Beint í efni

Sæmd

Sæmd
Höfundur
Guðmundur Andri Thorsson
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2013
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Vera Knútsdóttir

Sæmd er sjöunda skáldsaga Guðmundar Andra Thorssonar. Fyrri sögur höfundar, eins og Valeyrarvalsinn frá árinu 2011, og Segðu mömmu að mér líði vel frá 2008, vöktu athygli lesanda og gagnrýnenda fyrir vandaðan og myndrænan stíl og frásagnir sem fólu í sér næma sýn á mannlegt líf. Ásamt skáldskaparskrifum hefur Guðmundur Andri sinnt ritstjórnarstörfum hjá Tímariti Máls og menningar og er ýmsum kunnur fyrir vikulega pistla sína um málefni líðandi stundar í Fréttablaðinu. Pistlarnir, sem eru bæði vandaðir og kjarnyrtir, hafa orðið að föstum lið í tilveru Fréttablaðslesenda, meðal annars undirritaðrar, því eins leiðinleg og lágkúruleg samfélagsleg umræða getur orðið, er Guðmundur Andri einn af þeim sem ávallt tekst að hefja hana upp á æðra og merkilegra plan. En nóg um samtímann og hans leiðindi og að sögulegri fjarlægð íslenskrar rómantíkur.

Sæmd er söguleg skáldsaga og fjallar einkum um skáldið og rómantíkerinn Benedikt Gröndal. Hér setur höfundur sig í spor persóna á ofanverðri 19. öld, nánar tiltekið  í Reykjavík en þó einnig Kaupmannahöfn.

Árið er 1882 og ungur nemandi í Lærða skólanum hefur verið sakaður um að stela námsbók samnemanda síns. Hinn nýskipaði rektor skólans, Björn M. Ólsen, telur nemandann sýna með þessari hegðun illt innræti, vill tafarlaust reka hann úr skólanum og sýna þar með ákveðið fordæmi fyrir aðra nemendur skólans. Með þessu telur hann sig stuðla að aga og virðingu gagnvart reglum skólans. Skáldið Gröndal, sem á þessum tíma kennir við skólann, er ekki á sama máli og tekur upp hanskann fyrir nemandann unga. Saman elda þeir Björn og Benedikt grátt silfur og endurspegla andstæða hugmyndafræði sem í sögulegu tilliti er einkennandi fyrir þennan tíma, og lagði grunninn að sjálfstæðisbaráttu Íslendinga síðar. Báðir hafa miklar hugmyndir um íslenska þjóð og framtíð hennar en á ólíkum forsendum. Öfgafull þjóðernishyggja Ólsens minnir á „nationalisma“ á meðan rómantík Gröndals er grundvöllur húmanisma, mannúðar, og tengist almennri forvitni og lotningu gagnvart umhverfinu, bæði lífi mannsins og náttúru. Að baki endurspegla átök þeirra ólikar hugmyndir manna um sæmd og heiður.

Eins og glögglega hefur komið fram í umfjöllun annarra um skáldsöguna er Sæmd afar vandað verk og vel skrifað, snyrtilegt og smekklegt; stíllinn þíður og byggingin vel hugsuð. Bygging verksins er þríþætt. Við fáum kafla þar sem sögumaðurinn er ungi nemandinn sem olli fjarðarfokinu og segir frá atburðunum í fyrstu persónu og í endurliti; lesendur horfa með honum á atburði fortíðarinnar og fá vangaveltur hans um þá, orsök og afleiðingar, mörgum árum seinna. Þá fylgir sögumaður Birni M. Ólsen eftir og skoðar hann utan frá en þeir kaflar eru rammaðir inn af setningum á borð við: „Svona sé ég hann fyrir mér....“. Það sama á við um kaflana sem fylgja aðalpersónunni, Benedikt Gröndal; þar er settur upp ákveðinn rammi til að gera grein fyrir þeirri fjarlægð sem liggur á milli sögutímans og tíma skrifanna, þ.e. okkar samtíma. Þessi stílbrigði birta „meta-vitund“ í textanum og sýna varfærni gagnvart söguefninu; nokkuð sem mætti bera meira á í sögulegum skáldsögum almennt, en hlutverk þeirra er umfram allt að takast á við, greina og nýta sér þau skil sem eru á milli skáldskapar og sagnfræði.

Tilgangur skrifanna virðist fyrst og fremst vera að bregða upp aldafarslýsingu en á stundum er eins og ekki sé alveg ljóst hvað höfundur vill segja með þessari vönduðu og vel skrifuðu aldafarslýsingu. Í viðtali minntist höfundur á síð-nýlenduna Ísland, gott ef ekki að fyrirsögnin hljómaði eitthvað á þá leið að Ísland væri síð-nýlenda, og að verk hans endurspeglaði íslenskt samfélag á nýlendutímum. Enn fremur lagði hann áherslu á að við Íslendingar þyrftum að minna okkur á að ekki væri langt liðið frá þessum tíma. Þessi atriði vöktu áhuga minn og eftirtekt, og þessar hugmyndir höfundar fylgdu mér inn í lestur bókarinnar. Þó fannst mér bera lítið á þessum atriðum í textanum og ég saknaði þess að sjónum væri afdráttarlausar beint að þeim áhersluatriðum, ef höfundur lagði raunverulega upp með þau í upphafi. Ég saknaði vangaveltna og hugmynda um nýlenduna, nýlendubúana og samband þeirra við nýlenduherrana í retrospekt. Og væri höfundi hugleikið að fjalla um Ísland sem síðnýlendu, sem er ákaflega áhugavert og fjölþætt viðfangsefni, hefði hann endilega mátt koma orðum að því –  og jafnvel tengja hinn sögulega tíma við samtímann með einhverjum hætti, t.d. með því að nýta áherslur sínar úr pistlaskrifum í Fréttablaðinu. Augljósari nálgun við nýlenduhugmyndir hefði gefið verkinu meiri dýpt og gert það bitastæðara; með brýnu viðfangsefni ásamt hinum þíða prósa og vönduðu byggingu hefði höfundur framreitt ansi skothelda sögulega skáldsögu.

Sæmd minnti mig aftur á móti á það sem stundum er kallað „fan-fiction“ eða sögu eftir aðdáanda. Hér er aftur á móti ekki um að ræða höfund sem er svo gagntekinn af ákveðnum söguflokki vampírubókmennta að hann verður að taka upp þráðinn og halda áfram, heldur höfund sem er aðdáandi sögulegu persónunnar Benedikts Gröndal, verka hans og ekki síst þeirrar rómantísku hugsunar sem tengd er við hann og hans hugmyndir. Sæmd er skrifuð til að beina athyglinni að skáldinu og rómantíkeranum Benedikt Gröndal sem átti undir högg að sækja og lenti upp á kant við samtímamenn sína, sem kristallast einmitt í aðalviðfangsefni sögunnar – deilum hans við skólayfirvöld Lærða skólans sem enda með brottrekstri hans frá skólanum. Og á þeim forsendum er Sæmd kærkomin minning um merkan mann og gott skáld hvers verk, ljóð, hugmyndafræði og gildi hafa ef till vill fallið dálítið í gleymsku í íslenskum nútíma.

Vera Knútsdóttir, desember 2013