Beint í efni

Ormstunga

Ormstunga
Höfundar
Kjartan Yngvi Björnsson,
 Snæbjörn Brynjarsson
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Það er nóg við að vera í þriðju bók þeirra Kjartans Yngva Björnssonar og Snæbjörns Brynjarssonar, Ormstungu, en yfirskrift seríunnar er Þriggja heima saga. Tilvísunin í þrjá heima virðist þó ekki þýða að þetta sé síðasta bindið í bókaflokknum, enda væri það alger synd.

Litli hópurinn sem í fyrstu bókinni varð viðskila við aðra þorpsbúa eftir árás óvætta hefur hér sundrast, en í fyrstu tveimur bókunum, Hrafnsauga og Draumsverði, leggja þau Ragnar, Sirja og Breki upp í mikla hættuferð til að reyna að vernda mannheima gegn ofríki skugganna – illra galdramanna. Það er rétt að segja ekki of mikið um söguþráð, en eftir dramatíska lokaatburði Draumsverðs vakna ungmennin í ólíkum heimshlutum, og eins og gerist og gengur með þá sem koma langt að er þeim ekki tekið vel og þau eiga erfitt með að átta sig á nýjum siðum í nýjum löndum. Milli þess að fylgjast með hremmingum þeirra hverfum við aftur til Janalands, þar sem þorpsbúar reyna að byggja upp tilveru sína á ný, en óvættirnar eyddu þorpinu og hröktu fólkið á flótta – þá sem lifðu af.

Það er því fjölþætt og flókin atburðarás sem lesandi þarf að fylgja og ég verð að játa að framanaf var ég næstum ofurliði borin, enda bæði gömul og gleymin og hafði ekki næstu bók á undan til upprifjunar (hint: kannski að hafa smá samantekt fremst – „Þegar hingað er komið sögu…“ ?). En, sem betur fer áttaði ég mig hægt og rólega og gat þá notið lestursins betur. Í raun má segja að mér hafi hefnst, því mér fannst Hrafnsauga líða svolítið fyrir dauflega framvindu, sérstaklega um og uppúr miðri bók. En það er svo sannarlega ekki uppi á teningnum hér. Aðrir gagnrýnendur (sjá til dæmis hér) hafa bent réttilega á að þeim Kjartani og Snæbirni hefur farið fram með hverri bókinni og því beini ég því til lesenda að gefast ekki upp á fyrstu bókinni – því það er svo margt gott í vændum.

Fyrir utan persónusköpun sem er í það heila vel gerð, þá er heimsmyndin alltaf að eflast, svo og tilvísanir til trúarbragða og átaka um galdra, sem eru lykilþema bókarinnar. Þar sækja höfundar sér efni víða að, sníða og móta og fella að sínum heimum. Hér og þar má sjá tilvísanir til norrænna trúarbragða og sagna, ekki bara ásatrúar heldur líka sagna frá öðrum hlutum norðursins, þó vissulega séu úlfar nokkuð áberandi hér. Reyndar fannst mér ég sjá meira af skemmtilegum tilvísunum til ýmissa ævintýraheima goðsagna og skáldskapar hér en í fyrri bókunum, sem er merki þess að höfundarnir séu orðnir öruggari með sig og þurfi ekki eins að ‚sanna‘ sig. Það er einmitt einkenni greinabókmennta að flétta inn samtali við þekkta og minna þekkta fyrirrennara, og fyrir þá lesendur sem hafa þá náðargáfu að kunna að meta góðar fantasíur eru slíkar tilvísanir órjúfanlegur hluti af lestrarferlinu og -ánægjunni.

Af þessum fyrirrennurum eru bækur Tolkiens, Hobbitinn og Hringadróttinssaga þekktastar, og nú síðast hefur sagnabálkurinn Krúnuleikar eftir George R.R. Martin náð miklum vinsældum, ekki síst í krafti sjónvarpsþátta sem byggðir eru á bókunum. Það er frá Tolkien sem heimsmynd velflestra fantasía, þar á meðal Krúnuleikanna, er fengin: fortíð sem minnir um margt á miðaldir. Að auki á sú fortíð sér enn fornari fortíð, sem lifir aðallega í sögnum og söngvum, en er að öðru leyti fallin í gleymsku; allavega ekki talin trúverðug. Í ljós kemur svo auðvitað að draugar fortíðar hverfa ekki þó þeir gleymist og út á það gengur svo allur hamagangurinn; sigrar fortíðar eru skammvinir og myrkraöflin sækja fram á ný.

Þetta er sú grunnsaga sem höfundar Þriggja heima sögu nýta sér, en það er vel við hæfi, því Tolkien á sínum tíma nýtti sér norrænar goðsagnir og íslenska þjóðtrú, og Martin sækir einnig nokkuð til norðursins.

Þeir félagar leggja einnig nokkra áherslu á að styrkja hlut kvenna, en fjölmargir hafa gagnrýnt skort á kvenpersónum í verkum Tolkien og kvikmyndunum þeirra. Martin þykir mun kvenvænni, en þó er ljóst að hans heimur er í grundvallaratriðum karllægur, og kynjuð mynd miðalda heldur sér að mestu leyti. Það sama má segja um Þriggja heima sögu. Ennfremur fannst mér ég finna fyrir návist þriðja höfundarins, sem hefur lagt mikið mörkum til að stokka upp kynhlutverk, en það er Ursula Le Guin, sem á sínum tíma lagði grunn að ungmennafantasíu með Earthsea bókum sínum. Það er þó ekki einungis málefni sem snerta kynhlutverk og hetjuímyndir (enda má segja að Tolkien hafi frá upphafi hafnað upphöfnum hetjuímyndum með því að setja litla menn með loðna fætur á oddinn), heldur ekki síður þær spurningar sem þeir Kjartan og Snæbjörn velta upp varðandi gott og illt. (Sjá um þetta einnig ritdóm Maríu Bjarkadóttur um Draumsverð) Í sögum Tolkiens eru mörkin á milli hins góða og illa almennt frekar skýr og svo er í mörgum hefðbundnum (karla) fantasíum. Martin brýtur þetta að nokkru leyti upp, en það er í fyrrnefndum bókum Ursulu Le Guin sem þessum markalínum er hvað mest hafnað. Þar er það einmitt galdurinn sjálfur, uppistöðuefnið í fantasíunni, sem er óstöðugt afl og tilheyrir bæði björtum heimi ævintýrisins og ógnandi afli myrkursins.

Þessi átakalína liggur í gegnum Ormstungu (og Draumsverð að nokkru leyti, þar sem einmitt sverðið er tvíbent afl) og gefur verkinu þann kraft sem þarf til að hefja það upp yfir meðallínuna. Þeir sem enn gætu ímyndað sér að fantasíubókmenntir bjóði upp á einfaldan flótta ættu að lesa þessi verk, því þar er sko lítið um örugg skjól – en þeimmunmeira af áhrifamiklum lýsingum og hugvekjandi vangaveltum.

úlfhildur dagsdóttir, september 2015