Beint í efni

Náttblinda

Náttblinda
Höfundur
Ragnar Jónasson
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2014
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Ingvi Þór Kormáksson

Náttblinda er sjötta bók Ragnars Jónassonar um lögreglumanninn Ara Þór. Fyrsta bókin, Fölsk nóta, stendur alltaf dálítið sér eins og ekki hafi verið meiningin að fleiri bækur yrðu skrifaðar um söguhetjuna. Í þeirri bók er hann ungur guðfræðinemi en í næstu bók, Snjóblindu, hefur hann hætt námi eða frestað því og gerst lögreglumaður á Siglufirði. Bækurnar þar á eftir gerast að mestu leyti fyrir norðan. Í þessari nýjustu bók gerist það að lögreglumaður að sunnan, sem hefur hreppt varðstjórastöðuna sem Ari hafði augastað á, finnst myrtur við yfirgefið hús rétt við munna Strákaganga. Fyrrum varðstjórinn, Tómas, sem flust hefur úr bænum og býr nú í Reykjavík, er fenginn til að leiða rannsókn málsins. Inn í þá rannsókn blandast nýráðinn bæjarstjóri og ritari hans. Í ljós kemur að ritarinn, ung kona sem þekkir bæjarstjórann vel frá fornu fari, fer hálfpartinn huldu höfði þarna á staðnum.

Eins og títt er um glæpasögur er lesandinn dreginn inn í ýmis mál sem kannski tengjast ekki beint morðinu þegar betur er að gáð. Grunsemdir Ara og Tómasar beinast talsvert að þessu aðkomufólki, Gunnari bæjarstjóra og ritaranum, Elínu. Einnig kemur við sögu Addi Gunnu, maður um sjötugt sem á grunsamlega fortíð og gæti hugsanlega enn haldið sig að hluta til röngu megin laganna. Sambúð Ara og Kristínar kærustu hans er enn brothætt og nú eiga þau ungan son sem þarf að hugsa um. Þetta er framhaldssaga seríunnar. Inn í frásögnina er síðan skotið minningabrotum úr dagbók manns sem dvelur að því er virðist á geðdeild Landspítalans. Þessi skrif vekja áhuga og í lok bókar kemur í ljós hvernig þau tengjast meginsöguþræðinum.

Stærsti glæpurinn er þó ekki endilega morðið sem er þungamiðja sögunnar heldur ofbeldið sem viðgengst í sumum fjölskyldum þar sem eiginmenn og kærastar beita konur sínar barsmíðum. Slíku er líka alltof oft þagað yfir. Þótt bókin sé ekki beinlínis hörkuspennandi er hún nægilega spennandi og vel skrifuð til að halda lesandanum við efnið. Ekki spillir hve hrein og bein frásögnin er og hvernig allt gerist í rökréttu framhaldi hvað af öðru. Stíll Ragnars hefur sífellt farið batnandi með árunum. Margir hafa talað um að hægt sé að smjatta eða jafnvel kjamsa á textum Jóns Kalmans eða Péturs Gunnarssonar. Slíkt á kannski ekki við hér en textinn er vandaður og um leið látlaus og afslappaður.

Alvitur sögumaður leyfir okkur að skyggnast inn í hugsanir og sálarlíf Gunnars, Elínar og Kristínar, auk Ara að sjálfsögðu. Það má kannski fetta fingur út í hve vandræði þau sem Gunnar og Elín lenda í virðast gufa upp. Það hefði kannski mátt fylgja þeim betur eftir og jafnvel líka sambúðarvandamálum kærustuparsins Ara og Kristínar þótt á þau sé bundinn endahnútur sem þó kann að vera tímabundinn ef framhald verður á bókaflokknum. Maður hefði þó viljað vita meira um hvernig fór fyrir hinu parinu, það hefði kannski mátt vinna meira með þau tvö þar sem búið var að veita nokkra innsýn í líf þeirra og vekja forvitni um örlög þeirra. Þetta er dálítið endasleppt en um leið er ekki mikið um sparðatíning og dvöl við smáatriði sem oft eru notuð til að lengja bækur af þessu tagi úr hófi. Á hinn bóginn er sagan sjálf með dauflegra móti og reynist Ara fremur auðvelt að átta sig á því í lokin hvernig í pottinn er búið.

Þetta er víst síðasta bókin um Ara í bili. Eflaust er ágætt að ofgera ekki með dularfullum dauðsföllum í ekki stærra plássi. Reyndar hefur höfundur komið því þannig fyrir í fyrri bókum að dauðsföllin eiga sér sum stað utanbæjar og fylla þannig ekki alveg í bakkafullan lækinn. Það verður spennandi að sjá hvar Ragnar ber niður í næstu bók. Ólíklegt að hann gefi rithöfundarstarfið upp á bátinn á svona góðri siglingu. En, sem sé, Náttblinda er vel skrifuð bók og góð viðbót við fyrri bækur Ragnars.

Ingvi Þór Kormáksson, nóvember 2014