Beint í efni

Nornasaga: Hrekkjavakan

Nornasaga: Hrekkjavakan
Höfundur
Kristín Ragna Gunnarsdóttir
Útgefandi
Bókabeitan
Staður
Reykjavík
Ár
2019
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
Elín Björk Jóhannsdóttir

Nornasögu: Hrekkjavökuna ber að sama brunni og fyrri verk Kristínar Rögnu Gunnarsdóttur þar sem hún sækir í fornbókmenntir og goðsagnir Íslendinga og smíðar úr þeim ævintýralega atburðarás. Katla Þórdísar- og Ugludóttir, stúlka sem er bæði aðalsögupersóna og sögumaður bókarinnar, lendir í hringiðu atburðarásarinnar og þarf að redda málunum með hjálp fjölskyldu og vina. Textinn er sjálfsögulegur eða metatexti, meðal annars í því að hann fjallar um sköpun sína þar sem Katla skrifar söguna „því líf [hennar] liggur við“ (7). Sögusvið bókarinnar er miðbær Reykjavíkur og þangað dregur Kristín Ragna fram norn úr Völuspá sem er óvætturin í bókinni. Kristínu Rögnu tekst vel til við að gera efni fornbókmenntanna spennandi fyrir nýjar kynslóðir. Á sama tíma nýtir hún einnig nýrri menningaráhrif einsog þau bandarísku sem birtast meðal annars í hrekkjavökunni og brúar þannig bilið á milli ólíkra menningarheima.

Völuspá er sá texti sem Kristín Ragna sækir einna mest í. Nornin Gullveig gýs upp úr gömlu Íslandskorti þegar Kötlu verður það á að snerta nöfnu sína, eldfjallið, á hrekkjavökunni. Katla og félagar þurfa að túlka texta Völuspár til að leysa úr þeim vandamálum sem Gullveig veldur í samfélaginu og til „að flæma Gullveigu burt“ (188). Bókin boðar klassískan boðskap varðandi vináttu. Katla, sem er ný í skólanum, ætlar sér að fá inngöngu í hóp vinsælu stelpnanna í bekknum með því að klæðast grímubúningi sem passar við þeirra, en þær ætla að fara sem persónur úr myndinni Garldrakarlinn frá Oz. Katla sjálf ætlar í búningi vondu nornarinnar úr vestri og gerir ráð fyrir að komast þannig inn á allar Instagram-myndir hópsins. Í gegnum söguþráð bókarinnar gerir Katla sér grein fyrir að vinsælu stelpurnar eru ekki verðugir vinir og hún vingast í staðinn við bekkjarbróður sinn, Mána, sem er jaðarsettur einsog hún. Máni á kínverska móður og það vekur athygli hversu margt hann á sameiginilegt með nafna sínum úr Kopareggi Sigrúnar Eldjárn, en lesa má umfjöllun um hana hér. Báðir Mánarnir eru hörundsdökkir og verða bestu vinir aðalpersónu í bókunum. Til að endurspegla innihaldsleysi samfélagsmiðlanna er það Gullveig sem verður „glæstasta stjarna“ þeirra (113). Gullveig boðar einstaklingshyggjumöntruna „Ég, um mig, frá mér, til mín“ (57) og notar meðal annars nútímatækni til þess að útvarpa boðskap sínum. En lífsgæðin eru ekki mæld í fylgjendum og Katla sér í gegnum brögð Gullveigar og bjargar sínum sanna vini, Mána.

Kristín Ragna beitir húmor í texta listilega í bókinni og myndlýsingar hennar stækka heim frásagnarinnar. Húmorinn birtist meðal annars í persónu Gullveigar sem býður fólki „gylliboð“ (39) og gulltékka sem flestir stökkva hugsunarlaust á og veldur hömlulausu kaupæði. Eins er Máni festur á blað (86) af Gullveigu með göldrum og verður að óskýrri teikningu af sjálfum sér, þ.e. ólíkri öðrum teikningum bókarinnar sem er auðvitað líka metatextalegt því allar persónur bókarinnar eru festar á blað af höfundinum.

 

nornasagamáni

Teikningin af Mána er mjög ólík öðrum teikningum í bókinni og leggur þannig áherslu á annarlegt ástand hans undir álögunum. Fylgisveinar Gullveigar birtast til skiptis í formi árásargjarnra starra, halalausra rotta og „dökkklæddra náunga með gyllt speglasólgleraugu“ sem einnig eru „með kanínutennur“ (54). Í teikningum Kristínar Rögnu eru þeir mest ógnandi sem starrar en í mannsmynd birtast þeir sem pör og eru kómísk einkenni þeirra sérlega greinileg þar.

nornasaga2

Nornasaga: Hrekkjavakan ber sterk höfundareinkenni í myndlýsingum sem eru í þeim klippimyndastíl sem Kristín Ragna er þekkt fyrir. Myndir bókarinnar eru í ýmsum stærðum, frá heilum opnum niður í stakar blaðsíður og svo minni myndir, einsog andlitsmyndir af persónum sem eru meðal annars notaðar til að kynna þær til sögunnar og gefa lesandanum hugmynd um persónuleika þeirra. Einnig er að finna smáatriðamyndir af ákveðnum hlutum og dýrum. Þar eru rottur og starrar algeng mótíf og nálgast að verða alltumlykjandi á meðan Gullveig leggur undir sig borgina. Auk þess er leikið með bakgrunn textans; í köflum sem eru sérstaklega mikilvægir er stundum litaður bakgrunnur og endurspeglar form bakgrunnsins oft efni textans. Kristín Ragna skýtur einnig inn blaðaúrklippum sem brúa bilið á milli texta og mynda. Þær eru myndskreyttar og þar laumar höfundur inn vísbendingum um söguþráðinn sem eru stundum kómískar. Húmorinn og myndlýsingar Nornasögu: Hrekkjavökunnar halda áhuga lesandans í gegnum bókina og styðja vel við spennandi söguþráðinn.

nornasaga

Gullveig sjálf er hamhleypa, einsog fylgisveinarnir, en mennskt form hennar breytist líka greinilega í bókinni. Gullveig er ódauðleg og þegar hún sprettur fyrst fram segist hún vera „að deyja úr hungri“ en bætir svo við: „Eins og það gæti gerst“ (22). Það sem Katla og félagar, auk lesandans, komast að síðar er auðvitað að æsir höfðu reynt allt sem þeir gátu til að drepa Gullveigu án árangurs en að lokum varpað henni í útlegð. Eftir hreinsanir Gullveigar og fylgismanna á bókakosti landsmanna geta persónurnar ekki fundið eintak af hinni upprunalegu Völuspá á bókasöfnum bæjarins en þá kemur sér vel að litla systir Kötlu á eintak af barnaútgáfu Völuspár. Þar vitnar Kristín Ragna til barnaútgáfu af Völuspá sem hún sjálf myndlýsti og Þórarinn Eldjárn endurorti textann fyrir.

Gullveig breytir um form, hún getur brugðið sér í form dreka og hún fitnar líka hratt eftir að hún sleppur úr útlegðinni og inn í okkar vídd og fær loksins almennilegan mat. Um laxasnitturnar segir hún að þær séu nú „eitthvað annað en grillaðir rottuhalar eða mannabein“ (28) og svo tekur hún miklu ástfóstri við pylsur, svo miklu að þær klárast á Bæjarins bestu, einsog skotið er inn í einni blaðaúrklippunni. Kristín Ragna notar persónu Gullveigar til að draga fram ákveðna eiginleika neyslusamfélagsins og dregur fram hliðstæður þess og gullaldar goðanna þegar þau gengu á náttúrugæði eftir að Gullveig kynnti undir græðgi þeirra (182). Þessi samsömum er til þess gerð að vekja lesendur til hugsunar um hversu mjög við erum enn að ganga á náttúrugæði Íslands.

Í lok bókar spyrja bæði Katla og lesandi sig hversu mikið Katla á sameiginlegt með Gullveigu. Máttur hennar virðist nokkur þar sem hæfileikinn til að opna víddir, sem Gullveig smýgur í gegnum, tilheyrir nornum og völvum. Því vakna óhjákvæmilega spurningin um hver Katla sé eiginlega og hvaðan hún fái krafta sína. Einsog sjá má í fylgisveinum Gullveigar notar Kristín Ragna tvífaraminnið markvisst í bókinni og tvífarapörin eru nokkur. Mikilvægust þeirra eru nornirnar Gullveig og Heiður systir hennar og svo Gullveig og Katla. Síðarnefnda parið er undirbúið frá upphafi bókarinnar því einsog fyrr sagði er Katla klædd í gervi kvikmyndanornarinnar úr Galdrakarlinum í Oz þegar þær hittast fyrst og í gegnum bókina er nokkrum sinnum vísað í ljósmynd af þeim að stara á hvor aðra. Spurningin um upprunann er svo mögnuð upp af forvitni bróður Kötlu um bakgrunn sinn. Nornasaga: Hrekkjavaka er æsispennandi frá upphafi til enda og vel plottuð. Við lok bókar gerir lesandi sér grein fyrir að uppruni Kötlu er ekki fyllilega skýr og það er því ljóst að ýmsum spurningum er enn ósvarað. Þannig galopnar Kristín Ragna gættina fyrir framhaldi um sömu persónur.
 

Elín Björk Jóhannsdóttir, desember 2019