Beint í efni

Ó Reykjavík, ó Reykjavík

Ó Reykjavík, ó Reykjavík
Höfundar
Ragnar Jónasson,
 Katrín Jakobsdóttir
Útgefandi
Bjartur-Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Björn Halldórsson

Þótt þær fyrirfinnist jafnt á sveitasetrum sem um borð í skemmtiferðaskipum eða farþegahraðlestum – og jafnvel í langhúsum víkinga eða tólftu aldar munkaklaustrum – þá finnst mér alltaf á einhvern hátt að glæpasagan eigi heima í borginni. Þar er að finna jarðveginn sem hún spratt fyrst upp úr í sögum Edgars Allen Poe um Parísarbúann Le Chevalier C. Auguste Dupin og síðar meir í hans furðu keimlíka starfsbróður í Lundúnum, Sherlock Holmes. Í bókum sínum hefur Ragnar Jónasson hinsvegar haldið sig við sjávarþorp og fáfarna staði, og nýtt sér strjálbýli Íslands til að búa til sína eigin aðför að bresku hefðarsetursmorðgátunni. Nú er hann loks mættur á mölina, í nýrri glæpasögu sem heitir einfaldlega Reykjavík og hefur þar fengið liðsauka frá Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra Íslands.

Það er auðvitað í hæsta máta óvenjulegt að starfandi forsætisráðherra gefi út reyfara samhliða vinnu sinni í þágu þjóðar. Ekki er samt hægt að vefengja áhuga og þekkingu Katrínar á efninu, eins og sjá má á fjölmörgum greinum hennar um formið í gegnum árin og meistararitgerðinni Glæpurinn sem ekki fannst: Saga og þróun íslensku glæpasögunnar (2001), sem enn er hægt að nálgast á bókasöfnum landsins. Þó mætti ætla að það sé að einhverju leyti vegna stöðu Katrínar sem þau Ragnar kjósa að takast ekki á við Reykjavík nútímans heldur dýfa sér í fortíðina í von um að finna þar „frelsi [til] að skrifa um horfinn tíma sem ekki tengdist samfélagslegum álitamálum nútímans“ – eins og segir í eftirmála bókarinnar (347). Það að flýja veruleikann um stund er vissulega ein af nautnunum sem glæpasögur bjóða upp á – eitthvað sem þeim er einmitt oft hallmælt fyrir – en það er óvíst hvort flóttatilraun höfundanna inn í fortíðina dugi til að fría bókina frá hugrenningatengslum við samtímann. Nýverið dró Sjón, einn af þekktustu núlifandi höfundum Íslands, þátttöku sína til baka á bókmenntahátíðinni Iceland Noir þar sem honum hugnaðist ekki að taka þátt í því sem hann sá sem „menningarþvott“ forsætisráðherra, með því að deila sviði með henni og ræða um bækur á meðan verið væri að vísa flóttafólki úr landi í skjóli nætur. (Þess má geta að Ragnar Jónasson er einn af stofnendum hátíðarinnar.)

Hvað varðar fléttu bókarinnar er best að segja sem minnst til að hafa ekki af lesendum ánægjuna af lestrinum. Árið 1956 hverfur ung stúlka úr Viðey, þar sem hún var í vist hjá efri stéttar hjónum sem nýta síðan tengsl sín innan valdaklíku Reykjavíkur til að hindra framgang rannsóknarinnar. Það heppnast ekki betur en svo að þrjátíu árum síðar er hvarfið ennþá matur fyrir æsifréttablöðin, og blaðamaðurinn Valur fer á stúfana og gerir sér vonir um að leysa málið í eitt skipti fyrir öll. Hann er þó ekki einn um að fást við ráðgátuna en tvo aðra „rannsakendur“ er að finna í bókinni. Þar ber fyrst að nefna lögreglumanninn Kristján, sem er fyrstur á vettvang út í Viðey, ennþá blautur á bak við eyrun. Hvarf stúlkunnar á eftir að setja varanlegt mark á langan starfsferil hans hjá lögreglunni. Kristján á minnstan þátt í úrlausn gátunnar en fyrstu kaflar bókarinnar fylgja honum í gegnum áratugina og sýna hvernig málið ber sífellt á góma að nýju og ásækir hann í starfi og einkalífi. Er farið heldur hratt yfir sögu í þeim köflum og hvert tímabil fyrir sig afgreitt með tilvísunum í atburði líðandi stundar sem er eins og sáldrað yfir textann í flýti. Sagan tekur ekki við sér fyrr en árið 1986, með innkomu fréttahauksins Vals á bleðlinum Vikublaðinu. Valur hefur haldið úti vinsælum greinaflokki á síðum blaðsins þar sem hann rifjar upp þetta dularfulla mál, en þegar hann fær símtal frá einhverjum sem segist vita hvar jarðneskar leifar stúlkunnar sé að finna eygir hann leið til að tryggja sínum fallvalta fjölmiðli metsölu. Í rannsókn sinni nýtur Valur stuðnings frá systur sinni, Sunnu, sem er að reyna að ljúka við meistararitgerð í bókmenntafræði við Háskóla Íslands en dregst sífellt lengra inn í rannsóknina og starf blaðasnápsins. Er hún þriðji rannsakandi sögunnar.

Þetta víða sögusvið sem spannar heil þrjátíu ár býður vissulega upp á miklar sviptingar en þarfnast einnig stórs persónugallerís og þurfti undirritaður ítrekað að fletta til baka og renna yfir nafnaskránna sem höfundar hafa látið fylgja fremst í bókinni. Bókin fer þar að auki ansi hægt af stað, kannski sökum aðdáunarverðrar tilraunar höfunda til að losa sig við klisjukennda frásagnartækni sem hefur verið hálfgert einkennismerki íslensku glæpasögunnar undanfarin ár; þ.e.a.s. hinn hefðbundna skáletraða formála sem færir okkur leiftursýn af morðinu, eða aðdraganda þess, og er ætlað að undirstrika óhugnaðinn í sögunni og kveikja þannig áhuga lesanda strax í fyrstu línu. Ég hef lengi vonast eftir að sjá íslenska glæpasöguhöfunda láta reyna á aðrar formúlur en þetta þó mjög svo áhrifaríka stílbrigði, en því miður tekst Ragnari og Katrínu ekki alveg að fylla upp í skarðið sem þessi venja skilur eftir sig. Það vantar hreinlega upp á spennuna framan af, og þarf lesandi að vera æði þolinmóður á meðan flett er í gegnum fyrstu kaflana. Ekki er þó endilega svo að höfundum hafi hreinlega brugðist bogalistin, heldur grunar mig að þessi hæga aðför hafi eitthvað að gera með yfirlýsta ást þeirra beggja á Agötu Christie. Bókin er einmitt tileinkuð Christie, auk þess sem rithöfundinum Elíasi Mar bregður fyrir í aukahlutverki sérstaklega til að ræða þýðingar sínar á verkum hennar. Í skrifum Christie er nefnilega ekki endilega verið að hafa áhyggjur af því að keyra spennuna í botn frá fyrstu línu, og var hún óhrædd við að gefa lesendum næði til að aðlagast umhverfinu og dveljast um stund með persónunum áður en hún lét til skara skríða. Í mínum huga er ánægjan sem maður fær út úr persónusköpun Christie og umhverfinu sem hún dregur upp í morðgátum sínum engu síðri en úrlausn gátunnar sjálfrar. Það sést greinilega á því að eftir lesturinn eru það persónur hennar sem maður tekur með sér og hlakkar til að hitta í næstu bók, á meðan maður er fljótur að gleyma því hver morðinginn reyndist á endanum vera. Þykir mér ljóst að með þessari hægu framvindu, og hve miklu bleki þau eyða í að draga fram borgarlandslag Reykjavíkur og kunnuglegar persónur úr fortíðinni, ætla Katrín og Ragnar sér að fanga eitthvað af þessum Christie-lega sjarma. Þannig tekst þeim að skapa stemmningu og ánægjulegan – eða að minnsta kosti huggulegan – lestur. Fyrirgefst þeim því kannski að þegar upp er staðið reynist fléttan sjálf heldur billeg, og þótti undirrituðum höfundarnir hafa, miðað við stærð persónugallerísins sem þau hafa úr að ráða, látið sér ýmis gullin tækifæri úr greipum ganga sem hefðu getað flækt gátuna og keyrt upp spennuna á lokametrunum.

„Í mörgum bestu glæpasögunum er borgin sjálf ein af aðalsöguhetjunum,“ sagði einhver, og þannig er það einmitt með Reykjavík. Mikið er lagt upp úr því að draga upp mynd af borgarlífi níunda áratugarins. Á köflum verða þessar vísanir kannski eilítið íþyngjandi, líkt og höfundar finni sig knúin til að minna okkur í sífellu á dagsetninguna með tilvísunum í Top Gun, Gorbatsjov og Reagan, permanent og eiturgræna kjóla. Engu að síður er víst að fortíðarför höfundanna á eftir að slá í gegn hjá lesendum á ákveðnu aldursbili. Þegar best tekst til er okkur færður kærkominn kunnugleiki fortíðarinnar, þar sem hægt er að kasta kveðju á Óla blaðasala á horni Austurstrætis og Pósthússtrætis, taka þátt í fögnuðinum á afmælishátíð Reykjavíkur og bragða á 200 metra langri afmælisköku borgarinnar, eða ranghvolfa augum yfir lesendabréfum sem jagast yfir álaginu sem nýtilkomnir upphringileikir hinnar nýstofnuðu útvarpsstöðvar Bylgjunnar setja á símkerfi landsins. (Undirrituðum fannst til að mynda einkar skemmtilegt að rekast á ofurlitla tilvísun til afabróður síns heitins á blaðsíðu 226, í heimsókn á gömlu Hagstofuna á Hverfisgötu.) Slík smáatriði verða til þess að þeim lesendum sem er annt um minningar sínar af Reykjavík þessara ára á eftir að þykja bókinni beint sérstaklega til sín. Í því sýna höfundar natni og alúð fyrir nærumhverfi sínu, samferðafólki og höfuðborginni sjálfri sem er óvenjuleg og hressandi fyrir íslenska glæpasögu.

Síðan íslenska glæpasagan hóf sína miklu útreið inn á erlenda útgáfumarkaði hefur því oft verið slengt framan í íslenska glæpasöguhöfunda að þeir séu „bara að skrifa fyrir einhverja útlendinga.“ Slíkt verður seint sagt um Reykjavík, sem er á margan hátt ástaróður höfundanna til borgarinnar sem hún dregur nafn sitt af.
 

Björn Halldórsson, desember 2022