Beint í efni

Óreiða á striga

Óreiða á striga
Höfundur
Kristín Marja Baldursdóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2007
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Það er vel þekkt í bókmennta- og kvikmyndasögunni að samanburður framhaldssögu við fyrra verk er ósanngjarn. Tilhneygingin er sú að álíta framhaldið næstum sjálfkrafa síðra fyrra verkinu, einskonar afleiðingu eða jafnvel endurtekningu. Því miður vill svo óheppilega til að þetta heilkenni gagnrýnenda er oftar en ekki réttlætanlegt. En allar reglur (ef þetta getur yfirhöfuð kallast regla) eiga sér undantekningar og ný skáldsaga Kristínar Marju Baldursdóttur, Óreiða á striga, er einmitt gott dæmi um það. Sagan er sjálfstætt framhald bókarinnar Karítas án titils frá árinu 2004, sem naut mikilla vinsælda á sínum tíma, en er þeirri bók mun fremri og ætti þarmeð ekki síður að geta orðið vinsæl.

Kristín Marja er reyndar höfundur sem almennt séð hefur notið vinsælda meðal lesenda, en eins og allir vita eru lesendur fyrst og fremst konur og bækur Kristínar Marju fjalla mikið um konur og kvennaheima. Svo er um þessa bók, en þar er að finna áhugaverða og sterka umfjöllun um konu sem stendur á tímamótum í kvennabaráttu og kynhlutverki.

Í Karítas án titils var sagt frá uppvexti stúlkunnar Karítas sem siglir til Kaupmannahafnar að læra myndlist en verður svo ástfangin af manni, giftist og eignast börn. Maðurinn er sjómaður og sjaldan heima og Karítas upplifir mikla erfiðleika vegna togstreitunnar milli þess að vera móðir og þess að vera listakona.

Þessi togstreita og afleiðingar hennar er síðan áfram til umfjöllunar í Óreiðu á striga, en sagan spannar allan síðari hluta tuttugustu aldar. Hér er Karítas flutt suður, til að byrja með sest hún að á Eyrarbakka en svo flytur hún til Reykjavíkur með aðstoð bræðra sinna, en hún vann sjálf hörðum höndum til að koma þeim til mennta. Börnin eru uppkomin og samband hennar við þau er misgott, sömuleiðis er sambandið við hinn sísiglandi eiginmann nokkuð snúið. Karítas heldur sína fyrstu myndlistarsýningu í Reykjavík, kvalin af minnimáttarkennd en þyrstir jafnframt í viðurkenningu, eða í það minnsta umræður um myndlist sína, en hún er kona og þarmeð sniðgengin af menningarelítu borgarinnar. En þrátt fyrir hálfvolgar viðtökur gengur myndlistin vel hjá Karítas og hún ákveður að flytja til Parísar og stunda sína myndlist þar, í umhverfi við hæfi. Með henni fer sonardóttir hennar, sem sonur hennar einfaldlega skilur eftir hjá henni, en hann er sjómaður eins og faðirinn og telur sig ekki geta sinnt barninu. Þrátt fyrir þann hemil sem barnið óneitanlega er á hið ljúfa listamannalíf gengur Karítas vel í París, hún bæði sýnir og selur, en svo er barnið Silfá tekin frá henni aftur. Karítas flyst til New York, og nýtur áframhaldandi velgengni, en átökin við kvenhlutverkið, móður- og ömmuhlutverk sem virðist andstætt hlutverki listakonunnar, setur stöðugt mark sitt á líf hennar.

Hún umkringir sig konum en er sjálf umkringd karlmönnum, sem innan sögunnar fá ekki mikið rými að öðru leyti en að þjóna sem aðdáendur, stuðningsmenn eða vandamál í lífi Karítas. Konurnar, mágkonan Herma, systirin Bjarghildur, drykkfellda vinkonan Pía og síveika frænkan Karlína, að ónefndum barnabörnunum, Silfá og Rán, fá allar heilmikið rými og á stundum kostulegar senur. Með þessu nær höfundur líka að forðast of klisjaðar kvenmyndir, allar konurnar eru ólíkar og hver þarf að berjast fyrir stöðu sinni og sínum rétti, ólíkar kynslóðir takast á og ólík lífssýn og lífsstíll. Aðalátökin eru þó á milli systranna en þar teiknast upp kröftug mynd af andstæðum viðhorfum kvenna af sömu kynslóð sem takast á við breytt samfélag á ólíkan hátt og á ólíkum forsendum. Karítas er fulltrúi hinnar nýju konu, sem samt er að einhverju leyti föst í helsi hefðarinnar á meðan Bjarghildur er ímynd hinnar borgaralegu kvenfélagskonu sem upplifir nútímann sem ógn, en neyðist samt til að fylgja honum að einhverju leyti eftir. Og inní þetta alltsaman fléttast svo myndlist Karítasar og framgangur femínismans.

Þó sagan beri mörg einkenni hefðbundinna sögulegra skáldsagna og ‘kvennasagna’ þá tekst höfundi að taka viðfangsefnið skemmtilegum og sterkum tökum, dramatíkin sem í fyrri bókinni varð á stundum of klisjuð er mun agaðari hér og sömuleiðis fléttast umræðan um myndlist Karítasar mun betur inn í verkið en áður. Þetta á bæði við um lýsingarnar á myndunum og umfjöllunina um myndlistina sjálfa og mikilvægi hennar fyrir tilveru Karítasar. Sagan er bæði fyndin og dramatísk og á stundum bregður fyrir kostulegri íróníu sem skapar vel heppnaða margröddun innan textans.

Eins og áður sagði er Óreiða á striga heilmikil kvennabók sem því miður er ekki líkleg til að rata í jólapakka eða á náttborð margra karla. Þó að það þyki sjálfsagt að konur lesi um ævi og ástir og listir karlmanna þykir það næstum óviðeigandi að karlmenn séu að leggjast í kvennasögur eins og þessa sem lýsir ævi og ástum og listum kvenna. Það er miður, því þeir karlar sem forðast Óreiðu á striga af þeirri einföldu ástæðu að hún fjallar um konur missa af miklu.

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2007