Beint í efni

Radíó Selfoss

Radíó Selfoss
Höfundur
Sölvi Björn Sigurðsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2003
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Jón Yngvi Jóhannsson

Radíó Selfoss eftir Sölva Björn Sigurðsson er eiginlega byrjendaverk eins og byrjendaverk eiga að vera. Með því er ekki gefið í skyn að bókin sé fullkomin - langt því frá. Hún hefur stóra galla, en hún hefur líka mikla kosti og hún lýsir af bæði hæfileikum og metnaði til þess að takast á við tungumálið og það vandasama verk að skrifa skáldsögur. Radíó Selfoss segir sögu tveggja drengja sem alast upp á Selfossi á níunda áratugnum og fram á þann tíunda. Sögumaðurinn, Siggi, flytur með fjölskyldu sinni frá Kaupmannahöfn til Selfoss í upphafi sögu. Um sama leyti flytur jafnaldri hans, Einar Andrés heim frá Svíþjóð ásamt fjölskyldu sinni í húsið hinum megin við götuna. Pabbi Sigga veit vitaskuld ekkert fyrirlitlegra en Svía eftir áralanga dvöl í Danmörku og upphefst nú nokkuð magnaður nágrannaslagur sem umbreytir götunni milli húsanna umsvifalaust í Eyrarsund. Þrátt fyrir þetta og nokkurn tungumálamúr tekst góð vinátta með strákunum og sagan lýsir uppvexti þeirra og einkennilegum uppátækjum ásamt stormasömu fjölskyldulífi Sigga.

Strákasögur eru auðvitað til í hundraðatali, ekki síst í íslenskum og norrænum bókmenntum og Radíó Selfoss stendur í nánu sambandi við eina þeirra, Rokkað í Vittula eftir Mikael Niemi sem kom út á íslensku í fyrra. Þetta er þó enginn sérstakur galli á sögunni, hún stendur alveg sjálfstæð, og það má jafnvel segja að Sölvi sýni heilmikla hugkvæmni í því að flytja tungumálavandamálin úr sögu Niemis inn í einsleitt íslenskt samfélag. Radíó Selfoss er líka miklu breiðari saga en Rokkað í Vittula. Bernskuheimur strákanna fær alls ekki að standa utan við heim hinna fullorðnu sem sjálfstæður ævintýraheimur líkt og oft vill verða í bókum af svipuðu tagi. Drykkjuskapur, þunglyndi og hjónabandserfiðleikar hinna fullorðnu ógna stöðugt heimi þeirra og mörg sérkennilegustu uppátæki þeirra reynast á endanum vera aðferð til að lifa af í heimi sem er geggjaður og lætur eins og þeir séu ekki til.

En þá að göllunum: Sölva tekst ekki alveg að halda öllu til skila í jafn mikilli sögu og hann ætlar að segja. Sumar persónanna eru alltof laust dregnar, þetta er sérlega bagalegt með móður Sigga sem verður óskiljanleg í seinni hluta sögunnar. Þetta ásamt fleiri aukapersónum sem eru misvel dregnar verður til þess að sögunni fatast aðeins flugið í seinni hlutanum, þegar prakkarasagan víkur fyrir fjölskyldudramanu. Stíll sögunnar og tungumál hennar er sérkennilegt í meira lagi og þetta er líka bæði kostur og galli. Sölvi hefur greinilega metnað til að skrifa auðugan stíl og það tekst honum oft, en ekki alltaf. Þó verður að slá þann varnagla að sagan er sögð af sögumanni sem greinilega hefur metnað til að verða rithöfundur og tungumálið er í senn leikfang strákanna og haldreipi. Leikir þeirra með tungumálið og með þekkingu af furðulegasta tagi taka oft á sig sérkennilegar myndir eins og þegar Einar Andrés tekur upp á því að laga talmál sitt að orðum sem hann hefur lært af verkum Halldórs Laxness. Þessir leikir smita inn í stíl sögumannsins og stundum virkar það en of oft á kostnað skilnings lesandans.

En nóg um það. Það er ástæða til að fagna þessari bók og höfundinum. Hún er í senn strákabók (sem engin ástæða er til að forsmá), fjölskyldusaga og saga um tilurð skálds. Allt eru þetta gömul stef, en tilbrigðin og það hvernig þeim er blandað saman eru frumleg. Radíó Selfoss er líka þéttari en margar íslenskar skáldsögur. Sölva tekst að vekja upp spurningar um tungumálið og tengsl þess við veruleika og sjálfsmynd innan annars hefðbundinnar frásagnar og hann kann svo sannarlega að enda sögu. Í lokin kemur í ljós að sagan, bæði atburðarás hennar og táknheimur, er betur fléttuð en lesandinn hefði getað ímyndað sér.

Jón Yngvi Jóhannsson, desember 2003