Beint í efni

Rangstæður í Reykjavík

Rangstæður í Reykjavík
Höfundur
Gunnar Helgason
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2013
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Rangstæður í Reykjavík er þriðja bókin eftir Gunnar Helgason um þróttarann Jón Jónsson og vini hans, fótboltann og lífið. Bókin er sjálfstætt framhald af Víti í Vestmannaeyjum (2011) og Aukaspyrnu á Akureyri (2012) sem hafa báðar notið mikilla vinsælda meðal lesenda. Aukaspyrna á Akureyri hlaut nýverið Bókaverðlaun barnanna þar sem lesendur á aldrinum 6-12 ára velja bestu barnabók síðasta árs.

Jón, eða Nonni eins og hann er oftast kallaður, er orðinn tólf ára og er kominn í fjórða flokk hjá Þrótti. Hann er aðeins yngri en flestir liðsfélagar hans og finnur að hann þarf að leggja sig allan fram. Liðið er að fara að keppa á ReyCup og í sama riðli er ekki bara ÍA þar sem Ívar vinur þeirra spilar heldur líka enska liðið Tottenham Hotspurs sem Nonni og vinir hans bera mikla virðingu fyrir. En það er meira framundan en fótboltinn og ýmislegt að gerast. Nonna er farið að dreyma illa aftur, furðulega og stundum óhugnanlega drauma sem virðast gefa vísbendingar um það sem á eftir að gerast. Draumarnir fjalla oft um Ívar sem Nonni er bæði spenntur og stressaður að hitta aftur eftir árs aðskilnað. Hann veit ekki alveg hvort þeir séu ennþá vinir og hvort hann eigi að vera fúll við Ívar eftir að hann ákvað að flytja til fósturfjölskyldu á Akranesi frekar en til fjölskyldu Nonna. En það er samt ekki bara Ívar sem kemur á mótið heldur líka Rósa, sæta stelpan úr Fylki sem Nonni hitti á Akureyri í fyrra og varð skotinn í. Framundan eru bæði spennandi og skemmtilegir tímar, hörku fótbolti, spennandi leikir og skemmtanir í tengslum við mótið þess á milli. En þegar Nonni hittir Ívar aftur sér hann strax að eitthvað er ekki eins og það á að vera. Nýi fósturbróðir hans, Alex, er eitthvað undarlegur og Nonni og vinir hans úr Þrótti hafa áhyggjur. Þeir verða að gera það sem þeir geta til að sjá til þess að Ívari líði vel því hann hefur oft átt erfitt og þeir vilja standa með honum. Á sama tíma blómstrar ástin og Nonni gerir sitt besta til að vera eðlilegur en samt æðislegur og gera allt rétt þegar kemur að Rósu, en það er meira en að segja það.

Sagan er sögð í fyrstu persónu og það er Nonni sjálfur sem er sögumaðurinn. Hann lýsir því sem gerist, fótboltaleikjunum, skemmtununum og samskiptunum við vinina, liðsfélagana, stelpurnar og alla hina. Hann er lifandi og skemmtilegur sögumaður og beinir orðum sínum oftar en einu sinni beint til lesandans og dregur hann þannig inn í atburðina. Hann gefur líka reglulega vísbendingar um það sem á eftir að gerast og þær auka spennuna við lesturinn því lesandinn veit ekki hvort það sem hann segir boðar gott eða slæmt. Fótboltaleikjunum sem liðið spilar er lýst af mikilli innlifun með orðum Nonna og lesandinn fær innsýn í hugsanir íþróttamannsins á meðan á leiknum stendur. Aftast í bókinni er svo viðauki fyrir þá sem vilja kynna sér málin betur með nánari skýringum á hugtökum og leikjunum auk lýsinga á leikmönnum Þróttar.

Nonni finnur að það er margt sem er að breytast hjá honum og vinum hans, þeir eru ekki alveg krakkar lengur heldur standa á einhverjum tímamótum sem er erfitt að ná almennilega utan um. Hann pælir mjög mikið í samskiptum og hvernig þau hafa breyst, hvernig maður talar við mömmu sína, vini sína og stelpur. Hann áttar sig á mikilvægi vináttu og þess að standa saman, sem er einmitt það sem þeir félagarnir gera til að hjálpa Ívari. Þessum pælingum er lýst á mjög sannfærandi hátt og af miklum skilningi en vert er að taka fram að sagan er allt annað en væmin. Húmorinn leikur einnig mikilvægt hlutverk og er bæði þess eðlis að lesandinn skellir upp úr og glottir reglulega út í annað. Eins og titillinn gefur til kynna fjallar Rangstæður í Reykjavík alveg heilan helling um fótbolta en hún fjallar samt líka um margt fleira og er hiklaust hægt að mæla með henni við alla lesendur átta ára og upp úr, líka þá sem hafa engan áhuga á fótbolta.

María Bjarkadóttir, desember 2013