Beint í efni

Siggi sítróna

Siggi sítróna
Höfundur
Gunnar Helgason
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2018
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Fjölskylda getur verið flókið fyrirbæri og þá sérstaklega ef maður á jafn skrautlega og Stella sem er aðalpersónan í nýjustu bók Gunnars Helgasonar, Siggi sítróna. Lesendur hafa áður fengið að kynnast Stellu og fólkinu hennar í Mamma klikk! (2015), Pabbi prófessor (2016) og Amma best (2017) þar sem er fjallað sérstaklega um þær fyrirferðarmiklu persónur í lífi Stellu sem titlar bókanna vísa til. Í hverri um sig segir frá mikilvægum atburðum sem tengjast sérstaklega þessum persónum og hafa stórkostleg áhrif á allt heimilislífið með alls konar flækjum og uppákomum. 

Nú er komið að litla bróður, Sigga, að njóta sviðsljóssins ásamt Stellu, en hann hefur verið svolítið í bakgrunninum í fyrri bókunum. Siggi er yngstur í fjölskyldunni, uppáhald allra og algert krútt. Hann er uppátækjasamur og sniðugur og búinn að missa framtennurnar en á meðan fullorðinstennurnar eru ókomnar er hann eiginlega alveg sérlega sætur. Hann nýtur þess í botn að vera litla barnið og sætabrauðið hennar mömmu sinnar og reyndar allra sem hann hittir. 

Þrír stórviðburðir setja svip sinn á líf fjölskyldunnar í Sigga sítrónu: Stella er á leiðinni í stóra aðgerð, mamma hennar er ólétt og gengur með tvíbura og foreldrarnir ætla loksins að láta verða af því að ganga í hjónaband. Allt á þetta að gerast á mjög skömmum tíma, ekki nema níu vikum. Það er því lítill tími til að skipuleggja og ekkert má fara úrskeiðis. En eins og þeir vita sem hafa lesið fyrri bækurnar um Stellu er hins vegar yfirleitt allt á öðrum endanum þegar kemur að heimilislífi fjölskyldunnar og sérstaklega þegar þarf að skipuleggja eitthvað mikilvægt. Það er yfirleitt í verkahring Stellu að halda utan um hlutina þegar mamma hennar er upptekin við annað og það er hún svo sannarlega núna, kasólétt og samkvæmt pabba Stellu afskaplega ólík sjálfri sér á fyrri meðgöngum. Þar sem Stella á nóg með sjálfa sig vegna aðgerðarinnar og þarf auk þess að liggja grafkyrr á meðan hún nær bata getur hún hins vegar lítið gert og verður að treysta á hina í fjölskyldunni. Það reynist henni samt afskaplega erfitt því það er alveg augljóst að pabbi hennar og bræður eru bara ekkert með á nótunum.

Í upphafi hvers kafla er niðurtalning í þessa þrjá viðburði sem eru alveg að bresta á og það skapar spennu fyrir lesandann að sjá hvernig þeim tekst til og hvort það hafist yfirleitt að gera allt. Það er nefnilega alls ekkert víst að allt gangi upp, enda fjölskylda Stellu jafnvel þekkt fyrir að taka afdrifaríkar skyndiákvarðanir og breyta öllu skipulagi á síðustu stundu. 
Stella heldur sínu striki þrátt fyrir allt sem hún þarf að takast á við, ekki bara aðgerðina heldur líka ástarvandamál og fleira. Hún hittir vinkonur sínar, hlustar á tónlist, spáir í stráka og hangir á samfélagsmiðlunum þar sem hún segir fréttir af sjálfri sér og brúðkaupsundirbúningnum. Það er þó ákveðinn kostur við söguna að samfélagsmiðlarnir fá ekkert sérlega mikið pláss og Stella er skemmtilega laus við að vera sífellt í símanum. Vinkonur hennar koma frekar til hennar til að hitta hana og heimilið iðar alltaf af lífi og fjöri. Líf Stellu er líka svo viðburðarríkt að hún hefur varla tíma fyrir símagláp, en það má reyndar velta því fyrir sér hvort það sé ekki einmitt svona mikið stuð í kringum Stellu vegna þess að hún spáir ekki mjög mikið í símann eða tölvuna.

Þrátt fyrir að bæði brúðkaupið og barnsfæðingin sem eru framundan tengist auðvitað að miklu leyti foreldrum Stellu eru þau ekki aðalpersónur í þessari sögu. Siggi, sem er í svolítilli krísu, er hins vegar eins og fyrr sagði í stóru hlutverki. Eftir að hann áttar sig á því að með komu nýju systkinanna verði hann ekki lengur minnstur og sætastur í fjölskyldunni hendir hann sér af miklum krafti, og svolítilli örvæntingu, í vinsældarátak þar sem hann reynir að leggja grunninn að því að hann verði áfram aðal-sætabrauðið á heimilinu. Hann kemst þó að því að það er mjög mikil vinna og kannski er hann bara að verða tilbúinn fyrir annað hlutverk sem ábyrgðarfullur stóri bróðir. Hann þroskast heilmikið í sögunni og finnur í leiðinni leynda hæfileika, því hann getur ýmislegt sem engan hefði grunað og nær að brillera á hátt sem kemur öllum á óvart, líka honum sjálfum. Lýsingarnar á tilfinningalífi Sigga eru afskaplega einlægar og vel gerðar. Lesandinn fær samúð með honum fyrir kvíðann sem hellist yfir hann og hann reynir að hrista af sér og fyllist svo að sama skapi stolti fyrir hans hönd þegar Siggi þroskast og áttar sig á því hvað hann er mikilvægur alveg óháð því hvort hann sé minnstur eða mesta krúttið. 

Siggi sítróna gefur fyrri bókunum um Stellu ekkert eftir. Sagan er bráðfyndin og full af orku og það er alltaf eitthvað að gerast. Krafturinn og frásagnargleðin sem einkenna framkomu Gunnars Helgasonar hvar sem hann kemur skína bersýnilega í gegn í sögunni og gera hana lifandi og skemmtilega. Fjölskyldan hennar Stellu er alltaf jafn áhugaverð og gaman að fylgjast með uppátækjum þeirra og tilfinningalífi. Gleðin og gamansemin, ásamt einlægni Sigga og áhyggjum hans af framtíðinni, gera söguna að afar vel heppnaðri blöndu af gleði og alvöru.

María Bjarkadóttir, 2018