Beint í efni

Náðarkraftur

Náðarkraftur
Höfundur
Guðmundur Andri Thorsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2003
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Kristín Viðarsdóttir

Skáldsagan Náðarkraftur eftir Guðmund Andra Thorsson kemur út eftir nokkurt hlé hans frá skáldskaparskrifum, en síðasta skáldsaga hans Íslandsförin, kom út 1996. Þó ekki væri nema fyrir þá sök sætir þessi nýja bók nokkrum tíðindum. Það má líka segja að söguefnið sæti tíðindum, skv. yfirlýsingu aftan á bókarkápu er hér á ferðinni saga „síðustu sósíalistanna“, sem sagt saga deyjandi tegundar. Í þessu felst auðvitað írónía og viss ögrun – það er nú ekki endilega víst að allir séu sammála um að sósíalisminn sé dauður þrátt fyrir allt.

Hér er sögð saga hjónanna Baldurs Egilsen fyrrverandi þingmanns og Katrínar sóknarprests og fyrrverandi kennara, barna þeirra tveggja og annarra sem tengjast fjölskyldunni. Það eru þó karlmennirnir sem fá mest rými í frásögninni, Baldur, faðir hans Einar sem einnig var virkur í hreyfingu sósíalista – eða Hreyfingunni eins og hún nefnist í bókinni – og svo vinur Baldurs og heimagangur hjá fjölskyldu hans, útvarpsþulurinn Geiri, sem einnig er einn af þessum „síðustu sósíalistum“. Sonur Baldurs, Sigulinni, tekur svo aðra stefnu en ættfeðurnir, hann ætlar sér að sigra heiminn á sinn hátt og er ekki upptekinn af hinu stóra samhengi hlutanna eða pólitískri baráttu yfirleitt. Hann er fulltrúi einstaklingshyggjunnar og þá fyrst og fremst tækifærishyggju, hann ætlar að reyna margt smátt og fara víða. Yfir og allt um kring er svo söguhöfundur sem leiðir lesandann um líf þessa fólks í fortíð og nútíð í þriðju persónu frásögn, um leið og hann rekur sögu þess og leggur út af atburðum hér og hvar, og er rödd hans afar sterk í textanum og skiptir sköpum fyrir þann frásagnarblæ sem er á sögunni.

Mér fannst ég nefnilega eiginlega ekki vera að lesa skáldsögu þegar ég las þessa bók. Miklu heldur einhvers konar eftirmæli um manngerð og um leið tímabil í pólitískri sögu landsins, eða öllu heldur brot af þessari pólitísku sögu – með áherslu á nokkra einstaklinga sem tóku þátt í sósíalískri baráttu og hvernig hún litar líf þeirra og tilveru. Þar með verður söguhöfundur í raun ein mikilvægasta „persóna“ bókarinnar, það er hans sýn sem litar alla frásögnina og lesturinn verður svolítið eins og maður sé að hlusta á sögumann segja manni sögur af þessu fólki.

Það er þó ekki svo að persónurnar verði einhliða og flatar (með ákveðnum undantekningum eins og vikið verður að) eða séu notaðar sem einhvers konar dæmi til að koma greiningu söguhöfundar á framfæri. Það eru öllu heldur persónulýsingarnar sem halda sögunni uppi, því varla er hægt að tala um eiginlegan söguþráð í þessari sögu. Þetta eru mannlýsingar fyrst og fremst, rammaðar inn í fjölskyldusöguna og samband persóna hverja við aðra og lýsingar á því hvernig þær takast á við líf sitt og tilveru.

Söguhöfundur gerir sterkan greinarmun á þessu tvennu, lífi og tilveru, og það sem sagan snýst ekki síst um er hvernig þessum persónum tekst að skapa sér tilveru þegar lífið tekur aðra stefnu en draumar þeirra og vonir standa til – eða þegar lífið er einfaldlega of flókið til að hægt sé að henda reiður á því. Fremst í bókinni er eftirfarandi tilvitnun í sögu Gyrðis Elíassonar „Leirkerið“, sem ásamt ljóðlínunni „Og heimsins fegursti dagur dó“ eftir Jóhannes úr Kötlum myndar einkunnarorð bókarinnar:

„Ég ætla að láta brenna mig ofan í þetta ker,“ sagði hann svo og benti á kerið sitt í hillunni.
„Þú átt ekki að hugsa svona,“ sagði drengurinn.
„Hvernig á maður að hugsa?“ spurði maðurinn.
„Maður á að lifa,“ sagði drengurinn.
„Til hvers?“ sagði maðurinn.

Það er þessi spurning sem tekist er á við öðru fremur, til hvers á maður að lifa? og ef það sem maður hélt að gæfi lífi manns gildi reynist ekki rísa undir merkjum, hvernig bregst maður þá við og smíðar sér merkingarbæra tilveru? Það gera persónurnar hver með sínum hætti, og verður ekki annað séð en að þeim takist það bara bærilega en flestar eiga þær innihaldsríka tilveru þótt líf þeirra virðist í fljótu bragði mjög einfalt. Persónurnar eru allar breyskar, en eitt af því sem einkennir frásögnina er mikil hlýja sem er lituð góðlátlegum húmor og lesandanum fer að þykja eilítið vænt um þetta fólk sem er í senn svolítið skrýtið og stundum barnalegt en þó eitthvað svo venjulegt og umfram allt mannlegt. Mér fannst títtnefnd rödd söguhöfundar þó verða yfirþyrmandi á köflum þrátt fyrir ótvíræða frásagnarhæfileika, mælskan var stundum fullmikil og lýsingar á persónum gátu verið endurtekningarsamar og jafnvel þreytandi.

Eins og áður sagði fá karlarnir í sögunni mun meira rými en konurnar, þær Katrín og dóttirin Sunneva, og fannst mér kvenlýsingarnar mun minna sannfærandi en lýsingarnar á körlunum sem eru afar lifandi og eftirminnilegar. Sérstaklega á þetta við um lýsinguna á Sunnevu. Hún vingsast á milli þess að þrá einhvers konar bóhemlíf og öryggi hinnar borgaralegu tilveru sem hún hefur alist upp við (fjölskyldan er nefnilega háborgaraleg eins og raunar er gert að umtalsefni í bókinni), en þetta kristallast fyrst og fremst og má segja eingöngu í vali hennar á mannsefni sem mér fannst nú frekar máttlaust svo vægt sé til orða tekið – sagan gerist rétt fyrir aldamótin nýliðnu og ungar konur hafa sem betur fer úr fleiri kostum að velja í dag. Eins eru kærastarnir tveir afar litlausir, hvor á sinn hátt – hinn Evrópusinnaði Þórður og sænski iðjuleysinginn sem reynist síðan vera annað en það sem hann gefur sig út fyrir að vera, en það fær Sunneva aldrei að vita þótt söguhöfundur trúi lesandanum fyrir þeim upplýsingum. Katrín er dregin skýrari dráttum, en mér fannst hún samt full einhliða og eins átti ég erfitt með að átta mig á umræðunni um skyggni hennar, sem ég gat ekki séð að þjónaði neinum sérstökum tilgangi fyrir frásögnina - það hefði mátt vinna mun betur úr þeim þræði.

Það má líta á söguna sem visst uppgjör við sósíalismann, en það má líka lesa hana sem sögu um fólk sem átt hefur sér drauma og hugsjónir sem hafa brugðist – hvaða nafni sem þær nefnast og það finnst mér vera mun sterkari þráður í þessari sögu. Hin pólitíska barátta verður raunar frekar hlægileg í meðförum höfundar, því þótt hugsjónir þeirra sem bera uppi frásögnina séu einlægar og ásetningur þeirra fyrst og fremst sá að láta gott af sér leiða, er Baráttan fremur heimóttaleg og lýsingarnar á samkomum Hreyfingarinnar næstum eins og lýsingar á barnaskólaskemmtunum. Það kemur þó í ljós að ýmislegt er makkað á bakvið tjöldin, og Baldur er einn þeirra sem fer illa út úr slíku ráðabruggi.

Í upphafi bókarinnar hittum við fjölskylduna samankomna, ásamt Geira, heima hjá þeim Baldri og Katrínu á góðum degi. Lesandinn fær strax tilfinningu fyrir sterkum böndum sem tengja þetta fólk saman, þetta er náin fjölskylda sem lætur sér annt um sína og hefur skapað sér lítinn heim sem tákngerist í húsinu þeirra í Karfavoginum og garðinum sem umlykur það. Fjölskyldufaðirinn hefur snúið sér að því meðal annars að rækta þennan garð og þar er beint vísað til Birtings Voltaires (í bókinni úir og grúir af vísunum í bókmenntir), en í víðari skilningi iðjar hver við sitt hvort sem er smátt eða stórt í tilraun til að láta lífið sitt rætast, svo vitnað sé í titil á annarri nýútkomninn bók þótt af öðrum toga sé.

Náðarkraftur er ekki gallalaus bók, en hún er skemmtileg og umhugsunarverð lesning um íslenskan veruleika og það hvernig fólk tekst á við lífið á mismunandi hátt og verður að segjast að hún situr í manni að lestrinum loknum.

Kristín Viðarsdóttir, desember 2003