Beint í efni

Myrkrið veit / Gatið / Mistur

Myrkrið veit / Gatið / Mistur
Höfundur
Arnaldur Indriðason
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
2017
Flokkur
Skáldsögur
Myrkrið veit / Gatið / Mistur
Höfundur
Yrsa Sigurðardóttir
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2017
Flokkur
Skáldsögur
Myrkrið veit / Gatið / Mistur
Höfundur
Ragnar Jónasson
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2017
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Vera Knútsdóttir

Oft rata raunverulegir atburðir í glæpasögur rétt eins og þeir rata í aðrar gerðir bókmennta. Það getur verið vandmeðfarið að fjalla um glæpamál sem á sér fyrirmynd í raunveruleikanum, því það kallar á næmni höfundar og að hann átti sig á þeim þunga og virðingu sem umræða um raunverulega harmræna atburði krefst. Í þessu ljósi má velta fyrir sér stöðu íslensku glæpasögunnar árið 2017 þegar Íslendingar misstu að einhverju leyti sakleysi sitt gagnvart glæpamálum vegna óvenju óhugnanlegra atburða sem áttu sér stað og þjóðin fylgdist með rannsókn lögreglu í nánast beinni útsendingu. Hér er ég auðvitað að fjalla um mál Thomasar Olsens og um unga stúlku sem hvarf eftir að hafa verið að skemmta sér í miðbæ Reykjavíkur, en einnig mætti minnast hryllilegra atburða í Mosfellsdal og á Hagamel sem leiddu til ótímabærs dauða tveggja einstaklinga.

Kannski er það samfélagsmiðlaæði nútímans sem gerir það að verkum að fólk upplifir þessa atburði í meiri nánd en áður. Sjálf var ég ekki sérstaklega spennt fyrir að leggjast í lestur um glæpi í íslensku samhengi eftir að hafa fylgst með gangi þessara mála. Og af siðferðilegum ástæðum gerir maður þá kröfu að höfundar séu meðvitaðir um þetta, meðvitaðir um samfélagið sem þeir skrifa sögur sínar í, þær breytingar og hræringar sem þar eiga sér stað, og taki þær til sín. Enn fremur, ef þeir kjósa að fjalla um eða vísa í raunverulega atburði, að þeir geri það af virðingu og til að varpa nýju ljósi á þá eða miðla sjónarhorni sem fjölmiðlaumræða nær ekki, í stað þess að gera sér einfaldlega mat úr harmleik annarra.

En nóg um það. Hér fjalla ég um nýútkomnar glæpasögur þriggja höfunda sem allir eru fastagestir í hinu árlega jólabókaflóði: Myrkrið veit eftir Arnald Indriðason, Gatið eftir Yrsu Sigurðardóttur og Mistur eftir Ragnar Jónasson. Þau hafa öll sannað sig fyrir löngu og búa yfir dýrmætri reynslu sem glæpasagnahöfundar. Sögur þeirra skírskota allar til íslensks samfélags en með ólíkum hætti og atburðarás a.m.k. tveggja sagnanna á að hluta til fyrirmynd í íslenskum raunveruleika.

Myrkrið veit

Skuggahliðar mannaldar láta á sér kræla í nýjasta verki Arnaldar Indriðasonar, þar sem hækkandi hitastig jarðar og hopandi jöklar gera það að verkum að gömul leyndarmál koma í ljós. Þýskur ferðahópur finnur lík á Langjökli sem reynist vera af manni sem hvarf þrjátíu árum fyrr. Konráð, hinn viðkunnanlegi lögreglumaður, sem lesendur kynntust fyrst í Skuggasundi, rannsakaði málið á sínum tíma en án árangurs. Nú er hann kominn á eftirlaun en freistar þess að leysa málið. Hér fá lesendur tækifæri til að kynnast Konráði betur, en Myrkrið veit er öðrum þræði karakterstúdía á sögupersónunni, skapgerð, æsku, fjölskyldulífi, draumum og þrám. Höfundur sýnir eins og áður hversu góð tök hann hefur á mannlýsingum og að skrifa um fólk, líðan þess og tilfinningar, en ekki síst hvaða áhrif glæpir og sorg geta haft á líf þess.

Framvindan er ef til vill hæg miðað við dæmigerða spennusögu en frásögnin er samt sem áður spennandi. Höfundur flettir hægt og rólega ofan af einstaka atriðum, atburðarásin stigmagnast og nær hápunkti undir lokin. Að sama skapi myndi ég lýsa framvindunni sem manneskjulegri, og á þetta raunar við um flest verk Arnaldar, en hann gefur sér alltaf tíma til að fjalla um hverja sögupersónu af virðingu og tilfinningu. Hér gengur Arnaldur jafnvel lengra og skrifar senur sem eru hjartnæmar og fallegar, allt að því hárómantískar, sem ég man ekki eftir að hafa rekist á áður í sögum hans. Arnaldur hefur mikla næmni fyrir sögupersónum sínum og aðstæðum þeirra, sem gerir það að verkum að lesendur eiga auðvelt með að setja sig í spor þeirra og virða fyrir sér söguheiminn með þeirra augum.

Eins og í nýlegri verkum Arnaldar er vísað fram og aftur í tíma, nánar tiltekið milli nútímans og stríðsáranna, en senur fortíðarinnar eru þó ekki eins fyrirferðarmiklar og áður. Hér er það samtíminn sem er undir og ýmislegt í frásögninni bendir til þess að höfundir ætli sér að dvelja dálítið á þessu sögusviði og skrifa fleiri bækur í þessum anda.

Einn þráða sögunnar minnir á eftirminnilegan atburð í íslenskri sakamálasögu. Hér er það þó gert með þeim hætti að skáldaða frásögnin er með öllu fráskilin hinum raunverulega atburði; aðstæður eru svipaðar en það er ekkert sem staðsetur atburðinn í tíma eða rúmi utan verksins, og því ekki víst hvort lesendur átti sig á fyrirmyndinni. Hér er mun meiri áhersla lögð á þær afleiðingar sem rangar sakagiftir geta haft á alla aðila – bæði á þá sem eru sakaðir ranglega en einnig hina sem bera ábyrgð á þeim mistökum.

Gatið

Í Gatinu rata inn atburðir sem lesendur kannast við úr fjölmiðlaumræðu en lögreglumaðurinn Huldar og félagar hans komast á snoðir um hóp sem hefur gert sér að leik að taka upp kynlífsmyndbönd og deila þeim á síðu á internetinu. Á sama tíma rannsakar lögreglan morð sem virðist tengjast hvarfi tveggja einstaklinga. Ungur drengur finnst einn og yfirgefinn í íbúð í háhýsi í Skuggahverfinu og Freyja tekur að sér að ræða við drenginn á meðan lögreglan leitar foreldra hans. Huldar og Freyja eru orðin lesendum Yrsu vel kunn en Gatið er fjórða glæpasagan sem fjallar um þau og störf þeirra hjá lögreglunni annarsvegar og Barnaverndarnefnd hinsvegar.

Í Gatinu fylgjast lesendur með lögreglunni vinda ofan af einu máli, en það er ólíkt fyrri verkum höfundar, þar sem morðin og glæpirnir hreinlega hrannast upp. Þá eru glæpirnir ekki eins ýktir og áður, og því ef til vill nær raunveruleikanum – þar sem glæpir eru yfirleitt ekki hugsaðir í þaula fyrirfram. Þegar það á hins vegar við er nánast undantekningarlaust hætta á að eitthvað ófyrirséð eigi sér stað sem breytir gangi mála, oft með vægðarlausum hætti. Hér er framvindan nokkuð hæg, ef til vill hægari en oft áður hjá Yrsu og virðist það gert mjög meðvitað til að skapa rými fyrir umræðu um þau mál sem virðast brenna á höfundi. Þráðurinn um kynlífsmyndböndin gefur Yrsu færi á að fjalla um málefni sem hafa verið áberandi í samfélagsumræðu en það eru kynferðisofbeldi á internetinu, hrelliklám og hefndarklám.

Gatið markar því ákveðin skil í höfundarverk Yrsu og sýnir hvernig hún leitast við að þróa formið. Nokkuð sem hefur sést áður og ef til vill eitthvað sem höfundar þurfa að gera af og til svo þeir staðni ekki. Þá er ný persóna kynnt til sögunnar – hin reynslulitla en samviskusama Lína sem lætur ekkert framhjá sér fara. Lína er skólagenginn lögreglumaður, kemur úr lögreglunámi við Háskólann á Akureyri, væntanlega með fyrstu nemendum, og á eflaust framtíðina fyrir sér í lögreglunni.

Að lokum verð ég að setja stórt spurningarmerki við titilinn Gatið, sem lesendur komast að hvað raunverulega táknar undir lok sögunnar. Sá titill sló mig sem í versta falli smekklaus, í besta falli vanhugsaður. Þá langar mig einnig að hvetja glæpasagnahöfunda almennt til að leggja meiri vinnu við titla og benda á að það er engin nauðsyn að þeir séu aðeins eitt orð. Titill fangar lesandann í upphafi, rammar inn söguna fyrir hann og hefur mikil áhrif á lestraupplifunina í heild sinni. Hann markar upphaf lestursins og oftar en ekki lok hans líka, þegar lesandinn veltir merkingu hans fyrir sér í samhengi sögunnar sem hann hefur nýlokið við að lesa. Slæmur titill getur einfaldlega skemmt þá upplifun og dregið niður annars góða sögu.

Mistur

Ragnar Jónasson fylgir fast á hæla Arnaldar og Yrsu þegar kemur að vinsældum glæpasagna á Íslandi, en Mistur er þriðja sagan um rannsóknarlögreglukonuna Huldu. Áður hefur Ragnar sent frá sér glæpasögur sem fylgja annarri aðalpersónu, lögreglumanninum Ara, en einnig sjálfstæðar sögur. Í Mistri er farið aftur í tíma, til ársins 1987 og spunnir tveir ólíkir þræðir sem að lokum tengjast. Annar þráðurinn segir frá einangruðum afdalabæ austur á landi þar sem hjón undirbúa jólin. Á Þorláksmessu kemur til þeirra gestur sem þau kannast ekki við en hafa grunsemdir um. Í hönd fer afar spennandi og ófyrirsjáanleg atburðarás sem er einkar vel fléttuð af höfundi. Þá tekst honum afar vel að skapa nístandi spennu óhugnaðar mitt í huggulegri jólastemmningunni.

Þráðurinn sem fylgir lögreglukonunni Huldu segir frá fjölskyldulífi hennar sem er vægast sagt drungalegt. Jafnvel of drungalegt, því ýjað er að því að eitthvað hörmulegt hafi átt sér stað innan fjölskyldunnar, án þess að fjallað sé nánar um það. Þá er stíll sögunnar oft á tíðum full einfaldur, sem skapar ósamræmi við atburðarásina sem er eins og áður segir einkar vel unnin og undirbúin. Söguumhverfinu er vel lýst og verður í meðförum höfundar að hinum fullkomna stað fyrir óhugnanlega atburði; bærinn er einangraður, verður rafmagnslaus rétt fyrir jólin og dimmur eftir því, og snjórinn sem fylgir árstíðinni á þessum stað dempar öll hljóð.

Það er ljóst að höfundur ætlar sér að halda áfram seríunni um Huldu en í lok Misturs er stórum spurningum sem varðar líf hennar enn ósvarað. Þá verður einnig spennandi að sjá hvaða staðsetningu höfundur velur sér næst, en ásamt vel úthugsaðri fléttu er það yfirleitt söguumhverfið í verkum Ragnars sem heillar.

Glæpasögurnar Myrkrið veit, Gatið og Mistur eru mjög ólíkar sögur og endurspegla styrkleika hvers höfundar fyrir sig: Sögulegur tónn og vel skrifaður texti Arnaldar, samtímaleg og knýjandi málefni Yrsu, og ískrandi spenna og heillandi sögusvið Ragnars. Þessi breidd gefur til kynna að unnendur íslenskra glæpasagna ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi þessi bókajól. Ef ekki geta þeir leitað í aðrar nýútkomnar glæpasögur en í heild eru þær fjórtán sögurnar sem koma út þetta árið og tilheyra þeim flokki. Svo virðist sem glæpasagan lifi góðu lífi á Íslandi en fjöldi útgefinna glæpasagna síðastu ár gefur til kynna að hún lifi sitt blómaskeið þessi misserin.

Vera Knútsdóttir, desember 2017