Beint í efni

Ofsi

Ofsi
Höfundur
Einar Kárason
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2008
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Gunnþórunn Guðmundsdóttir

Í nýjustu skáldsögu sinni, Ofsa, snýr Einar Kárason sér aftur að Sturlungaöld sem einnig var viðfangsefni hans í hinni vel heppnuðu skáldsögu Óvinafagnaði frá 2001, og tekst ekki síður vel upp hér. Nú er það aðdragandi Flugumýrarbrennu sem er undir, sáttatilraunir og brúðkaupsplön, og ráðagerðir um vígaferli.

Vandinn sem höfundur stendur frammi fyrir, sem ætlar sér að koma í skáldsöguform atburðum og persónum úr fortíð, er áþekkur vanda leikstjórans sem kvikmyndar skáldsögu; þ.e. í báðum tilvikum þarf að laga frásögn að nýjum miðli. Einar notar aðferð sem hann hefur beitt áður og segir söguna frá sjónarhóli margra persóna sem skiptast á um frásögnina og gagnast það mjög vel hér. Við fáum sjónarhorn gerningsmanna, fórnarlamba, vitna og síðast en ekki síst útlensks biskups sem reynir eftir fremsta megni að skýra atburði fyrir Noregskonungi.

Það má segja að verkið sé einn langur aðdragandi sem er frásagnarmynstur sem byggir upp nokkuð stöðuga spennu í textanum. En höfundur verður líka að koma á framfæri alls konar upplýsingum til lesenda um þá flóknu atburðarás sem býr að baki. Aftur nýtast mismunandi raddirnar hér vel, því þar kemur tvennt til, annars vegar segir persónan undan og ofan af því sem gerst hefur og heldur þar að auki við framvindu frásagnarinnar í núinu. Framvindan einkennist af hraða og spennu og því finnst lesandanum ekki eins og sé verið að mata hann stöðugt á upplýsingum um bakgrunn átakanna.

Þetta eru blóðugir tímar, ofbeldisfullir, óvissir og svo langt liðið á deilur að erfitt er fyrir óbreytta að fylgjast með hverjir eru enn reiðir, hyggja á hefndir eða sættir eða neita að taka þátt í öllu saman. Flækjur þessara deilna og sérkennileiki kemur vel fram í bréfunum frá Heinreiki biskup, sem áður var minnst á, en hann skilur hvorki upp né niður í atburðarásinni – veit ekkert af hverju menn sættust og enn síður af hverju upp úr sauð á ný. Hann lýkur síðasta bréfi sínu á orðunum: „sú hugsun hvarflar að mér að það sé varla þess virði að vilja gerast herra þeirra sem hér búa; kannski fer best að þeir sjálfir eigi sitt auma land og samfélag. Og ég vona að þér virðið mér það til vorkunnar að hafa gefist upp við að ráða í þær dulrúnir sem stýra hugsunum og gerðum þessa fólks sem eyland þetta byggir“ (bls. 185). Og dragi nú hver sinn samanburð við haustið 2008…

Aðlaganir, svo við höldum áfram kvikmyndasamlíkingunni, eru auðvitað alltaf að einhverju leyti túlkun og sú túlkun atburða sem hér er snýr fyrst og fremst að sálarlífi persónanna, en því er einmitt komið til skila með fyrrnefndri frásagnaraðferð. Hér er skoðað hvað liggur að baki ofbeldinu, viljans til hefnda, og á stundum viljans til sátta – reiðin og sárindin vegna fyrri harma, en ekki síður sá tíðarandi þar sem ofbeldisfull viðbrögð eru á einhvern hátt eðlileg, einfaldlega normið. Ofsi er viðurnefni Eyjólfs Þorsteinssonar og einnig titill bókarinnar. Það vitnar um skaplyndi mannsins (sem virðist þjást af því sem nútildags er kallað geðhvarfasýki), það vitnar um það sem býr að baki ofbeldinu sem þarna ríkti, tímanum og kannski borgarastyrjöldum almennt, sem einkennast oft af meiri grimmd en nokkur önnur stríð. Þessi túlkun er sannfærandi og vel uppbyggð með því að láta raddirnar afhjúpa sitt sálarástand – án þess að þær verði nokkurn tíma of ’21. aldar-meðvitaðar’ um eigin líðan.

Höfundar sögulegra skáldsagna þurfa að taka afstöðu til beitingar tungumálsins og hér fetar Einar svipaða slóð og hann hefur gert áður, en þó jafnvel með enn betri árangri, þ.e. að nota nútímamál – án þess að það verði of yfirþyrmandi samtímalegt – kryddað orðum og orðfæri eldri tíma svo úr verður kraftmikið en aðgengilegt tungutak. Þetta er frásögn sem skelfir og skekur og einhver róttækasti umsnúningur á brúðkaupsminninu (svona happy ending sem er svo vel þekktur í ævintýrum, skáldsögum og bíómyndum), sem um getur.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, nóvember 2008