Beint í efni

Pabbi prófessor

Pabbi prófessor
Höfundur
Gunnar Helgason
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2016
Flokkur
Unglingabækur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Í fyrra kom út eftir Gunnar Helgason bókin Mamma klikk! sem fjallar um hina 12 ára gömlu Stellu og fjölskyldu hennar. Aðaláherslan í sögunni er á samband Stellu og mömmu hennar, sem Stellu finnst vera í meira lagi klikkuð. Sagan fylgir þeim mæðgum og fjölskyldunni allri í gegnum alls kyns uppátæki, sem eru bæði hversdagsleg og svolítið flippuð, en unglingurinn Stella vill fyrir alla muni að mamma hennar gæti verið svolítið venjulegri og fjölskyldulífið hefðbundnara. Í lok sögunnar fær lesandinn að vita að Stella sé í hjólastól en sú staðreynd er aðeins gefin í skyn fram að því og kemur því eflaust mörgum lesendum á óvart. Með þessu móti er undirstrikað að líf Stellu sé ekkert flóknara eða erfiðara en annarra unglinga, á sama tíma og lesandinn er vakinn til umhugsunar um það hvernig fyrirfram mótaðar hugmyndir hafa áhrif á framkomu okkar gagnvart öðrum, upplifun á umhverfinu og skilning.

(Lesið umfjöllun Maríu um Mömmu klikk! hér á vefnum.)

Pabbi prófessor er sjálfstætt framhald á Mamma klikk! og nú er mamman í algeru aukahlutverki. Mamma Stellu fær nefnilega óvænt boð um vinnu erlendis í desember og fram á næsta ár og ákveður að setja sjálfa sig í forgang eftir að hafa látið fjölskylduna ganga fyrir í mörg, mörg ár. Í fjarveru hennar ætlar pabbi Stellu, sem er kennari við Háskólann, að taka að sér allan jólaundirbúning samhliða því að kenna, fara yfir próf og sjá um fjölskylduna. Stellu grunar að þrátt fyrir fögur fyrirheit muni pabbi hennar samt algerlega klikka á jólunum enda hefur hann fram að þessu ekki verið þekktur fyrir að hafa mikinn tíma í desember né sérstaka hæfileika við jólabakstur og þess háttar. En pabbi Stellu er bjartsýnn. Hann ætlar að taka þetta allt saman með trompi og ákveður, Stellu til hryllingar, að breyta öllum jólahefðum fjölskyldunnar og hafa „pabbajól“ með alls konar nýjungum. Áhyggjur Stellu af vanhæfi pabba hennar til að halda utan um jólaundirbúninginn virðast, þegar líður á desember, vera á rökum reistar. Dagarnir líða allt of hratt og jólin nálgast óðfluga en ekkert gerist heimafyrir. Stella og Siggi litli bróðir hennar verða að ganga í verkið og undirbúa jólin ef mamma á ekki að fá áfall þegar hún kemur heim í jólafrí og það á eftir að gera allt.

En þrátt fyrir jólastress heimafyrir hefur Stella sjálf um nóg annað að hugsa. Hún er komin í unglingadeild í skólanum og þar er margt nýtt og spennandi, nýir krakkar og fullt að gerast í félagslífinu. Vinkonur hennar eru farnar að spá í strákum en Stella er ekki alveg á sömu bylgjulengd og þær hvað það varðar, alla vega ekki til að byrja með. Henni finnst enginn nógu spennandi og allt í einu fyllist hún óöryggi yfir því að vera í hjólastól. Hún er alveg sannfærð um að það muni fæla stráka frá, þrátt fyrir að vinur hennar Blær, sem er líka í hjólastól, virðist njóta töluverðra vinsælda hjá stelpunum.  

Eins og Mamma klikk! er Pabbi prófessor sögð frá sjónarhorni Stellu. Persónusköpun er skýr og þó að Stella sé í aðalhlutverki fá aðrar persónur, líf þeirra og aðstæður líka rými, og eru bræður Stellu þar sérstaklega í fyrirrúmi. Sambönd og samskipti innan fjölskyldunnar allrar eru mjög sannfærandi og aðstæður og atvik sem koma upp kunnugleg á margan hátt. Stella sem persóna er afskaplega vel mótuð, hún er mótsagnakennd eins og fólk er flest og tilfinningar hennar sveiflast frá gleði til uppgjafar eftir því hvernig aðstæður eru hverju sinni, svo sem hvernig pabba hennar gengur að undirbúa jólin eða hvernig ástarmálin ganga til dæmis.

Stella þarf að endurskoða sjálfsmynd sína og takast á við bæði sjálfa sig og nýja kunningja í unglingadeildinni áður en hún kemst að niðurstöðu um það hver hún er og hver hún vill vera. Fram að þessu hefur hún verið nokkuð örugg með sig enda ekki verið mjög ólík vinkonum sínum í raun og fallið ágætlega í hópinn. Í Pabbi prófessor kynnist hún hins vegar annarri hlið á sjálfri sér, þeirri sem vill ekkert endilega vera eins og hinir. Palli, stóri bróðir Stellu, er kominn með kærustu sem er eins og Stella segir „artí týpa“, með blátt hár og í litríkum fötum og Stellu finnst hún í fyrstu stórfurðuleg. Þrátt fyrir það, og kannski einmitt þess vegna, hefur nýja kærastan töluverð áhrif á Stellu sem áttar sig smám saman á því að þær eiga meira sameiginlegt en hún hélt í fyrstu.

Pabbi prófessor er þroskasaga Stellu sem er eiginlega ekki barn lengur, heldur unglingur sem vill eiga kærasta og vill vera öðruvísi, en samt falla inn í hópinn. En sagan er líka fjölskyldusaga þar sem sambönd og samskipti hafa áhrif á fólk og það skiptir máli hvernig er komið fram við aðra. Tónninn er léttur og textinn fullur af húmor og lífsgleði; skemmtilegur lestur sem vekur til umhugsunar um líf annarra með því að draga fram það sem er kunnuglegt og sýna það í nýju ljósi.

María Bjarkadóttir, desember 2016