Beint í efni

Mamma klikk!

Mamma klikk!
Höfundur
Gunnar Helgason
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2015
Flokkur
Unglingabækur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Eftir hinar geysivinsælu fótboltabækur um Jón Jónsson og félaga hans í Þrótti snýr Gunnar Helgason sér að sígíldu unglingavandamáli, eða hvernig það er að eiga klikkaða foreldra þegar maður er bara að reyna að vera venjulegur.

Mamma klikk! segir frá Stellu sem er tólf ára og á alveg snarklikkaða mömmu. Stella leggur sig eins og margir aðrir unglingar mikið fram um að falla í hópinn en mamma hennar, Katrín Gunnarsdóttir óperusöngkona og lífskúnstner, virðist hins vegar leggja sig fram um að koma Stellu í vandræðalegar aðstæður hvar og hvenær sem færi gefst og skammast sín ekki fyrir neitt. Eftir sérlega neyðarlegt atvik þar sem mamma hennar tilkynnir öllum gestunum í fermingarveislunni hjá Ragnari frænda að Stella sé byrjuð á blæðingum ákveður hún að nú sé nóg komið. Hún einsetur sér að hrinda í framkvæmd áætlun sem miðar að því að breyta mömmu hennar og gera hana venjulega. Stella reynir að fá stóra bróður sinn, íþróttagarpinn Palla, og litla bróður sinn og Frozen aðdáandan Sigga með sér í lið en þeir bræður eru því miður hæst ánægðir með mömmu þeirra eins og hún er.

Stella hefur bara viku til að koma áætlunum sínum í framkvæmd og leysa þetta leiðinlega vandamál því eftir viku ætlar hún að halda upp á þrettán ára afmælið sitt og mamma hennar má ekki eyðileggja veisluna með einhverjum klikkuðum uppákomum. Þrátt fyrir viðleitni Stellu tekst mömmu hennar einhvernveginn samt að standa fyrir endalausri röð af neyðarlegum atburðum og gengur meira að segja svo langt að Palli ákveður að ganga í lið með Stellu og hjálpa henni; mamma þeirra syngur hástöfum í Smáralind, setur niður baðkar í garðinum og ýmislegt fleira en finnst sjálfri ekkert af þessu neitt sérstaklega athyglisverð hegðun. Til að bæta gráu ofan á svart er Stella líka farin að hafa áhyggjur af því að enginn komi í afmælisveisluna því bestu vinkonur hennar þrjár eru allt í einu farnar að haga sér eitthvað undarlega og Stella þarf að komast að því hvað veldur.

Fjölskylda Stellu er öll frekar skrautleg og skemmtileg, þó að henni sjálfri finnist þau vissulega misjafnlega frábær. Pabbi hennar er kannski einna venjulegastur og tekur uppátækjum annarra fjölskyldumeðlima af magnaðri ró og yfirvegun á meðan Stella sveiflast milli þess að finnast mamman  alveg ágæt og alveg hræðileg. Bræður hennar benda henni á að þó svo að henni finnist mamma þeirra allt í einu vera orðin alveg sérlega slæm þá sé það kannski ekki endilega mamman sem hafi breyst heldur Stella sjálf. Mamma þeirra hafi alltaf verið klikkuð og óútreiknanleg en Stella sé líklega bara orðin eitthvað viðkvæmari fyrir því.

Togstreitu Stellu við mömmu sína, vinkonurnar og almenningsálitið er lýst af miklu innsæi og skilning og ekki laust við að lesandinn finni aðeins til með henni á köflum þegar mamma hennar er að flippa hvað mest. En Stella er ekki bara upptekin af því að fólk glápi á mömmu hennar þegar hún tekur skala í búðum eða úti á götu heldur finnst henni líka allt í einu alveg óbærilegt að vera með besta vini sínum Blæ sem er í hjólastól, því hún þolir ekki hvað er glápt mikið á þau þegar þau eru saman. Á sama tíma veit hún að sönn vinkona lætur það ekki á sig fá, hversu illa sem henni líkar athyglin og það kallar á ennþá meiri togstreitu og kvíða.

Stíllinn í sögunni er léttur og skemmtilegur, fullur af húmor og orðaleikjum sem grípa athyglina. Stella er stundum alveg rosalega mikill unglingur og upphrópanirnar og hneykslunin koma frá henni á færibandi. Lesandinn hefur þó mikla samúð með henni, því hvaða unglingur vill lenda í svona hræðilega vandræðalegum aðstæðum með svona klikkaðri mömmu? Í gegnum söguna er ýmislegt gefið í skyn sem er ekki sagt berum orðum, athugull lesandi er fljótur að geta í eyðurnar og átta sig en öðrum er komið verulega á óvart í lokin. Þetta tiltekna atriði er afar vel útfært en best að segja ekki meir svo lesendur geti sjálfir fengið að átta sig á því.

Mamma klikk! er vel skrifuð, hress og frískandi. Kjörorð mömmu Stellu er „að vera til er hugarástand“ og það á fullkomlega við um leið Stellu að því að skilja sjálfa sig og mömmu sína betur og takast á við lífið og þær áskoranir sem það felur í sér. Eftir því sem Stella reynir meir og meir að laga mömmu sína kemst hún að því að þrátt fyrir að margir virki á yfirborðinu eins og þeir séu með allt á hreinu er það alls ekki endilega tilfellið og á leið sinni að markmiðinu með „áætlun: breytum mömmu“ lærir hún ýmislegt um samferðafólk sitt sem fær hana til að líta aðeins öðruvísi á sjálfa sig, mömmu sína og lífið almennt. Hugmyndum hennar um hvað það er að vera venjulegur er snúið á hvolf og hún og lesandinn sjá hvernig við ákveðum sjálf hverju við leyfum að setja okkur skorður og hversu mikilvægt er að vera pínu klikkaður stundum.

María Bjarkadóttir, desember 2015