan og stóra ástarsambandið. Skrifaðar til þess að skýra og skilgreina og þær hefjast þegar kafla er lokið, mennirnir látnir og Hlín stendur eftir og lítur yfir sviðið.

Hún segir í kaflanum Einleik á bréfsefni að nú skrifi hún bréfið sem hún alltaf ætlaði að skrifa, þótt hún viti ekki hvert hún á að senda það. Í raun hafi þau aldrei þekkst og til þess að skilja ráðgátuna verði hún að leyfa sér að skálda. „Án skáldskapar væri ekki hægt að tjá það sem varla er hægt að skilja“ (11).

Samsömun Hlínar við Franz Kafka heldur áfram. Hún lýsir því þegar hún les Hamskiptin í fyrsta sinn á menntaskólaárunum og verður fyrir áfalli. Henni finnst sagan fjalla um sig og föður sinn og samsamar sig fullkomlega persónu Gregors Samsa án þess að skilja hvers vegna. Það er ekki fyrr en löngu síðar „mörgum árum og dýrum samtalsmeðferðum síðar“ sem hún skilur það „þegar ég hef reynt að skapa eitthvað úr sjálfri mér eftir allt mótlætið með eilífa föðurröddina syngjandi í hausnum, um að ég sé ekkert, að menntun sé ekki til neins, að ég skuli ekki halda að ég komist eitthvað áfram í þessu jarðlífi“ (13).

Meydómur hefur undirtitilinn Sannsaga (sem er íslenskun á creative nonfiction, höfundur fjallar um sannsögulegt efni og miðlar því með aðferðum skáldskaparins). Hlín rifjar upp æskuna, en byrjar fyrir fæðingu sína og segir frá tilhugalífi foreldranna. Sagan er skrifuð af innilegri löngun til þess að skilja hvað knúði föðurinn og móðurina áfram og ennfremur af löngun til sjálfsskilnings. Hvers vegna varð hún eins og hún er?

Bókin er sannferðug lýsing á því umhverfi sem börnum var skapað fyrir ekkert of mörgum áratugum síðan. Það var ekki til siðs að hlusta á börn. Þau voru t.a.m. látin passa smábörn, bera allt of mikla ábyrgð, en höfðu þó ekkert að segja um sitt eigið líf. „Henni litlu minni“ svíður óréttlætið og hún kemst ósjaldan í hann krappan fyrir að brúka kjaft, er til dæmis löðrunguð í skólanum fyrir að benda á að kennari sem leggur ofuráherslu á stundvísi mæti of seint sjálfur. Það er ekki einungis faðirinn sem vill aga hana og tukta til, heldur feðraveldið, og „Hún litla mín“ rekst á æði marga fulltrúa þess í bernsku sinni.

Meydómur er þroskasaga sem segir frá því hvernig stúlka breytist í unga konu og greinir frá helstu vörðum á þroskaleiðinni. Ákveðnir þættir í persónuleika sögukonunnar koma snemma í ljós. Hún virðist vera haldin meðfæddum uppreisnaranda og getur þar af leiðandi ekki sætt sig við heragann og óréttlætið á heimilinu. Ýtt er undir dugnað hennar (maður á að vera duglegur og standa sig) og hún verður sístarfandi dugnaðarforkur. Hún fer snemma að skemmta fólki með gamanmálum, leik og fimleikakúnstum og missir sig einum of langt í skáldskapnum þegar hún lýgur sveitadreng stútfullan um vináttu sína við Bítlana í bráðskemmtilegum sveitakafla.

Faðirinn vakir yfir verkinu. Lesandi hrekkur í kút þegar hann er önnum kafinn við að skemmta sér við sögur af ævintýrum „Litlu minnar“ og faðirinn er skyndilega ávarpaður: „Þú sem veist svo lítið um hana litlu mína og manst auðvitað ekki neitt af því að þú ert dauður, manstu nokkuð þegar hún var í vist eitt sumarið í Skuggahverfinu?“ (53) Síðan er sagt frá áfalli sem barnið verður fyrir og segir pabba sínum frá, en hann er of önnum kafinn til þess að hlusta á hana.

Titill verksins, Meydómur, fær speglun í því þegar söguhetjan er rétt að verða sextán ára og er afmeyjuð á Gljúfrasteini, þar sem hún er stödd í samkvæmi hjá vinkonu sinni, dóttur skáldsins. Í ljósi þess að síðar verður unglingsstúlkan skrifandi kona er þessi staður fyrir afmeyjunina mjög vel viðeigandi.

Alls ekki slæmt því þetta er ekki bara afmeyjun í bókstaflegri merkingu orðsins á mesta menningarheimili landsins, heldur af-meyjun, ég er á leiðinni út úr mínum ömurlega meydómi inn í frelsið og uppreisnina. (159)

Hlín er breytt manneskja að af-meyjun lokinni og skömmu síðar er henni fleygt út af heimili foreldranna með valdi eftir mikil átök. „Það er sami söngurinn og hefur viðgengist alla mína bernsku. Eilífar aðfinnslur um útlit mitt, skapgerð og persónu. Ég er til einskis nýt“ (163). Stuttu seinna: „Ég er aðskotadýr og á ekki að vera til“ (166).  Gregor Samsa er farinn að heiman.

Húmorinn í ádeilunni

Líf og hlutskipti kvenna eru viðfangsefni sem Hlín Agnarsdóttur eru hugleikin, eins og sagnasveigurinn Yfirsjónir ber með sér. Í Blómunum frá Maó skrifar hún um karlana í róttæklingahreyfingunni sem þrátt fyrir að vera hoknir af jafnréttishugsunum treystu sér ekki til þess að „passa“ börn sín eða skipta um bleyju á þeim og kölluðu konur druslur ef þær létu undan löngunum sínum. Í Meydómi dregur hún upp nöturlega mynd af þáttum í uppvexti sínum sem að öllum líkindum hefðu verið öðruvísi ef hún hefði ekki verið stelpa og málar sterkum litum herstjórn karlveldisins sem allir dönsuðu í kringum þar til fólk fékk hreinlega nóg. „Í þessu samfélagi var ekki pláss fyrir rödd konunnar, hvað þá barnanna“ (Meydómur, 12).

Hlín er ádeiluhöfundur. Hún deilir oft á hræsni og tvískinnung – en það er hvergi eins áberandi og í Blómunum frá Maó, þar sem skinheilög hreyfingin opinberar sig í gervimennsku þegar „raunverulegur verkalýður“ lætur lítið bera á sér. Í Hilduleik deilir Hlín á þá tilhneigingu  kapítalísks samtíma að henda því á haugana sem ekki er arðbært – og skeyta ekki um líf og tilfinningar manneskjunnar, þótt á yfirborðinu eigi allt að vera til fyrirmyndar. Sjálfhverfa og innantómir glansmyndaleikir fjölmiðlanna (Hátt uppi við Norðurbrún) verða henni líka að yrkisefni.

Þekkingarleit Hlínar liggur sem rauður þráður um verk hennar. Þörfin fyrir að skýra og skilgreina, vinna úr. Húmorinn er eitt af aðalsmerkjum hennar í þeirri leit og húmorinn er allskonar. Farsakennd ærslin í sumum leikverkanna og nánast gróteskar persónurnar í Hátt uppi við Norðurbrún sem bregða fyrir sig grodda. Kaldhæðni og háð er áberandi í Blómunum frá Maó. Hún skrifar sem upplýst kona sem lítur til fortíðar og getur hlegið að vitleysunni.

Sjálfsævisögulegu verkin eru að sönnu átakanleg á köflum, en Hlín er yfirleitt  tilbúin að hlæja svolítið að sjálfri sér og aðstæðum sínum. Það er heillandi eiginleiki. Fyndnin í Að láta lífið rætast og Meydómi er tempraðri og fínlegri en í hinum verkunum, en snýst oft um að hlæja að muninum á milli þess sem hún veit núna en vissi ekki þá.

Í og með er Hlín alltaf að skemmta fólki. Í öllum hennar bókum er stór skammtur af fyndni og húmor. Húmorinn er misdempaður, en hann er alltaf til staðar.

Hlín er komin fast að fimmtugu þegar fyrsta skáldsaga hennar kemur út og hefur verið afkastamikil síðan. Leikritin hefur hún skrifað jafnt og þétt alla starfsævina og í leikhúsinu hefur hún annan fótinn, sem höfundur og leikstjóri. Leikhúsáhrifin má glöggt sjá í skáldverkum Hlínar. Beinar sviðsetningar – nánast líkt og hún sé að setja upp farsa – eins og í Hátt uppi við Norðurbrún. Í sjálfsævisögulegu verkunum eru leikbókmenntirnar aldrei langt undan og vísað grimmt til þeirra. Púntila og Matti eftir Bertolt Brecht er í bakgrunni í Að láta lífið rætast og vitnað til þess oftar en einu sinni. Í Meydómi er föðurnum líkt við Willy Loman úr Sölumaður deyr eftir Arthur Miller. Rætur Hlínar Agnarsdóttur  eru í leikhúsinu og þangað liggja fjölmargir þræðir.

 

Þórunn Hrefna, desember 2022