Beint í efni

Mánasteinn: drengurinn sem aldrei var til

Mánasteinn: drengurinn sem aldrei var til
Höfundur
Sjón
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2013
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Svartir vængir ólmast í brjósti drengsins sem aldrei var til, Mána Steins, þegar hann yfirgefur Ísland árið 1918. Íslendingar hafa þá nýverið öðlast fullveldi sem drengurinn innsiglaði með ástarleik við danskan sjóliða og er í kjölfarið sendur úr landi.

Svartir vængir umlykja bókina Mánastein: drenginn sem aldrei var til, því þetta er að mörgu leyti myrk bók eins og kápan ber með sér, blásvört á lit. En, þegar kápan er tekin af blasir við hvítt band og á sama hátt býr Mánasteinn líka yfir birtu og gleði.

Mánasteinn er stutt skáldsaga, nóvella, og þriðja sögulega bókin af þeim toga sem Sjón sendir frá sér á þessari öld. Þrátt fyrir að hafa hafið ferilinn sem súrrealískt ljóðskáld og skrifað tvær framúrstefnulegar skáldsögur í kjölfarið er það sögulega skáldsagan sem er í dag einkenni höfundarverks skáldsins, en frá og með Augu þín sáu mig: Ástarsaga frá árinu 1994 hefur Sjón einungis skrifað söguleg skáldverk. Þó eru þetta ekki endilega söguleg verk af því tagi sem almennt eru kennd við bókmenntagreinina, lítið er um hefðbundna frásagnarframvindu og epískt drama, stóratburðir eru iðulega fjarri, eða, eins og í tilfelli Mánasteins, settir í óvenjulegt samhengi. Hið ævintýralega er þó ávallt nærtækt, ekki síst ævintýri hversdagsleikans sem súrrealistar óskuðu sér hvað helst.

Stutta skáldsagan Skugga-Baldur aflaði Sjóni Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, en í þeirri stuttu sögu hafði höfundurinn náð firnagóðu taki á þeim hæfileika að segja ákaflega margt í vandlega mótuðum texta í bland við flókna samsetningu söguþráðar og atburðarásar. Skugga-Baldur var líka aðgengilegasta saga Sjóns til þessa og opnaði augu fleiri lesenda fyrir þeirri gleði skáldskaparins sem finna má í verkum hans. Væntanlega á Mánasteinn eftir að gera eitthvað svipað, líkt og Skugga-Baldur er sagan rammíslensk og afar lipur og aðgengileg. Frásögnin er tiltölulega línuleg, þó hún sé víða brotin saman í flókin mynstur.

Eins og áður segir gerist Mánasteinn fullveldisárið 1918 og við hittum aðalpersónuna, Mána Stein, fyrir í október, þar sem hann þjónustar viðskiptavin í Öskjuhlíðinni. Kötlugos hefst og í kjölfarið leggst Spænska veikin á íbúa höfuðborgarinnar og veldur gífurlegu manntjóni. Drengurinn veikist, en lifir af og sinnir eftir því hjúkrunarstarfi í félagi við lækni og unga stúlku, Sólu Guðb- sem er átrúnaðargoð hans. Ekki af því að hann hneigist til kvenna, en það gerir hann hreint ekki, heldur vegna sýnar sem birtist honum í bíó:

Og þegar stúlkan stóð upp til þess að fara gerðist það. Augnablikið sem skuggi hennar féll á sýningartjaldið runnu þær saman, hún og persónan í kvikmyndinni. Hún leit við og geislinn varpaði andliti Musidoru á andlit hennar. Drengurinn fraus í sæti sínu. Þær voru nákvæmlega eins. (13)

Máni Steinn er 16 ára og Sóla á svipuðum aldri. Bæði sækja mikið í að fara í bíó, en að auki ekur Sóla um á mótorhjóli og allt er þetta vel til fallið að gera hana að gyðju. Kvikmyndin (sem er aðgengileg á YouTube) er Blóðsugurnar, Les Vampires, „sjö klukkutíma kvikmynd eftir Louis Feuillade“ (39) og fjallar um níhilista og hryðjuverkamenn: „París er á röngunni, óútreiknanleg og banvæn“:

Fremst meðal blóðsuganna er stúlkan Irma Vep. Klædd svörtum heilbúningi sem fellur þétt að fagursköpuðum líkamanum klífur hún byggingar skugga líkust, brýst inn í híbýli fólks og skrifstofur stjórnvalda, fetar sig á brott eftir húsþökum. Og allt er það framkvæmt af glaðbeittri ástríðu þess sem hefur sagt sig úr lögum við samborgara sína. (40)

Það er ekki að undra að drengurinn heillist af þessu, en sjálfur er hann á skjön við samfélagið, lesblindur og kynvilltur almúgadrengur sem selur sig þeim sem slíkra ásta vilja njóta – í laumi, því þó samkynhneigð þekkist er hún hreint ekki viðurkennd. Kvikmyndin verður hans helsta haldreipi, ekki bara Blóðsugurnar, heldur allar kvikmyndir, því líf drengsins snýst um að fara í bíó. Í krafti þess kemst hann inn í aðra heima, upplifir annan veruleika sem hann þarfnast mjög. Heimur kvikmyndarinnar er háður myrkri og því einskonar skuggaleikur sem er vel við hæfi þeirrar jaðartilveru sem er hans daglega líf. Og það undarlega sem gerist er að heimur hans umbreytist í þennan veruleika, allavega um stund, þegar Spænska veikin hertekur bæinn. Drengurinn er vitni að því þegar sóttin dreifir sér eftir að hafa siglt á land á dampskipinu Botníu, en fyrir framan Hótel Ísland sér Máni Steinn gamlan skólafélaga kyssa á silfurhring með svörtum steini, gjöf frá systur hans sem kom með skipinu. Hún fylgir bróður sínum þó ekki út á skemmtanalífið, „er eitthvað slöpp eftir siglinguna“ (26). Og nokkrum vikum síðar er Reykjavík, líkt og París, „á röngunni, óútreiknanleg og banvæn.“ Ekki nóg með það heldur virðist svo sem kvikmyndahúsin eigi sinn þátt í útbreiðslu sóttarinnar, en þangað leitar fólk í leit að yl og samfélagi manna, auk þess algleymis sem felst í því að hverfa um stund inn í annan heim.

Bíóið, kvikmyndin, er því einskonar öxull verksins og kemur víða við. Í krafti kvikmyndarinnar öðlast Máni Steinn hæfileika til að lesa í umhverfi sitt þó hann sé ólæs á bækur og bíóið er hans athvarf og ástríða í tilveru sem samkvæmt siðferði samborgara hans er ekki leyfileg. Enda er hann ekki til og var aldrei til, eins og fram kemur í undirtitli verksins. Myndmál kvikmyndarinnar og ekki síður kvikmyndasýningarinnar yfirtekur svo drenginn þegar hann veikist af Spænsku veikinni í einni mögnuðustu hrollvekju-óra lýsingu sem finna má í verkum Sjóns, en hún hefst á því að kvikmynd er varpað á brjóst hans í sjóðheitum klefa sýningarmannsins.

Sjálfur er Mánasteinninn margbreytileg sýning skugga og birtu, varpað úr sjóðheitum klefa sjónhverfingameistarans. Fjölmargir heimar fléttast saman í þessari stuttu sögu sem rúmast í mjóslegnum kili, en geymir meðal annars í sér heim kvikmyndarinnar, svipmyndir úr heimi samkynhneigðra karlmanna, plágu og fæðingu fullveldis.

úlfhildur dagsdóttir, október 2013