Beint í efni

Morð fyrir luktum dyrum

Morð fyrir luktum dyrum
Höfundur
Hermann Stefánsson
Útgefandi
Kind
Staður
Reykjavík
Ár
2010
Flokkur
Smáprósar
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Morð fyrir luktum dyrum barst mér í umslagi um daginn. Umslagið er partur af „ritröð um menningu og mannlíf með ritgerðum, greinum, sögum, ljóðum og myndverkum”, segir aftan á umslaginu. Fyrsta verkið var ljóðaumslagið Sjöund, með ljóðum eftir Gunnar Hersvein, hannað af Sóleyju Stefánsdóttur, sem hafði veg og vanda að þessari einstöku og fersku útgáfu á bókarformið. Umslagið er nefnilega ekki aðeins umbúðir heldur hluti af ritverkinu sem heftað er inn í það. Allt er þetta ákaflega skemmtilegt og sniðugt og býður höfundum upp á ýmsa leiki í máli og myndum, auk þess að gleðja lesandann, því það er svo spennandi að sjá hvað kemur upp úr umslaginu hverju sinni.

Hermann Stefánsson notar umslagið til að fanga morð fyrir luktum dyrum og sendir lesendum dásamlegan smákrimma. Þegar rannsóknarlögreglufulltrúinn snjalli, Aðalsteinn Lyngdal, kemur að líki lögfræðingsins Loga Sveinssonar er hann ekki lengi að átta sig á hvernig á því getur staðið að maðurinn hafi verið myrtur innan luktra dyra íbúðar sinnar. Aðstoðarfulltrúinn Reynir er ekki eins fljótur að fatta, hann rifjar upp sögu eftir Edgar Allan Poe um morðin á Rue Morgue, en þar er einnig ómögulegt að sjá hvernig morðinginn gat hafa komist inn í læsta íbúðina, hvað þá út úr henni aftur. Morðinginn reynist vera api sem getur klifrað út um glugga sem enginn maður hefði komist inn eða út um. Þegar Reynir kemst að því að nágranni Loga er að flytja inn apa til að hafa í ný-endur-opnaðri Eden grunar hann strax að nágrannaerjur gætu verið lausnin á vandanum, en hinn myrti virðist hafa verið afskaplega erfiður í umgengni og sérlunda.

Hermann skemmtir sér konunglega við að leika sér með glæpasagnaformið, kreista klisjur og veifa rauðum síldum og tekst afskaplega vel upp. Textann hefði þó að ósekju mátt lesa einu sinni yfir enn og fixa smá hökt og villur, en allt slíkt gleymist fljótt þegar flækjustig sögunnar eykst og svo virðist sem morðinginn hafi látið til skarar skríða á ný!

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2010.