Beint í efni

Óvenjuleg vinátta

Óvenjuleg vinátta
Höfundur
Margrét Tryggvadóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
Kristín Lilja

Margrét Tryggvadóttir hefur komið víða við í íslensku menningar- og stjórnmálalífi. Hún hefur setið á þingi, rekið gallerí og starfað við bókaútgáfu og myndritstjórn ýmissa bóka. Auk þess hefur Margrét sjálf sent frá sér fjölda bóka, bæði fræðirit, þýðingar og eigin skáldverk.

Í upphafi aldarinnar var Margrét afkastamikill þýðandi og þýddi meðal annars fyrstu sex bækurnar í Taynikma-bókaflokknum eftir Jan Kjær og Merling P. Mann, fantasíu myndasögur sem notið hafa vinsælda. Strax með vali á þessum fyrstu þýðingum er augljóst að myndlýstar bækur skipta Margréti máli og undirstrikar hún það með sínum fyrstu bókum árið 2006. Það ár sendi Margrét frá sér tvær bækur, önnur þeirra er Skoðum myndlist – heimsókn í Listasafn Reykjavíkur í samstarfi við safnið og Önnu C. Leplar sem myndlýsti bókina sem er fræðirit fyrir börn. Skoðum myndlist setur tóninn fyrir seinni bækur Margrétar þar sem börn geta fræðst um myndlist og sögu lands og þjóðar á aðgengilegan og skemmtilegan máta. Þessar bækur eru Íslandsbók barnanna (2016) og Reykjavík barnanna (2021), sem Margrét vinnur með Lindu Ólafsdóttur myndhöfundi, og svo Kjarval: málarinn sem fór sínar eigin leiðir (2019).

Í fræðibókum sínum fyrir börn eru það myndlýsingar ekki síður en textinn sem fræða börnin. Í Skoðum myndlist velur Margrét listaverk úr safnkosti Listasafns Reykjavíkur og sögupersónurnar ferðast í gegnum safnið og velta þeim fyrir sér. Sögupersónurnar lifna við í teikningum Önnu sem eru svarthvítar en listaverkin eru í lit og stinga því í stúf þannig að athygli barnanna dregst að þeim. Bækurnar sem Margrét vinnur með Lindu eru fullar af litríkum myndum sem spanna heila opnu hver. Myndirnar eru fullar af smáatriðum og lítil augu geta staldrað lengi við hverja opnu og uppgötvað nýja og nýja hluti í myndheiminum í hvert sinn sem þau opna bækurnar. Í bókinni um Kjarval eru það að sjálfsögðu myndir Kjarvals sjálfs sem prýða bókina, ásamt ljósmyndum úr lífi hans, og þar skína hæfileikar Margrétar sem myndritstjóri í gegn.

Í nýjustu bókinni Leitinni að Lúru (2022) leiða Margrét og myndhöfundurinn Anna C. Leplar aftur saman hesta sína. Þær vísa skemmtilega til fyrra samstarfs síns Skoðum myndlist þar sem hundur var á meðal aðalsögupersónanna. Leitin að Lúru gerist á sveitabæ þar sem hundurinn Kaffon leitar logandi ljósum að vinkonu sinni henni Lúru. Lesendur vita ekki hvers konar dýr Lúra er. Kaffon fer um allt og spyr hin dýrin hvort þau hafi nokkuð séð hana Lúru og í hvert sinn lýsir hann Lúru á nýjan hátt og smátt og smátt bætast við vísbendingar um hver Lúra sé. Það er dásamlegt að fylgjast með ljósunum kvikna hjá börnunum á meðan sögunni vindur áfram og sjá hvaða lýsingar Kaffons kveikja á perunni hjá þeim.

Að lokum setur Kaffon allar vísbendingarnar saman og þá fer ekkert á milli mála hver Lúra er.

„Lúra er týnd,“ kallar Kaffon eins hátt og hann getur. „Vinkona mín með rófuna löngu, grænu augun, veiðihárin stinn, beittu klærnar, mjúku eyrun, bröndótta feldinn og tunguna hrjúfu. Hún Lúra sem bæði malar og mjálmar!“
„Já, þú ert að tala um köttinn! Afhverju sagðirðu það ekki strax?“ spyr Lotta.

Á endanum finnur finnur Kaffon Lúru og þau fara að leika sér. Sagan er skemmtileg og styður við örvun tungumálsins hjá litlum lesendum. Þau velta því fyrir sér hvernig lýsingar Kaffons á Lúru koma saman í eina heild og læra að skilja áferðir eins og stinnt, hrjúft, mjúkt og beitt. Heimilisköttur undirritaðrar hefur ekki fengið mikinn frið frá því að bókin var lesin því börnin vilja fá að vita hvernig veiðihár eru stinn og hvernig tunga getur verið hrjúf.

Myndir Önnu eru litríkar og skemmtilegar og leiða lesendur í gegnum sveitabæinn eftir því sem leit Kaffons miðar áfram. Dýrin eru lifandi og dýnamísk og ferðalag Kaffons verður spennandi og ljóslifandi fyrir augum lesenda. Mörg dýranna hafa ungviðið sitt með sér sem litlir lesendur geta speglað sig í. Þó sagan sé einföld er augljóst að börn tengja við hana og hún verður fljótt að sögu sem er lesin endurtekið. Leit Kaffons að þessum dularfulla leikfélaga er spennandi og það að Lúra reynist vera köttur leggur áherslu á að vinir þurfa ekki allir að vera eins. Það er gott að eiga leikfélaga sem eru frábrugðnir og jafnvel einhverjir sem samfélagið segir að eigi ekki að eiga samleið.

Skáldverk Margrétar Tryggvadóttur eiga það sameiginlegt að vekja lesendur til umhugsunar á fjölbreyttan máta. Myndlýstu barnabækur hennar og Halldórs Baldurssonar sýna hvernig er hægt að dýpka klassísk frásagnarminni með því að staðsetja þau í þversagnakenndum myndheimi. Í Leitinni að Lúru brýst heili lítilla lesenda um þegar þeir velta því fyrir sér hvernig dýri er verið að lýsa þegar aðeins brotabrot af lýsingunni fæst á hverri síðu. 


Kristín Lilja, nóvember 2022

 

Athugið að þessi umfjöllun er hluti af yfirlitsgrein um verk Margrétar Tryggvadóttur sem finna má hér á Bókmenntavefnum.