Beint í efni

Prinsessan á Bessastöðum

Prinsessan á Bessastöðum
Höfundur
Gerður Kristný
Útgefandi
Dimma
Staður
Reykjavík
Ár
2010
Flokkur
Hljóðbækur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Hið merka ár 2007 sendi hinn fjölhæfi rithöfundur Gerður Kristný frá sér skáldsögu fyrir börn sem nefnist Ballið á Bessastöðum. Sagan iðar af lífi og varð fyrir vikið afar vinsæl og nú geta glaðir lesendur snúið aftur til Bessastaða með forsetanum sínum í sjálfstæðri framhaldsbók sem nefnist Prinsessan á Bessastöðum. Bókin inniheldur að auki myndir Halldórs Baldurssonar sem eiga ríkan þátt í að skapa sögunni það andrúmsloft léttleika og dálítið tvístraðrar gleði sem gerir hana svo eftirminnilega skemmtilega. Að þessu sinni snýst líf forsetans ekki um að svara bréfum og láta sig dreyma um að keyra gröfu heldur er hann í gestgjafahlutverki. Til hans er komin ofurlítil konungsfjölskylda, kóngur og drottning og lítil prinsessa, barnabarn þeirra. Og prinsessunni leiðist.

Hún ákveður þó að verða eftir hjá forsetanum á meðan kóngurinn og drottningin æða útí íslenska náttúru í leit að fossum, en forsetinn er ekki alveg viss um hvernig hann eigi að hafa ofanaf fyrir henni. En þegar ráðskonan Halldóra, sem er á leið í brúðkaup systur sinnar, missir brúðartertuna sem hún hafði bakað ofanaf þaki bílsins bregðast þau skjótt við og leggja af stað fótgangandi á eftir henni í brúðkaupið, því það getur ekki orðið neitt brúðkaup án tertu.

Það gengur á ýmsu þar sem prinsessur eiga erfitt með að sofa á ósléttu og í tjaldbotninum eru lambaspörð, að auki brestur á þoka og forsetinn er ekki sérlega ratvís. Bæði gleyma þau nesti og því gengur nokkuð á brúðartertuna, litlu plastbrúðhjónunum á toppinum til heilmikils angurs. Að lokum ná þau þó í brúðkaupið og svo aftur heim á Bessastaði, rétt í tíma til að veita fálkaorður á þjóðhátíðardaginn. Prinsessan hefur fengið að sjá dýr, sem hana langaði mest til, bæði kýr og landnámshænu, en hænan fer með heim á Bessastaði og kynnist þar einu húsdýrunum sem fyrir eru, nokkrum lóum og hrossagauk.

Eins og í fyrri bókinni um forsetaembættið birtist hér ný og áhugaverð sýn á forseta landsins. Í raun má segja að þetta litla sakleysislega rit verði skyndilega hápólitískt í samhengi við þá umræðu sem undanfarið hefur farið fram um athafnir forseta landsins. Hvert er í raun hlutverk forseta Íslands? Hvaða stöðu hefur hann í hugum landsmanna, yngri sem eldri? Hvernig forseta viljum við hafa? Allt eru þetta spurningar sem hafa verið mikið í umræðunni undanfarin ár og þrátt fyrir að Prinsessan á Bessastöðum sé afar langt því frá að innihalda pólitíska ádeilu eða boðskap er bókin kjörin til að velta fyrir sér nokkrum grunngildum samfélagsins; vináttu, gestrisni og samviskusemi. Hér birtist okkur forseti sem er ákaflega annt um sína minnstu og yngstu þegna og hikar ekki við að taka þátt í hversdagslegum athöfnum, eins og að hjálpa Grími bónda við að sleppa kúnum. Sömuleiðis tekur hann því fagnandi að fá landnámshænuna með heim og sæmir fálkaorðuna ýmsa þá sem væntanlega myndu þykja lítt líklegir til mikilla afreka. Þetta er svo sannarlega forseti sem íslenska þjóðin getur verið stolt af - auk þess að skemmta sér konunglega (eða forsetalega) yfir sögum Gerðar Kristnýar um hann.

Það eina sem ég hafði svolitlar áhyggjur af var allt sætindaátið, en svo virðist sem helsta næring forsetans og vina hans sé brúðarterta og pönnukökur!

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2009