Beint í efni

Rigning í nóvember

Rigning í nóvember
Höfundur
Auður Ava Ólafsdóttir
Útgefandi
Salka
Staður
Reykjavík
Ár
2004
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Kristín Viðarsdóttir

Auður Ólafsdóttir sendir nú frá sér aðra skáldsögu sína og hlaut fyrir hana Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar. Sú fyrri, Upphækkuð jörð, kom út 1998 og hefur ekki farið hátt síðan og kemur Auður því eiginlega aftur inn núna sem nýr, og að mínu mati, ákaflega athyglisverður höfundur í íslenska bókmenntaflóru. Rigning í nóvember er að hluta til vegasaga, hér segir af konu sem fer í ferðalag austur á land í nóvember, eftir að maðurinn hennar yfirgefur hana vegna annarrar konu. Hún er ekki ein á ferð, ferðafélaginn er fimm ára heyrnarlaus sonur vinkonu hennar, en tilgangur ferðarinnar – fyrir utan þá klassísku í svona sögu að finna sjálfa sig og ná áttum eftir rofið sem skilnaðurinn veldur – er að finna stað fyrir sumarbústað sem konan hefur unnið í happdrætti félags heyrnarlausra. Staðinn hyggst hún velja á ömmuslóðum þar sem hún dvaldi sem barn og ferðin er þannig líka ferð til fortíðar með tilheyrandi uppgjöri við liðna atburði sem smám saman taka meira rými í textanum. Fyrri hluti sögunnar gerist hins vegar í Reykjavík og lýsir aðdraganda ferðarinnar, skilnaðinum sjálfum og sambandinu við eiginmannin og einnig elskhuga konunnar; hún hefur nefnilega líka haldið framhjá sínum manni.

Það er ekki efnið sjálft sem gerir söguna nýstárlega, heldur fyrst og fremst það vald sem Auður hefur á tungumálinu, og sú sérstaka sýn sem söguhetjan hefur á umhverfi sitt, bæði innra og ytra. Sagan er sögð í fyrstu persónu og þannig ræður sjónarhorn söguhetjunnar ríkjum, og það er bæði ferskt og fullt af húmor, stundum kaldhæðnum og stundum fínlegum, en einnig íhugult og leitandi. Sagan er nokkuð táknsæ, sumt er þar skýrt og ekki nýstárlegt í sjálfu sér, eins og hreinsandi rigningin sem minnir að endingu á syndaflóð, en annað er skrýtnara og um leið mun skemmtilegra. Það er þetta óvænta sjónarhorn sem gefur sögunnni lit og kraft og gerir hana að ákaflega skemmtilegri lesningu. Auður hefur næmt auga fyrir hinu sérstaka, en kann einnig að bregða undarlegu ljósi á hið ofurhversdagslega og verður bæði fólkið sem á vegi sögukonunnar verður og einfaldir hlutir, líkt og málsverður í gistiheimili eða heimsókn á bóndabæ, allt að því fáránlegir án þess að beinlínis sé verið að skopast að fólki og fyribærum. Textinn er hlaðinn, bæði í táknlegum skilningi, og eins hvað varðar hugsanaflæði söguhetjunnar, en þó sjaldan ofhlaðinn. Á stöku stað fannst mér þó að sparlegar mætti fara með orðin, söguhetjan missir sig stundum í full flúraðar lýsingar eins og þegar framrúðan í bílnum springur þegar hún keyrir á kind: "Framrúðan springur, eins og fínofinn, heklaður blúndudúkur, eins og kóngulóarvefur, eins og þráður spunninn af konu." (129) Hér kallar að vísu ein mynd á aðra og er lokamyndin í senn óvænt og eðlilegt framhald hinna tveggja, en þetta samspil hins auðsæja og nýstárlega er eins og áður segir eitt einkenni sögunnar. Um leið birtir þessi tilvitnun annað einkenni á sögunni - vísanir í hið smáa og áhuga sögukonunnar á orðum og myndum, tengingum og samræmi eða samhengi, en hún er prófarkalesari og þýðandi og hefur vald á ótal tungumálum. Hún þarf þó að læra a.m.k. eitt nýtt á ferðalaginu til að geta náð sambandi við heyrnarlaust barnið og þannig bætist ný vídd við táknheim hennar, bæði í eiginlegum og symbólskum skilningi.

Maður þarf ekki að lesa lengi til að komast að því að söguhetjan hefur allt að því þráhyggjukenndan áhuga á börnum, eða er öllu heldur óeðlilega upptekin af þeirri náð að sjálf á hún ekki barn og hefur enga þekkingu á umönnun barna, heimi þeirra eða þörfum. Ástæðan fyrir þessari þráhyggju kemur líka snemma fram í sögunni, hún hefur gefið frá sér barn sem unglingur sem hún veit ekki hvað verður um. Ég er ekki að skemma fyrir væntanlegum lesendum með því að uppljóstra því hér, því þótt þessi barnsmissir, óléttan og hvernig hún kom til sé hvergi rædd á skýran hátt í textanum (Auður er mjög leikin í þeirri list að segja ekki of mikið og lesandinn fær þannig mikið rými), liggur hann honum má segja til grundvallar. Þvert gegn vilja sínum, situr konan síðan uppi með heyrnalausa barnið vinkonunnar, og samband þeirra verður það sem sagan fer í auknum mæli að snúast um.

En hér er ekki rúm til að fara nánar út í efni eða heim textans, þótt það væri vissulega gaman. Rigning í nóvember er bók sem mann langar til að taka upp aftur að lestri loknum, þar er margt sem gaman er að íhuga, skemmta sér yfir og þræða í þeim textavef sem hér er spunninn - af konu.

Kristín Viðarsdóttir, desember 2004