Beint í efni

Sakleysingjarnir

Sakleysingjarnir
Höfundur
Ólafur Jóhann Ólafsson
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
2004
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Gunnþórunn Guðmundsdóttir

Hver dramatíski viðburðurinn rekur annan í nýjustu skáldsögu Ólafs Jóhanns Ólafssonar og allir fléttast þeir saman í aðalsöguhetjunni og sögumanninum, Degi Alfreð Huntingfield. Það hvílir því mikið á honum, bæði tæknilega í frásögninni og við það að skapa áhuga og samlíðan hjá lesandanum. Ýmsir tæknilegir örðugleikar fylgja því að nota fyrstu persónu sögumann, ekki síst þegar sá hinn sami er ungur að árum, eins og í upphafi Sakleysingjanna; þá þarf gjarnan að skýra það út hvers vegna barnið býr yfir alls kyns upplýsingum. Oft er slíkur vandi leystur með því að láta barnið liggja á hleri út um allar trissur, sem verður mistrúverðugt eins og reyndin er hér. Við fylgjumst með sögumanni allt frá frumbernsku og þegar svo er hljótum við að ætlast til að vitund sögumanns taki einhverjum breytingum, að við fáum að fylgja einhverjum þroska. Í seinni hlutanum hefur orðið breyting á söguvitundinni og því er sögumaður ágætlega trúverðugur þegar hann eldist, en lesandi fær ekki á tilfinninguna að horft sé í gegnum barnsaugu í fyrstu köflunum, ekki setja unglingsárin heldur nein mótandi einkenni á söguvitundina og fyrir vikið verður sögumaður svolítið litlaus.

Aðrar persónur gjalda svo þessa frásagnarmunsturs, erfitt er að greina þær hverja frá annarri – sérstaklega eru konurnar keimlíkar – og sumar persónurnar hverfa án þess að það hafi mikil áhrif á sögumanninn. Umhverfið skiptir í þessu verki töluverðu máli, því sögumaður ferðast víða og flytur oft á milli landa. Þessar lýsingar eru oft ágætar, en einkennast samt af óraunveruleikablæ; Bretland er eins og í sunnudagssjónvarpsþáttum, einkaskólar og Grosvenor Square; Indland er exótískt eins og í austurlandaklisju (og er ágætt dæmi um þá orðræðu sem fræðimaðurinn Edward Said kallaði ''óríentalisma'' og sagði einkennast af hugmyndum um hið ''óræða'', ''óþekkjanlega'' austur) og heimsókn sögumanns til maharajans minnir helst á sögu úr Þúsund og einni nótt, eða jafnvel atriði úr James Bond; ofgnótt, kræsingar, og kynlíf. Umhverfið lifnar því ekki við sem skyldi, er helst til plastlegt og styður ekki alltaf nægilega undir atburðarás eða andrúmsloft. Á köflum flæðir stíllinn ágætlega og framvindan er oft fléttuð haganlega saman, þótt deus þurfi stundum að mæta úr sinni machinu og setja inn nokkrar vel valdar tilviljanir til að liðka fyrir atburðarásinni.

Tuttugusta öldin, hin margumrædda öld öfganna, er vörðuð fjölmörgum skelfilegum atburðum: Stríðum, fólksflutningum, útrýmingu, uppreisnum, byltingum, brostnum hugsjónum (eins og Arnaldur Indriðason fjallar um í Kleifarvatni). Atburðirnir sem fjallað er um í Sakleysingjunum eru margir athyglisverðir og sumir einmitt mjög einkennandi fyrir öldina. En þeir gætu fyllt þó nokkrar skáldsögur og kannski er spurning hvort hver atburður sem minnst er á, hvarf verkalýðsforingjans, skákeinvígið, Rockwell, o.fl., hefði ekki dugað í heila skáldsögu. Þegar öllu er blandað saman í svona stóran pakka er erfitt að leggja nógu mikið í hvern atburð, velta upp ólíkum flötum, jafnvel að reyna að fá nýja sýn á þekkta atburði, því stöðugt þarf að koma næsta atburði að. Atburðarásin er rakin í fjöldamörgum stuttum köflum, en þannig bygging er vinsæl nú um stundir í ýmis konar afþreyingarbókmenntum (t.d. Da Vinci lyklinum), og endurspeglar senuuppbyggingu sjónvarps og kvikmynda. Þessi samsetning svo margra dramatískra atburða ber stundum einkenni sensasjónalisma og sentímentalisma, sem eru tvær hliðar á sama pening (eins og hver sem tekur upp slúðurblað getur borið vitni um). Hvort tveggja ýtir undir ''ja, hérna, en hræðilegt''-viðbrögð hjá lesandanum, en gefur ekki færi á að skoða málin í flóknara samhengi. Gaman hefði verið að staldra lengur við atburðina, jafnvel fá nýtt sjónarhorn til að skerpa á frásögninni. Áhrif allra þessara atburða á sögumann okkar felast helst í geðtruflunum sem eiga sér rætur í samviskubiti, sem oft rennur saman í allsherjar hitasótt, mók og óráð – en hans innra líf er sérkennilega tilviljanakennt, svo úr verður ákaflega götótt söguvitund, sem stundum er erfitt fyrir lesandann að þýðast.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, nóvember 2004