Beint í efni

Maxímús Músíkús heimsækir hljómsveitina

Maxímús Músíkús heimsækir hljómsveitina
Höfundar
Hallfríður Ólafsdóttir,
 Þórarinn Már Baldursson
Útgefandi
JPV
Staður
Reykjavík
Ár
2008
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Margmiðlun er orðin að sjálfsögðu fyrirbæri í samtímanum. Nútímamanneskjan er orðin vön því að taka inn upplýsingar á margvíslegan máta, í máli, myndum og hljóði. Það er tímanna tákn að nú er komin þriðja barnabókin sem sameinar þetta þrennt, sögur í ritmáli með myndum og svo geisladisk með upplestri og tónlist. Gælur, fælur og þvælur þeirra systkina Sigrúnar og Þórarins Eldjárns og Vel trúi ég þessu! komu út fyrir jólin og nú hefur Maxímús Músíkús bæst við.

Maxímús Músíkús heimsækir hljómsveitina er, líkt og hinar bækurnar, bók sem er hugsuð sem fræðsluefni öðrum þræði, en í Gælunum var bragfræðin tekin fyrir og þjóðsagnaarfurinn í Vel trúi ég þessu! Maxímús fjallar hinsvegar minna um skáldskap og sögur en þeim mun meira um tónlist, því eins og titillinn gefur til kynna er hugmyndin sú að skapa tónheim í kringum sögu af lítilli mús sem villist inn á æfingu og tónleika hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Litlu músinni er kalt og því skýst hún í skjól og hittir þar fyrir undarleg hljóð og hljóðfæri og verður heltekin af töfrum tónlistarinnar. Fundir Maxa við hljóðfærin eru svo notaðir til að kynna þau í samspili við hljóð á geisladisknum sem fylgir, en þar les Valur Freyr Einarsson með tilheyrandi sviðshljóðum og Sinfóníuhljómsveit Íslands leikur tónverkin sem við sögu koma, auk “Lagsins hans Maxa” eftir Hallfríði Ólafsdóttur flautuleikara, en hún er einnig höfundur sögunnar um músina tónelsku.

En sagan er ekki bara upptalning á hljóðfærum því inn í hana blandast sagan af langafa Maxa og minningar um sögur hans. Sá hafði alist upp hjá tónskáldi og hafði frá mörgu að segja um það heimili og tónlistina og í lok bókarinnar hugsar Maxi litli með sér að nú geti hann einnig sagt sínum afkomendum sögur.

Minningin um langafa er dæmi um hvernig saga, lýsingar, myndir og tónar fléttast saman, en minningarnar um langafa flæða fram í sorglegum upphafsköflum tónverksins Bolero eftir Ravel. Lesandi ályktar að langafi sé horfinn úr heimi hér. Myndin sem fylgir er hinsvegar hákómísk, en henni er brugðið upp sem svarthvítri ljósmynd af mús á gólfi, manni uppi á stól og konu við píanó, hún er upptekin af tónlistinni og verður því ekki vör við músaganginn.

Myndin er gott dæmi um vel heppnaðar og líflegar myndlýsingar víóluleikarans Þórarins Más Baldurssonar, en í þeim er léttleiki sem reyndar einkennir bókina alla, allt frá sögunni og ‘boðskap’ hennar til tónlistarinnar og skiptir umbrot og hönnun Margrétar E. Laxness þar heilmiklu máli.

Úlfhildur Dagsdóttir, apríl 2008