Beint í efni

Núll núll 9: spennusaga

Núll núll 9: spennusaga
Höfundur
Þorgrímur Þráinsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2009
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
Guðríður Sigurbjörnsdóttir

Núll núll 9: spennusaga er sjálfstætt framhald bókanna Svalasta sjöan og Undir fjögur augu sem komu út 2003 og 2004. Hér er Jóel, aðalsöguhetjan og sögumaðurinn, 16 ára, nýbúinn með grunnskólann og nýfluttur aftur til Akureyrar, síns gamla heimabæjar, eftir að hafa búið í Reykjavík vegna veikinda litlu systur sinnar.

Sagan gerist á rúmri viku sumarið 2009 og hefst á því að Jóel situr á kaffihúsinu Bláu könnunni íklæddur ljónabúningi, en hann hefur aukavinnu af því mæta á leikskóla í búningnum og skemmta krökkunum. Hjá honum sest útlensk stúlka, Ania, og þau taka tal saman. Jóel líður eins og asna, ljónabúningurinn þrengir að honum og stelpan gerir grín að honum með því að taka ljónabúninginn fyrir kanínubúning. Ania bregður sér frá og biður hann að geyma tölvuna sína á meðan. Hún kemur ekki aftur og Jóel situr upp með tölvuna og er þar með orðinn þátttakandi í æsilegri atburðarás án þess að fá nokkuð við það ráðið.

Eins og titill bókarinnar gefur til kynna er þetta spennusaga. 009 er nafn á leynilegri aðgerð,  ekki er vitað hver stendur á bak við hana, en gefið er í skyn að það séu Rússar eða Bandaríkjamenn. Núll núll 9 vísar óneitanlega til ártalsins 2009 og þeirra aðstæðna sem þjóðin stendur frammi fyrir hér og nú. Titillinn kallast einnig á við kennitölu James Bond, 007, enda er hluti sögunnar mjög í anda hans og ýtt undir það með ýmsum tilvitnunum í kappann. Það er allt til staðar, bara smærra í sniðum og svolítið sveitalegra: barátta og átök stórveldanna, rússneskur leigumorðingi, harðsvíraðir glæpamenn, þyrla, einkaflugvél, tifandi tímasprengja, ofurgræjur, tilræði við þjóðhöfðingja, mannrán, morð og morðtilraun og svo mætti áfram telja.

Til hliðar við spennusöguna er önnur, öllu raunveru- og hversdagslegri, saga. Það er sagan um unglingsstrákinn Jóel, sem býr með einstæðri og illa stæðri, stundum drykkfelldri móður sinni og krabbameinssjúkri systur. Hann vinnur í Bónus, veit ekki hvort hann á að halda áfram að vinna eða fara í MA eða VMA, æfir fótbolta, er skotinn í  tveimur stelpum, sveiflast á milli sjálfstrausts og öryggisleysis sem hefur oftar en ekki yfirhöndina. Hann á þann draum æðstan, fyrir utan að litla systir hans verði heilbrigð og hann atvinnumaður í fótbolta, að pabbi hans flytji heim aftur.

Spennusagan og saga Jóels mynda umgjörð um mjög skýran boðskap, annars vegar til þjóðarinnar um að standa vörð um auðlindir sínar og gefa ekki höggstað á sér á tímum kreppu og hins vegar er boðskapurinn um að hetjuskapur og hugrekki felast ekki í ytra byrði, umbúðum eða ofurgræjum á borð við þær sem James Bond býr yfir. Hvað hina hversdagslegu hlið sögunnar varðar er Þorgrímur algjörlega á heimavelli og greinilegt að hann kann vel að skrifa góða unglingasögu. Persónusköpunin skýr og góð, þó hún sé full klisjukennd á köflum. Orðfærið er miðað við unglinga og tekst vel til (ég velti því þó fyrir mér hvort einhver unglingur noti orðið „dama“ yfir stelpur, minnir mig frekar á orðanotkun móðurbróður míns á áttræðisaldri). Líf Jóels er frekar flókið (semsagt hið hversdagslega líf hans, án Bond framvindunnar) og kemur höfundur hugsunum hans og vangaveltum vel til skila. Jóel er enginn James Bond, hann er frekar hin dæmigerða andhetja, óöruggur í návist stelpna, drekkur lífrænt engiferöl, er að drepast úr hræðslu og óöryggi og skröltir um á vespu til að bjarga þjóðinni. Í upphafi er hann þessi óharðnaði, tvístígandi einstaklingur sem langar að vera fullur sjálfstrausts og öruggur með sjálfan sig. Hann langar ekki endilega að verða fullorðinn, en hann langar að vera hugrakkur. Hann veit í sögulok að umgjörðin, tækin og tólin breyta engu, ljónabúningurinn blekkir engan, það sem skiptir máli er það sem er innan í; hugarfarið, viljinn, og hugsunin ég verð. Og ekki sakar að stunda fótbolta svona upp á úthaldið og keppnisskapið.

Það sem mér fannst einna helst varpa skugga á söguna var þessi togstreita á milli þess raunsæja og spennusögunnar. Framvindan og atburðir voru einnig óþarflega ýktir á köflum, allt að því svolítið „2007“ í yfirgengileika sínum.  Þó sagan sé vissulega spennandi, fannst mér hún ekki nógu trúverðug og velti ég því fyrir mér hvort hægt hefði verið að koma boðskapnum til skila án James Bond fantasíunnar og hvort ekki sé hægt að sýna hetjuskap án þess að heill þjóðarinnar liggi undir. En ég vil endilega lesa meira um unglingspiltinn Jóel, sem ég held að sé geðugasta ungmenni sem ratað hafi í unglingabók fyrr og síðar.

Guðríður Sigurbjörnsdóttir, nóvember 2009