Beint í efni

Skáldleg afbrotafræði

Skáldleg afbrotafræði
Höfundur
Einar Már Guðmundsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2021
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Þorgeir Tryggvason

 

Ég fer hratt yfir sögu og sleppi öllu kjaftæði, um morgunsólina sem er að rísa og regnið sem bylur á þökunum og allt þetta leiðindabull í bókum.
Ég ætla heldur ekki að rekja neinar ættir eða gera veður út af einhverjum vandamálum aftur í rassgati.
Ég segi bara einsog dátinn í Eldfærunum: Hér gerist ekkert fyrr en ég mæti á staðinn.

(Bítlaávarpið 9)

Einar Már Guðmundsson fer aldrei í launkofa með það hvað samspil höfundar, sögumanns og söguefnis skiptir miklu máli í bókum hans. Bæði virðist hann hugsa mikið um þessa stöðu sjálfur, en jafnframt vill höfundurinn leggja spilin á borðið fyrir lesandann, svo hann geti tekið þátt í að velta fyrir sér reglunum í þeim leik sem honum er boðið að taka þátt í.

Frá og með Englum alheimsins (1987) hefur skáldskapur Einars í óbundnu máli leynt og ljóst byggt á „sögulegu“ efni, ýmist (oft mjög lauslega) úr fjölskyldusögu hans, minningum eða (hin síðari ár) skriflegum heimildum úr fjarlægri fortíð. Sjálfur birtist hann sem persóna í Rimlum hugans (2007) og margar sagnanna í Kannski er pósturinn svangur (2001) virðast einnig bein skrásetning raunverulegra atvika úr lífi höfundar, þó þar bregði líka fyrir fólki sem á sér sennilega ekki tilveru utan bóka Einars Más. Ýmislegt af því sem sögumenn Einars hafa um erindi sitt og aðferðafræði að segja virðist ekki síður eiga við um þann sem stýrir pennanum að baki þeirra.

Allt þetta fer fram fyrir opnum tjöldum, er hluti af skáldskapnum og gefur honum á köflum heimspekilegan svip. Gerir lesandan meðvitaðan um þátttöku sína í sköpuninni í stað þess að verða viljalaus viðtakandi í öruggum höndum hins ómótstæðilega sögumanns.

Í yfirlitsgrein Bókmenntavefsins um skáldskap Einars fram að aldamótum segir Þröstur Helgason verk hans í óbundnu máli hafa „einkennst af leit, leit að frásagnarhætti, sjónarhorni, orðum, merkingu.“ Það má taka undir það, og jafnframt velta fyrir sér hvort á næstu áratugum sjáum við afrakstur þessarar leitar. Skáldsögurnar falla mjög í svipað mót hvað varðar efnisskipan og að miklu leyti frásagnarhátt og stíl. Það er síðan forvitnilegt að sjá hvernig aðferðir Einars hafa ólík áhrif eftir því hvers kyns söguefnið er. Og alltaf augljóst að höfundurinn sjálfur deilir þeirri forvitni með lesendum sínum.

Saga fiskættarinnar

Þar sem grein Þrastar sleppir er Fótspor á himnum (1997) nýjasta útgefna bók Einars. Á næstu árum bætast við tvær bækur, Draumar á jörðu (2000) og Nafnlausir vegir (2002), sem mynda samfelldan sagnabálk með Fótsporunum. Jafnvel mætti segja að þarna sé komin ein löng skáldsaga, um 650 blaðsíðna ættarsaga sem spannar ríflega þrjár kynslóðir á hinum miklu umbrotatímum tuttugustu aldarinnar, frá millistríðsárum til eftirstríðstímans. Bálkurinn allur hefur síðan lausleg tengsl við Engla alheimsins, þar sem sögumaður bálksins er leigubílsstjórasonurinn Rabbi, sem nærtækast er að líta á sem bróður Páls, söguhetju og sögumanns Englanna, þó önnur efnistengsl séu lítil. Kannski ekki ósvipað samband og milli The Hobbit og þríleiksins Lord of the Rings, þó að flestu öðru leyti séu Einar Már og Tolkien harla fjarskyldir höfundar.

Þó einhverjir þræðir teygi sig aftar í fortíðina og aðeins sjáist í næsta ættlegg er hér fyrst og fremst rakin saga hjónanna Guðnýjar og Ólafs og barna þeirra. Börnin eru tíu, átta synir og tvær dætur. Þau njóta mismikillar athygli sögumanns, en auk þeirra er ótölulegur fjöldi aukapersóna nefndur til sögunnar, og oftar en ekki sögð deili á þeim með nafngreindum foreldrum, mökum og vinum, sem gefur sagnaheiminum Íslendingasögulegt yfirbragð.

Fyrir utan þau hugrenningatengsl er nærtækast að hugsa um þríleikinn sem nútímalegt og „borgarmiðað“ tilbrigði við hið stóra þema um hnignun sveitanna og endalok sakleysisins við búferlaflutninga og uppflosnun.

Tilbrigðið felst ekki síst í þeim óvænta snúningi að vegna heimilisaðstæðna Guðnýjar og Ólafs, og ekki síst ofdrykkju húsbóndans, eru börnin send til vistar á ýmsum bæjum sunnanlands og upplifa þar svo sannarlega misjafnt atlæti sem mótar þau mjög. Samviskulaus prestur þrælkar hinn stórvaxna Ragnar en svíkst um að kenna honum að lesa, meðan ljúfir kotungar taka á móti Sigrúnu systur hans og tekst með mildi að lækna hana af heimþránni.

Þetta er saga mikilla persónulegra örlaga, þó „fiskættin“, eins og Guðný kallar afkomendur sína. sé fólk úr lægstu deild samfélagsins og gangi misvel að vinna sig þaðan upp. Ragnar, sem má einna helst teljast aðalpersóna fyrsta bindis, gerist einarður kommúnisti og fer ásamt með sínum nánasta vini til Spánar til að leggja baráttunni gegn fasismanum lið.

Í öðru bindinu eru örlög hinnar berklaveiku Sigrúnar miðlæg, ásamt með sögu Ólafs, föður sögumannsins. Í Nafnlausum vegum fær braggabúinn og baráttukonan Helga, barnsmóðir Ragnars stóran sess, en einnig vellauðugi náttúrulækningamaðurinn Ívar, auk þess sem þriðja kynslóðin verður meira áberandi. 

Áður reifað söguefni heldur engu að síður stöðugt áfram að skjóta upp kollinum og minna á sig. Lausbeislaður frásagnarháttur þríleiksins gefur tilfinningu fyrir því að vera vitni að upprifjun á sameiginlegum minninga- og sagnasjóði. Ein saga kallar á að önnur dregin fram og sögð sem hliðstæða eða andstæða, burtséð frá því hvort hún hefur áður verið rakin. Sögumaður og heimildarmenn hans spá í persónuleika fólksins út frá þeim sögum sem af þeim fara, velta fyrir sér rökvísi ákvarðana og samhengi örlaga. Þannig verður þríleikurinn miklu fremur eins og brotakennd víðmynd af lífi stórfjölskyldu í stærra samhengi þjóðfélagsbreytinga og umróts tuttugustu aldarinnar en dramatísk örlagasaga sem leiðir frá einu atviki til annars að einhverskonar niðurstöðu eða lausn.

Framanaf eru einstaka kaflar sviðsettir sem viðtöl Rabba við ættingja sína, eða hann rifjar upp samtöl um fortíðina sem hann hefur orðið vitni að. Smám saman festist rödd Rabba í sessi sem alvitur sögumannsrödd, án þess að lausatökin og hringsólið hverfi sem grunnaðferð verksins.

Á heimaslóðum

„Þetta verður ekki trílógía því þessum sagnaflokki er ekki lokið,“ sagði Einar Már í viðtali við útkomu Nafnlausra vega. Ekki hefur það bókstaflega gengið eftir, en það er innangengt eftir einhverjum refilstigum og undirgöngum milli nánast allra verka hans. Persónur flæða á milli þeirra, heilu þorpin verða til sem vettvangur atburða á ólíkum tímum, og læðast jafnvel inn í frásagnir sem verða að öðru leyti að teljast ramm-sannsögulegar.

Einkum er það þó frásagnarhátturinn sem bindur höfundaverkið saman. Hinn lausbeislaði, endurtekningarsami sögumaður, sem túlkar og hugleiðir efni sitt jafnóðum heldur áfram ríkja yfir síðari bókum, hvort sem Rabbi hefur orðið eða einhver annar. Eða jafnvel Rabbi undir öðru nafni.

Þetta sést skýrt í næstu skáldsögu eftir þríleikinn. Þar hverfur Einar aftur í annan af sínum fyrri sagnaheimum og gefur kunnuglegum sögumanni, Jóhanni Péturssyni úr Riddurum hringstigans, orðið.

Vofa gengur laus um götur heimsins, vofa Bítlanna.
Það er engu líkara en  veröldin búi sig undir brjálað trommusóló.

(Bítlaávarpið 7)

En þó tónlist bítlatímans ómi í þessari frásögn af unglingsárum, árekstrum og þroska þá stendur Bítlaávarpið (2004) varla undir því nafni. Þó ekki væri nema fyrir það að erkifjandvinirnir í Rolling Stones taka eiginlega meira pláss í textanum, auk minni spámanna.

Að innihaldi til er Bítlaávarpið um flest nokkuð dæmigerð unglingabók, rökrétt framhald bernskusagnananna í Riddurunum. Full af prakkarastrikum, hverfaríg, ástarævintýrum, sjoppuhnupli og glímu við skólayfirvöld og foreldra sem eiga sínar eigin sorgir, og höndla illa jafn íbygginn og órólegan anda og Jóhann  Pétursson, sem engan veginn rekst í fjölskyldulífi eða unir sér undir handarjaðri Herberts skólastjóra og „frjálslyndrar“ skólastefnu hans.

Það er hinn hugleiðandi en athuguli tónn sögumannsins sem hefur Bítlaávarpið upp fyrir hið dæmigerða og margreifaða söguefni:

Við höfðum engar reglur nema skólareglurnar og það hvarflaði ekki að okkur að fara eftir þeim. Í þeim stóð heldur ekkert af viti, bara hvað við máttum og máttum ekki og auðvitað máttum við ekki neitt. (53)

Hið fyrirvegaða en jafnframt furðulostna og opineyga sakleysi Jóhanns sem persónu vefst fyrir foreldrum hans og kennurum, en heillar lesendur. Sömu eiginleikar gera honum kleift að greina frá harmrænum sögulokunum án þess að tilfinningasemi nái þar neinni fótfestu. Móðir hans eru mögulega látin, hin elskaða Helga í næsta húsi flutt burt. Sagan fjarar út, og tilfinningin er, eins og svo mörgum sagna Einars Más, að henni sé ekki lokið, þó Jóhann hafi enn sem komið ekki kvatt sér frekara hljóðs.

Rimlar hugans (2007) endar á hinn bóginn á skýran og eindreginn hátt. Eða réttara sagt: sögunni lýkur þar sem hún hefst, á því að Einar Þór og Eva lýsa yfir trausti á höfundinum Einari Má til að segja sögu þeirra, tala máli þeirra.

Þú ert að lesa Rimla hugans – ástarsögu, nýjustu skáldsögu Einars Más Guðmundsonar. Einsog í öllum skáldsögum mínum sæki ég efnivið minn í raunveruleikann. Ég byggi á atburðum. (Rimlar hugans, 157)

Þó Rimlar hugans hafi mögulega, eins og Einar Már staðhæfir þér, sama viðhorf til sambands skáldskapar og raunveruleika og aðrar bækur hans, þá er hún að öðru leyti nokkuð sér á parti meðal verka hans á þessu tímabili. Sú eina þeirra þar sem fleiri en ein rödd tekur til máls, og sú eina þar sem ein þeirra sem segir frá er kvenkyns.

Hér vindur ólíkum söguþráðum fram. Í einum þeirra segir Einar Már frá glímu sinni við alkóhólisma, um bataferli undir handleiðslu SÁÁ og reynslu hans af hugmyndafræði AA-samtakanna. Í öðrum þræði fylgjumst við með bréfasamskiptum tveggja fíkla, Einars Þórs og Evu. Einar Már hefur kynnst Einari Þór í gegnum baráttu sína við fíknina, en þegar sagan gerist situr sá síðarnefndi á Litla-Hrauni og bíður dóms fyrir fíkniefnamisferli. Í bréfum sínum rifja Einar Þór og Eva upp fortíð sína, og þroska og styrkja um leið samband sitt og undirbúa framtíð sína.

Þó margt í Rimlum hugans hafi sterkt sannsöguyfirbragð er Einar Þór mjög „Einarsmáslegur“ karakter. Ekki alveg fjarskyldur Jóhanni Péturssyni eins og hann birtist lesendum í Bítlaávarpinu. Svolítið utanveltu en ekki vitlaus þó hann þrífist illa í skóla, sérkennilegur, en fær umbun fyrir það sem trúður, fyrst í skólanum en svo á landsvísu, með kvikmyndahlutverki og athygli í Stundinni okkar. Síðar verður Einar Þór mjög sannfærandi pönkari í haturssambandi við samfélag og fjölskyldu, og um tíma umsvifamikill fíkniefnasali.

Eva ratar líka í óreglu á unglingsárum, en lesandinn fær sterklega á tilfinninguna að bjartari tímar séu framundan hjá þeim báðum og börnum Evu sem Einar Þór hefur gengið í föðurstað. Það er heitur og sannur tónn, djúp einlægni, í ástarbréfunum og samstaða höfundar með persónum sínum er sterk og smitandi.

Sterk textatengsl eru milli Rimla hugans og ljóðabókarinnar Ég stytti mér leið framhjá huganum (2006). Fíkn og fíknimeðferð eru meðal helstu yrkisefna Einars Más í ljóðabókinni, auk þess sem þar er að finna ljóðið „Ástarstjarna yfir Litla-Hrauni“ sem kemur við sögu í skáldsögunni. Ljóðabókin tengist fleiri verkum Einars Más; „Lögreglustöðin í Osló sumarið 1978“ lýsir atviki sem  gengur aftur í Passamyndum nokkrum árum síðar. Nostalgísk upprifjun birtist hér og hvar í bókinni, en þar er einnig að finna hástemmd og einlæg ástarljóð sem minna bæði á stemminguna í bréfum Einars Þórs og Evu í Rimlum hugans, og á ástarsambandið sem kviknar og þroskast í Passamyndum:

Ég man þann dag
þú varst fögur einsog sólin,
heit og tær sem glóðin,
fylgdir mér um sólbrún stræti,
geislaðir …

(„Tregagleði“)

Í bókinni er líka að finna tilraunir með rím, stuðla og endurtekningar sem minna helst á viðlög í söngtextum, ekki síst í mögnuðu ljóði, „Guðspeki handa unglingum“, þar sem viðkvæðið er „allt er svo gamalt í ísskápnum, ekkert nýtt undir sólinni“:

Þá var kærleikur, kökur
og kátína,
en nú heyrist ekki neitt
nema blúsinn í blokkunum,
jarmið í flokkunum
og ópin sem síga úr börkunum …
Já, allt er svo gamalt í ísskápnum
ekkert nýtt undir sólinni.

Nýjasta ljóðabók Einars Más, Til þeirra sem málið varðar, kom út 2019, og er lágstemmdari bók. Galsinn og tilfinningahitinn víkur fyrir íhygli, kyrrð og efa, sem minnir kannski meira á sögumenn skáldsagnanna sem velta hlutum fyrir sér í sífellu og efast varfærnislega um hvað sé fast í hendi af sögu, staðreyndum, minningum og veruleika:

Nú stend ég uppi á hæðinni
og horfi til himins.
Himininn horfir á móti.

Ég get auðvitað eki sannað það
en ég sé enga ástæðu til að véfengja
það sem ég segi sjálfur.
Himininn er á sínum stað
og ég svo sem líka.

(„XX“)

Tangavík og nágrenni

Ég fer alltaf út í einhverja útúrdúra, en þannig eru sögur, þær gerast mikið til fyrir utan sjálfar sig. Ef þú ert að segja frá einhverju einu þá ertu í rauninni að segja frá einhverju öðru. (Rimlar hugans 217)

Einar Már tók virkan þátt í uppgjöri bankahrunsins með greinaskrifum og ræðuhöldum. Tvö greinasöfn hans, Hvíta bókin (2009) og Bankastræti núll (2011) geyma viðbrögð hans og hugleiðingar um orsakir, gerendur og viðbrögð við hruninu og öllu því óréttlæti og spillingu sem skyndilega varð sýnileg, eða kannski öllu fremur skyndilega leyfilegt umfjöllunarefni.

Það er mikill og tæpitungulaus hiti í þessum textum, sem eru kannski frekar mikilvægir sem merkur minnisvarði um ástand þjóðarsálarinnar á umbrotatímum, en skörp greining eða áreiðanleg heimild um atburðarás, orsakir og afleiðingar. Og skáldið tengir, eins og honum er tamt, sinn sérstaka söguheim inn í umræðuna um málefni dagsins:

Sveinn og Guðríður voru sárafátæk við komuna til Tangavíkur. Alla muni og fatnað urðu þau að skilja eftir. Í umsókn um styrk handa þeim segir prestur að þau hafi eina gamla kú að láni. Hann sótti sjóinn en lítið fiskaðist. Eitrið úr gosstöðvunum lagðist á fiskimiðin. Hver vertíð á fætur annarri brást. (Bankastræti núll 120)

Þarna bólar á söguefni sem Einar Már átti eftir að taka aftur upp árið 2021, og næsta skáldsaga hans, Íslenskir kóngar (2012), hefur Tangavík að sögusviði, líkt og þessi örsaga af Sveini og Guðríði, þó sögutíminn sé þar annar.

Það má kalla Íslenska kónga „eftirhrunsskáldsögu“, tilraun til að skoða rætur íslenska auðmannsins og bakland hans í athafnalífi og stjórnmálum. Til þess skapar Einar Tangavík, þorp á suðurströnd Íslands, sem í Íslenskum kóngum verður nokkurskonar sanmefnari fyrir íslensk sjávarþorp, stútfullt af skrautlegum karakterum í öllum stéttum, meira og minna innbyrðis skyldum, og langflestir tengdir ættinni sem öllu ræður; konungsættinni Knudsen.

Það sagði sína sögu um Tangavík, og stöð Tangavíkur, að hvergi á landinu voru nasistar jafn sterkir og hvergi á landinu voru fleiri kommúnistar.
Hvergi á landinu fórust fleiri skip og hvergi á landinu var dansað meira. hvergi á landinu var grátið meira og hvergi á landinu var hlegið meira. Hvergi á landinu var meiri sorg og hvergi á landinu var meiri gleði. (Íslenskir kóngar 108)

Tangavík er samnefnari íslenskra þorpa og höfðingjaættin, Knudsenarnir, sver sig í ætt við önnur íslensk höfðingjaslekti, með ættföðurinn Ástvald sem brýst til ríkidæmis með elju, frekju og heppni, allskyns listræna ættlera og sérkennilega svikahrappa. Og svo að lokum nútímaafsprengið sem leggur allt í rúst:

Margir segja að Ástvaldur Knudsen myndi snúa sér við í gröfinni ef hann sæi hvernig komið er fyrir Tangavík í höndum Jónatans Knudsen, því Jónatan og fylgisveinar hans hafa selt allar eigur Tangavíkur, tæmt sparisjóði, veðsett verðmæti og sóað í gæluverkefni og reynt að halda öllu gangandi með glærusýningum. (Íslenskir kóngar 29)

Það er mikil frásagnar- og sköpunarkæti í Íslenskum kóngum, sem höfundur gerir ekki alvarlegar tilraunir til að hemja. Að svo miklu leyti sem hún er rannsókn á rótum hrunsins þá er það fyrst og fremst í krafti þess að „ef þú ert að segja frá einhverju einu ertu í rauninni að segja frá einhverju öðru“, eins og segir í Rimlum hugans. Bókin er full af taumleysi, útúrdúrum og ævintýrum, auk þess sem hinir framliðnu ganga inn og út úr raunveruleika sögunnar án áreynslu:

Ástvaldur rótaði snjónum úr berginu með vettlingnum Kuldinn læsti sig í hendurnar, andlitið skrámaðist og þrekið þvarr. Hann hékk á fingurgómunum og gat varla fótað sig. Svo féll hann í öngvit. Þá kom amma hans, hún Jakobína sem átti tólf börn, átta stráka og fjórar stelpur. Hún var dáin fyrir tveimur árum og tók í hönd hans og leiddi hann upp þann hluta bjargsins sem enginn hafði áður klifið. (Íslenskir kóngar 25)

Þessi aðferð úr smiðju töfraraunsæisins, samspil lifandi og dauðra, verður jafnvel enn meira áberandi í nýjustu skáldsögu Einars, sem einnig hefur Tangavík að aðalsögusviði, og einn Knudsenanna sem lykilheimildarmann.

Það má reyndar halda því fram að Skáldleg afbrotafræði (2021) eigi ekki síður skilið merkimiðann „eftirhrunsskáldsaga“ en Íslenskir kóngar. Sögutíminn er „íslenska glæpaöldin“ í upphafi nítjándu aldar. Los kemst á þjóðlífið eftir móðuharðindi, hugmyndafræði upplýsingarinnar skilar sér í mildari refsingum og endurómur frönsku byltingarinnar skilar sér alla leið norður til íslands. Allt þetta á sinn þátt í að grafa undan myndugleika yfirvalda og valdefla alþýðuna, þá ekki síst ófrómari hluta hennar:

Þessir afbrotamenn, margir nafnkunnir menn, frægir í sínum sýslum og víðar, þessir frumstæðu uppreisnarmenn eða hvað menn vilja kalla þá, eru stundum sagðir upphafsmenn skipulagðrar þjóðfélagsbaráttu og baráttu fyrir réttlæti en þeir eru líka sagðir skyldir götugengjum nútímans, glæpahópum og stjórnleysingjum. Þetta getur allt vel farið saman enda margt mótsagnakennt í sögunni og lífinu. (Skáldleg afbrotafræði 42)

Snertifletir Tangavíkur við landakort raunveruleikans skýrist í Skáldlegri afbrotafræði. Það gerist einkum með því að meginþráður bókarinnar, tilefni hennar, er aðdragandi og bakgrunnur ránsferðar á bæ ríks bónda í nágrenninu, sem í bókinni heitir Holt, en er nokkuð augljóslega byggt á hinu fræga Kambsráni. Ein aðalpersóna bókarinnar, Sigrún Karlsdóttir, sem kölluð er Sigga sægarpur og á sér fyrirmynd í Þuríði „formanni“ Einarsdóttur. Þar með er Tangavík orðin augljóslega, og næstum örugglega viljandi, tengd Eyrarbakka, án þess að Einar Már vilji binda sig of hörðum fjötrum við sögulegar staðreyndir og raunverulegt, sögulegt fólk.

Fjölmargar persónur eru nefndar til sögunnar, bæði ránsmennirnir og aðrir þorpsbúar. Fyrir miðju situr Óli blindi, illa liðinn tómthúsmaður sem enginn vill hafa með sér til sjós, og niðursetningurinn Jóna sem er komið fyrir hjá Óla til að þjónusta hann, og Óli níðist á kynferðislega. Óli verður einn helsti hvatamaður aðfararinnar að Holti til að ná fé Egils bónda, en Skáldlegri afbrotafræði lýkur þar sem þær hugmyndir eru að færast á ráðagerðar- og framkvæmdaplan. Framhald er boðað.

Reyndar hefur ýmislegt verið sagt frá ráninu og öðru sem gæti orðið meginefni annars bindis. Frásagnaraðferð Einars Más í Skáldlegri afbrotafræði minnir um margt á þríleikinn frá 1997–2002. Sögumaður fer ekki í grafgötur með hvað muni gerast síðar í sögunni, sem réttlætir og skýrir af hverju hann segir frá því sem fangar huga hans, auk þess sem hann gerir grein fyrir heimildum sínum og hugleiðir merkingu og samhengi alls sem er til frásagnar. Þó hér sé sagt frá frægu glæpamáli eru efnistökin nánast hrein andstaða við hefð glæpasögunnar, þar sem öllu skiptir að lesandann renni aldrei í grun hvað gerist næst.

Segja má að Skáldleg afbrotafræði brúi bilið milli hins víðari skáldsagnaheims Einars og hinnar sögulegu skáldsögu hans, Hundadaga (2015). Einnig þar erum við mikið til stödd á Suðurlandi, einnig þar erum við að skoða sögulega viðburði á mótum átjándu og nítjándu aldar. Að mörgu öðru leyti eru Hundadagar einstakir í höfundaverki Einars Más Guðmundssonar.

Þó sögumaðurinn sé af svipuðu tagi og í öðrum skáldsögum hans; hugleiðandi, örlítið bernskur og ósýnt um að rekja atburði í tímaröð eða skýra rökvísi framvindunnar, lætur Einar Már heimildirnar að mestu ráða för, vel umfram það sem þær fá að gera í Skáldlegri afbrotafræði.

Hundadagar er skáldleg endursögn ævisagna nokkurra nafnkunnra einstaklinga: aðallega séra Jóns Steingrímssonar „eldklerks“ (1728–179) og Jørgen Jørgensen „hundadagakonungs“ (1780–1841) en einnig Finns Magnússonar leyndarskjalavarðar (1781–1847) og Guðrúnar Johnsen „hundadagadrottningar“ (1789–18??).

Þungamiðjan er vissulega á þeim tveim hinum fyrrnefndu, og lengi vel er engu líkara en helsta fyrirmynd Einars séu hliðstæðuævisögur grísk-rómverska sagnaritarans Plútarkosar, þar sem hann stillir frægðarmönnum grískrar og rómerskrar fortíðar upp hverjum gegn öðrum og metur afrek, mannkosti og siðferðisstyrk þeirra.

Ekki reynast endilega margir áhugaverðir snertifletir milli hins heittrúaða en skapstóra prests og hins fífldjarfa, víðförula, taumlausa og illa breyska danska úrsmiðssonar. Bæði lífshlaupin þó skilmerkilega rakin.

Óneitanlega leikur viðburðarík og ólíkindaleg saga Jörundar betur í höndum Einars en lífsbarátta eldklerksins, sem finnur það sjálfur og dvelur mun meira við hana. Það er enginn óravegur milli ævintýra Jörundar um víða veröld, og sérstaklega á Íslandi og óstýrlátustu persónanna sem hann skapaði sjálfur fyrr á ferli sínum:

Það er greinilegt af lýsingum á æsku Jörgens Jörgensen a hann var það sem nú á dögum kallast ofvirkur. Hann undi sér ekki við nám þó að námshæfileikar væru ágætir, raunar mjög góðir. Núna væri hann settur á rítalín eða einhver róandi lyf, alveg einsog fleiri söguhetjur okkar og margir sem látið hafa að sér kveða í heiminum. (Hundadagar 55)

Milli þessara tveggja sögulegu skáldsagna sendi Einar Már frá sér aðra bók sem lesa má sem tengingu milli ólíkra sviða í höfundarverkinu. Passamyndir (2017) er í káputexta sögð tilheyra sagnaheimi þríleiksins og Engla alheimsins og hefur augljós tengsl við hann. Sögumaðurinn gæti verið sá sami, hann á bróðurinn Pál, sem er „svona eins og Syd Barrett“ (20), „málar og skrifar og trommar. Hann er klár en hann er oft erfiður“ (21).

En ólíkt þessum bókum er sögumaðurinn eindregin aðalpersóna í Passamyndum. Hann heitir Haraldur (en ekki Rabbi), ungur maður með skáldadrauma, með rómantískar hugmyndir um Evrópuflakk sem hann hyggst hrinda í framkvæmd í félagi við vini sína og kunningja með uppgripavinnu í Noregi, heimalands átrúnaðargoðsins Knud Hamsun, og síðan áhyggulausu ráfi suður um lönd, jafnvel alla leið til Sikileyjar á slóðir Vefarans frá Kasmír. Það gengur að mörgu leyti upp, en með þeirri ófyrirséðu vendingu að Haraldur verður ástfanginn snemma bókar og öll plön verða að taka mið af þeirri nýju stöðu.

Þó Passamyndir séu að forminu til skáldsaga er erfitt að ímynda sér annað en uppistöður efnisins séu endurminningar. Einhverjar aukapersónurnar eru ágætlega þekkjanlegar úr raunveruleikanum, þeirra sennilega augljósust kvikmyndagerðarkonan og aktívistinn Rúna sem sögumaður heimsækir í Róm og getur varla verið önnur en Róska.

Lesandi staldrar líka við atvik á lögreglustöðinni í Osló þar sem vinirnir Haraldur og Jonni fara til að fá atvinnuleyfi, en verða vitni að hryssingslegri framkomu í garð Pakistana sem þar er í sömu erindagjörðum. Sama atvik er uppistaðan í ljóði í Ég stytti mér leið framhjá dauðanum, eins og áður hefur komið fram, og hefur þar eindregna mynd minningar.

Það er heldur ekki laust við að Hermann sé meðvitaður um hverskonar höfundur Einar Már ætti eftir að verða:

Ég ætla að segja frá einu atviki, einhverju sem gerðist, en er strax farinn að tala um eitthvað annað, þannig segi ég sögur. Ég veit hvert ég ætla en ég rata ekki þangað. (Passamyndir 23)

Þegar ég byrja að segja frá einhverju einu þá dettur mér eitthvað annað í hug. ég vildi í rauninni segja miklu meira og miklu fleiri sögur en ég geri en þá kæmist sagan sem ég er að segja ekki fyrir og myndi drukkna í öðrum sögum. (55)

[…] enda leit ég á sjálfan mig sem lærisvein ljóðskálda sem töluðu bara við sjálf sig eða engan og vindinn, en sögðu samt heilmikið um heiminn. Ég vissi samt að ég myndi skrifa sögur. (192)

En þó það sé sannsögubragur á Passamyndum er þaðan innangengt í „skáldlegri“ hluta höfundaverksins lika. Haraldur og Jonni eru nemendur Arnfinns Knudsen, kennarans sem var kveikjan að bókinni um ætt hans og tök hennar á Tangavík, Íslenskum kóngum. Þeir félagar höfðu sjálfir orðið svo frægir að vera á vertíð í því skáldlega plássi. Og á einum stað skýtur upp kollinum hinn dularfulli doktor Róbert, sem sést líka í sögum í Kannski er pósturinn svangur.

Þannig er hinn skáldaði heimur Einars Más, sem hann hefur byggt upp í gegnum sitt stóra höfundarverk, merkilega heildstæð veröld. Full af undrum en líka skarplegum rannsóknum raunheimana. Fyrir utan hina mörgu snertipunkta og öll leynigöngin milli Tangavíkur, Eyrarbakka, Holtahverfisins, Vogana, Tasmaníu og Taormína, er það aðferð sögumannsins, sýn höfundarins, sem bindur þetta allt saman saman, með lausum en merkilega traustum böndum og hnútum.

Þið verðið að fyrirgefa mér en ég er að hugsa svo margt og fer því að segja alls konar sögur, alls konar skrítnar sögur. (Passamyndir  23)

 

Þorgeir Tryggvason, mars 2022