Beint í efni

Millilending

Millilending
Höfundur
Jónas Reynir Gunnarsson
Útgefandi
Partus
Staður
Reykjavík
Ár
2017
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Hinn óbærilegi veruleiki samtímans hefur löngum verið viðfangsefni skálda. Hver er okkar hversdagur og hvernig komumst við í gegnum hann? Iðulega er það eitthvað ungmenni sem er fulltrúi þessarar tilvistarkreppu og þá er jafnframt verið að fjalla um nútímann, kynslóðabil, ungdóminn og breytingar. Bjargvætturinn í grasinu (1951) er enn lesinn í framhaldsskólum sem fulltrúi þessara bókmennta týndra ungmenna sem virðast ævinlega á mörkum sjálfstortímingar.

María, sögukona Millilendingar eftir Jónas Reyni Gunnarsson, virðist allavega búa yfir einbeittum brotavilja til að leggja eigið líf í rúst, eða kannski réttara sagt, forðast að byrja á því að ‚eignast líf‘. Hún er 22 ára og sagan segir frá tæpum sólarhring í lífi hennar, þegar hún millilendir á Íslandi á leið sinni frá Brighton til Kaupmannahafnar. Þó er varla hægt að tala um ‚leið‘ í þessu samhengi, því orðið gefur til kynna að verið sé að fara eitthvað og það á ekki við um Maríu. Hennar tilvera er frekar önnur merking orðsins ‚leið‘, að láta leiðast út í eitthvað, að láta aðra leiða sig. Og svo auðvitað að vera leið, bæði í merkingunni óhamingjusöm – eða allavega ekki kát – og þreytt, að finnast allt leiðinlegt. ‚Tilgangsleysi allra hluta‘ kemur óhjákvæmilega upp í hugann, en hvort þetta ‚heilkenni‘ ungmenna megi tengja Múmínálfasögum Tove Janssen eða ekki, þá er allavega ljóst að þau deila tilfinningu fyrir hinu kómíska, Tove og Jónas.

María hefur semsagt hrökklast burt frá Brighton eftir að sambandi hennar og kærastans Ragnars lauk, en þau deildu áhugaleysi á öllum hlutum sem leiddi þau til að flytja úr landi. Þar áttu þau ágætan tíma um sinn, lifðu á atvinnuleysisbótum Ragnars og prófuðu sig áfram með eiturlyf, en svo datt botninn úr öllusaman. Faðir Maríu ákveður að best sé að hún komi til Danmerkur og búi hjá sér og sinni nýju fjölskyldu, en móðir Maríu er löngu látin. María lætur tilleiðast, þó án nokkurs áhuga eða stefnu í einu né neinu og tekur að sér að færa föður sínum liti sem áður höfðu verið í eigu listmálarans Karls Kvaran. Pabbinn er nefnilega listamaður. Litirnir eru geymdir hjá ömmu Maríu, en hjá henni hefur hún að nokkru leyti alist upp.

Í þessu felst nálgun Jónasar Reynis á þetta klassíska viðfangsefni, hann rammar það inn með listinni, eins og kemur fram í lokin þegar María rifjar upp ferð á listasafn með föður sínum. Þetta er kannski ekki svakalega frumlegt, en Jónasi tekst sérlega vel að forðast alla tilgerð og þrátt fyrir að leika sér með táknrænar merkingar – eins og í titlinum – þá er sagan laus við allt óþarfa skrúð eða dramatík.

Sjálf er María afskaplega slök og virðist taka lífinu með einstakri ró. Það segir þó ekki alla söguna, því hún er líka eins og fló á skinni, sífellt á tvist og bast í flókinni vegferð sinni um krókaleiðir þess að forðast að takast á við tilvistina. Og í mitt í öllu kæruleysinu er hún með stöðugan hnút í maganum yfir öllu saman. Að þessu leyti minnir hún nokkuð á persónur úr bókum Braga Ólafssonar, en áhrif hans birtast nú víða í íslenskum nútímabókmenntum.

Þetta hefst allt á því að vinur Maríu hefur lofað að sækja hana á flugvöllinn, en henni er ómögulegt að treysta honum, því hann er bæði gleyminn og lifir í eigin heimi eiturlyfja og stefnuleysis. Þegar hann kemur ekki er hennar eina viðbragð að setjast og bíða og reyna að sofna. Þar kemur jafnframt fram að hún er smávaxin og barnsleg í útliti og hefur afar lítið sjálfstraust. Hún er klædd í stóra og hlýja úlpu sem hún lýsir sjálf sem ljótustu flík í heimi og í gúmmistígvélum með blómamynstri. Fólk í kringum Maríu hælir stígvélunum ítrekað en hún er svo sannfærð um eigið gagnsleysi að hún tekur því frekar sem háði. Flíkurnar mynda einskonar skjöld um stúlkuna sem hún hverfur reglulega inn í.

Loks birtist pilturinn og þá hefst flókið ferðalag um Reykjavík þar sem María hættir við að fara til ömmu sinnar og slæst frekar í för með vini sínum og vinkonu hans og dópar aðeins með þeim. Inn í málið blandast fyrrverandi kærasti hennar sem hún bæði vill hitta og forðast fyrir alla muni, og þannig heldur þetta áfram, hún er á stöðugu undanhaldi og felur sig á eins sjúskuðum börum og hún getur en kemst samt ekki hjá því að hitta fólk, þá sérstaklega gamlan skólafélaga. Loks fer hún til ömmu sinnar en flýr þaðan fljótlega. Inn í þetta blandast svo umræða um mat, dóp og áfengi, en María er ýmist svöng eða ekki, vill borða en getur ekki hugsað sér mat. Og svo er henni oft óglatt, enda yfirleitt með hnút í maganum. Lánleysið er því algert og þó það sé ekki beint gott er allt þetta rugl vissulega nokkuð kómískt.

Jafnframt er sagan lýsing á næturlífi höfuðstaðarins, en þar er fátt sem heillar. María tilheyrir ekki heimi fallega fólksins sem hún fyrirlítur mjög, en þar sem hún er ekkert mikið hrifnari af nördunum sem eru vinir hennar verður félagsleg staða hennar ekkert sérlega sterk. Hún beitir fyrir sig kaldhæðni sem virkar misvel og hún veit ekki alltaf hversvegna hún notar, nema auðvitað til að halda sem flestu í öruggri fjarlægð. Kaldhæðnin er þó aðeins yfirvarp hennar eigin óöryggis og hún rífur sjálfa sig stöðugt niður, eins og dæmið með gúmmístígvélin lýsir vel.

María á því ekki gott með samskipti, en samskipti eru lykilþema verksins. Samskiptin eru auðvitað afskaplega fábreytileg og flóttaleg og felast að miklu leyti í smáskilaboðum og ósvöruðum símtölum. Sími Maríu er batteríslaus þegar hún kemur og þegar hún loks kemur honum í gang flæða yfir hana óvelkomin skilaboð og símtöl, auk illa hugsaðra skilaboða sem hún sendir sjálf. Í þau skipti sem María er í felum á sjúskuðum börum skoðar hún sms í símanum sínum til að hafa eitthvað að gera (sem í sjálfu sér er gott dæmi um samskiptamynstur nútímans): „Það voru svo mörg ómerkileg skilaboð á milli okkar Ragnars. Endalaust að segja hvort öðru hvar við værum, hvenær við kæmum heim, hvenær við færum, hvert við værum að fara, hvað við ætluðum að kaupa, hvar við ætluðum að hittast, klukkan hvað við værum búin. Skilaboðin voru alveg eins þegar við vorum hamingjusöm og þegar við vorum við það að hætta saman. Hvar ertu?Kem heim hálfsex. – Alltaf eitthvað svona“ (65). Í þessari lýsingu kemur vel fram hið hárfína jafnvægi milli eymdar og hláturs sem verkið Millilending vekur.

Það er ekki einfalt að enda sögu sem hefst í raun og veru hvergi og er þannig séð ekki um neitt, beint, utan það að varpa upp grátbroslegri mynd af stefnuleysi og tilgangsleysi, ráðaleysi og óljósri vímu – sem endar oftar en ekki með velgju. Eins og áður segir er ramminn utanum þetta ráf og ráðaleysi listin, sem birtist annarsvegar í litum Karls Kvarans og hinsvegar í ókláruðu málverki sem María heillast af og er henni afar minnisstætt. Þessi rammi er sterkur án þess að vera ágengur og á mikinn þátt í því hversu vel heppnuð sagan er, því þetta listatema er sérlega vel nýtt í lok sögunnar, en þar eru dregnar upp áhrifamiklar myndir sem ná að fanga andrúmsloft verksins og gefa (nýja) mynd af aðalpersónunni.

Að lokum er ástæða til að benda á að Millilending er ein þriggja bóka sem Jónas Reynir sendi frá sér á síðasta ári. Hinar tvær voru ljóðabækurnar Leiðarvísir um þorp og Stór olíuskip. Báðar eru sérlega eftirtektarverðar ljóðabækur og þó tónninn sé myrkari en í Millilendingu njóta þær einnig góðs af þeim ísmeygilega húmor sem einkennir texta hennar.

úlfhildur dagsdóttir, janúar 2018