Beint í efni

Segðu mömmu að mér líði vel: Saga um ástir

Segðu mömmu að mér líði vel: Saga um ástir
Höfundur
Guðmundur Andri Thorsson
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2008
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Gunnþórunn Guðmundsdóttir

Innileiki, nánd, nærvera, og stundum fjarvera, í ástarsamböndum og fjölskyldum er umfjöllunarefni nýjustu skáldsögu Guðmundar Andra Thorssonar, Segðu mömmu að mér líði vel. Hér eru ekki stórdramatískir atburðir á ferð með tilheyrandi flugeldasýningum – og þó, samböndin sem hér er lýst eru einmitt þau mikilvægustu í lífi hvers manns þótt þau teljist að jafnaði ekki til markverðra tíðinda. Sögumaðurinn Einar, arkitekt á miðjum aldri, á kærustu, á föður, á son og fer vítt og breitt um núið og fortíð (eigin og foreldra sinna) til að gefa mynd af þessum samböndum og sjálfum sér.

Hér er því það í forgrunni sem ekki telst fréttnæmt en skiptir samt höfuðmáli – það sem er hversdagslegt, bundið andartakinu, en jafnframt það sem bókstaflega ‘skiptir sköpum’; hefur áhrif á líf okkar um alla tíð. Að fanga andartakið er hins vegar ekki einfalt mál því eins og segir í bókinni: „Maður skynjar aldrei hina afmörkuðu stund. Maður veitir henni ekki athygli frá degi til dags, þessa vikuna, hinn mánuðinn; stundirnar streyma endalaust og sjálfa hina afmörkuðu stund greinir maður ekki“ (bls. 57). Hér liggur einmitt þversögn hversdagsins – við veitum honum ekki athygli, hann rennur stöðugt hjá, en eins og ég hef rætt annars staðar er hann engu að síður „uppspretta sannleikans um okkur sjálf“ (sjá grein eftir undirritaða í nýlegri bók um Pétur Gunnarsson, Af jarðarinnar hálfu). Eins og hæfir umfjöllunarefninu lætur textinn lítið yfir sér, það eru engin læti, enginn æsingur, ekkert orðagjálfur, engin útþenslustefna, hér er fjallað um tilfinningar milli elskenda, milli foreldra og barna, milli vina; þetta er „saga um ástir“.

Bókmenntasögulegir fyrirrennarar birtast hér í líki ömmu Einars (sem ber hið öfundsverða nafn Skáldís og bætist í glæstan hóp bókmenntalegra amma), skáldkonunnar sem trúir að ástin sigri og sigri þar að auki á einhvern veginn skynsaman og hentugan hátt í eilífri sögu um Pilt og stúlku. Ástirnar hér eru ekki þær, heldur þessar margbrotnu og samsettu sem koma 19. öldinni í opna skjöldu. Náttúrulýsingarnar í bókinni hafa þó erft margt frá þeirri öld og höfundur leikur sér með hvernig þær voru löngum látnar koma í stað kynlífslýsinga, en hér er gubbað í lækinn fræga á viðkvæmri stund. Það þarf ekki að hafa um það mörg orð hve vandasamar kynlífslýsingar í skáldskap eru, í Bretlandi eru til að mynda veitt verðlaun á hverju ári, the Bad Sex in Fiction Award, fyrir verstu dæmin og hafa Rushdie, Updike og Marquez allir verið tilnefndir. Guðmundur Andri kæmist þó ekki í þann hóp, þótt hér sé vissulega kynlíf. Kannski vegna þess að þetta er fyrst og fremst bók um innileika, um ástir og nánd, en grafískar frásagnir ekki fyrirferðarmiklar.

Þó mætti segja að það sama eigi við um lýsingar á innilegu sambandi og hér að ofan var sagt um kynlíf. Það er merkilega erfitt að höndla þetta fyrirbæri án þess að það verði of væmið eða of fáfengilegt – hversdagslegt – eða stíft og tilgerðarlegt. Hér er þetta hins vegar meginkostur bókarinnar. Tilfinningar Einars til kærustunnar Kötlu, til föður síns og sonar verða lifandi og sannfærandi í textanum, þótt sum samböndin einkennist af fjarveru ekki síður en nánd, og frásögnin af sambandi Kötlu við son sinn ungan er fínleg og hlý. Hér að ofan var sagt að textinn léti lítið yfir sér, en það má ekki skilja sem svo að á málunum sé tekið af tepruskap eða einhvern veginn ‘settlega’ þótt hvers konar belgingur sé víðsfjarri og þetta er ekki tómt tilfinningasull heldur; hér er líka húmor og danshljómsveit í flottum búningum og hundur og skrítnir söngtextar.

Stundum kemur það fyrir að við erum neydd til að takast á við andartakið og það á ekki síst við þegar við bíðum tilneydd eftir einhverju. Einar sögumaður okkar bíður eftir símtali og undirbýr sig fyrir ferðalag – í millibilsástandi af þessu tagi verður til einhvers konar tómarúm sem er tilvalið til hugrenninga (bókmenntalegur hápunktur þessa er eflaust To the Lighthouse eftir Virginiu Woolf). Einar minnir sjálfan sig á öðru hvoru að hann ætli að segja frá atburðum „með skipulegum og skýrum hætti“, en minna verður um efndir, enda umfjöllunarefnið lítt til þess fallið; þetta er ekki Piltur og stúlka í gerð Skáldísar, heldur saga um ástir á 21. öld.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, nóvember 2008