Beint í efni

Skotin á stríðstímum

Skotin á stríðstímum
Höfundur
Natasha S.
Útgefandi
Una útgáfuhús
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Þórunn Hrefna

Natasha S fékk nýverið Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir fyrstu ljóðabók sína, Máltaka á stríðstímum.

*

ég óska þess að
stríðið hefjist ekki
ljúki á morgun
ljúki fljótlega
ljúki sem allra fyrst
að dauðsföll verði fá
að dauðsföll verði fá
að dauðsföll verði fá


Stríðið í Úkraínu geisar enn og er aðalefni bókarinnar Máltaka á stríðstímum. Sjónarhornið er forvitnilegt, þar sem Natasha S, höfundur og ljóðmælandi er rússnesk, en býr á Íslandi og fær fréttir úr heimspressunni. Fjölskylda hennar í Rússlandi fær aðrar fréttir og það veldur árekstrum og togstreitu, eins og eitt af ljóðunum sem ber titilinn Nútímasamtöl gefur til kynna:

hvenær byrjarðu að hugsa sjálfstætt?
þú skilur ekki neitt
þetta er upplýsingastríð á móti okkur
falskar fréttir
þeim að kenna
þau drápu fólkið okkar í átta ár
þau eru nasistar
morðingjar
þau ætluðu að rústa okkur
við þurfum að vernda móðurlandið


Á öðrum stað segir að systir hennar hafi kallað hana föðurlandssvikara, en það var í grátkasti, í hugsunarleysi. Samúð er flókið fyrirbæri, samúðin er vitaskuld með þjóðinni sem ráðist er á, en fólkið sem alið er á röngum upplýsingum er líka vert samúðar og skilnings.

Eitt magnað ljóð sem ber titilinn „Rústir“ sýnir glöggt hversu flókin staða ljóðmælandans er, en þar á hún erindi í Rússneska sendiráðið þegar mótmæli standa yfir fyrir utan. Ljósbláum og gulum fánum og skiltum er veifað og á bakvið menn í einkennisbúningum „felur sig hvítt hús með rauðum slettum“ (32). Hún „brýtur reglurnar“ og spyr starfsfólkið hvernig þau hafi það, en horfir skömmustulega í kringum sig þegar hún fer út.

*

Máltaka á stríðstímum skiptist í þrjá kafla: Að tala, Að skrifa og Að hlusta. Í raun er kaflaheitinu Að skilja líka markaður staður í bókinni, en í honum eru einungis auðar blaðsíður. Skiljanlega. Þar sem stríð er umfjöllunarefni er skilningurinn víðs fjarri.

Það eru 42 ljóð í bókinni. Einhvers staðar segir að 42 sé svarið við hinni endalegu spurningu um lífið, alheiminn og alltsaman. Það er vel viðeigandi, þar sem Natasha sækist eftir svörum, þótt þau séu ekki vel finnanleg, samanber hinn auða Skilningskafla í lokin.

Sum ljóðaheiti endurtaka sig aftur og aftur. Í bókinni eru t.a.m. þrjú ljóð sem heita „Rústir“, (eitt í hverjum kafla), þrjú sem heita „Draumur“, fimm „Nútímasamtöl“ og fjögur sem heita „Þráður“.

Titill bókarinnar gefur til kynna að höfundur/ljóðmælandi hafi þurft að læra tungumál á meðan stríð geisar. Tungumálið er forsenda skilnings og eru tungumálapælingar víða í verkinu. Ljóðmælandi er að fóta sig í tungumáli sem ekki er hennar eigið og jafnframt er henni hugleikið  tungumál innrásarþjóðarinnar, hennar móðurmál, og mál þeirrar þjóðar sem ráðist er gegn.

Í ljóðinu „Úkraínska fyrir byrjendur“ dreymir hana að hún yrki ljóð á úkraínsku og hún er hissa á því að hún geti það og hversu fallega það hljómar. En eitthvað gerist, hún aftengist merkingunni og fangar bara eitt orð sem þýðir ‚föðurland‘ á rússnesku en ‚fjölskylda‘ á úkraínsku. Skilningsvana frammi fyrir stríðinu er hún ofurmeðvituð um skyldleika þjóðanna:


Rússneska fyrir fjölskyldur
 

föðurland snýr frá
móðurmál þagnar
bræðrastríð hefst
systurborg springur


Strengurinn sem bindur fjölskyldur saman – eins og ljóðmælandi finnur vel fyrir í átökunum við sína eigin fjölskyldu vegna stríðsins – er líka til staðar á milli þjóða.

*

Óhjákvæmilega lítur ljóðmælandinn til baka og hugleiðir rætur sínar.

Í ljóðinu „Hefð“ skoðar hún ljósmyndir með móður sinni og systrum. Gamlar myndir af afa í hermannafötum, nýlegri myndir af systrunum í hermannafötum í skólaleikriti  og „í fremstu röð í salnum / sitja gamlar stríðshetjur / á sparifötum þeirra / hanga orður“ (38) Allir kunna söngtextana og eru snortnir yfir leik barnanna, sem í lokin heiðra gamlingjana með blómum. Misræmið er mikið á milli þess sem þá var sagt og nú er vitað.
 

takk fyrir friðinn
takk fyrir sigurinn
takk fyrir bjarta framtíð


Sagnir af stríði eru bókstaflega skrifaðar í landslag heimalandsins. Í ljóðinu „Götukrakkar“ fylgjum við börnum að leik, þar sem þau renna sér á rúlluskautum um Sigurgarðinn, fara í eltingarleik í kringum Sigursafnið og hlaupa við Hetjustíg. Alls staðar eru nöfn sem minna á stríð, sigur, byltingu, hetjuskap, frið. Ljóðið fylgir börnunum áfram upp í háskóla, þar sem vonin um breytingar dafnar, en fær óvæntan endi:


Í lélegu símasambandi
héldumst við í hendur
til að týnast ekki
um múginn fór alsæla
við tilhugsunina um breytingar
raddir okkar samhljóma

við trúðum á bjarta
framtíð
barin með kylfum


Framtíðarsýn þeirrar konu sem skoðar samtíð sína í ljóðinu „Járntjaldið“, þremur síðum aftar í bókinni, er óhugnanleg og ekki einungis er þar lélegt símasamband, heldur hefur verið slökkt á netinu og öll skilaboð ritskoðuð.

*

Sektarkennd og ýmsar flóknar tilfinningar eru ráðandi í Máltöku á stríðstímum, til dæmis sektin yfir nýstofnuðu ástarsambandi.

Ástin sem lætur á sér kræla strax á fyrstu síðu bókarinnar (hún fer á fyrsta stefnumótið þegar stríðið hafði geisað í sólarhring) er leyndarmál, eins og segir í samnefndu ljóði: „ég segi engum frá honum / tek myndir / gái svo í símann / hvort hann sé í alvöru til. (35)

Málshátturinn ‚Allt er leyfilegt í ástum og stríði‘ er ekki nálægur málheimi bókarinnar. Það þarf að fela ástina, þar sem hún er eiginlega ekki við hæfi, en samt skýst hún allsstaðar fram.


það er hlýtt og blautt
eitthvað létt í maganum
kannski er það ný tegund af skömm
yfir að hafa það svona gott
í miðju stríði
eða ótti um
að ég verði skotin


Tvíræðnin í því að verða „skotin“ í miðju stríði er lýsandi fyrir tempraða og ansi hreint heillandi glettni sem sést víða í Máltöku á stríðstímum. Undir textanum er þó sorgin svo sár að ástin kemst eiginlega ekki að.

*

Í upphafsljóðinu skrifar ljóðmælandi á póstkort sem hún sendir til sjálfrar sín, þá stödd í erlendri borg. Í lokaljóðinu fær hún svo óvænt póstkort og meðtekur uppörvandi kveðjur, þar sem hún m.a. ráðleggur sjálfri sér að gleyma ekki að anda og skrifa.

Á meðan póstkortið ferðast yfir höf og lönd flæða ljóðin fram, bæði blátt áfram og fögur, þótt átökin í textanum séu hörð og umfjöllunarefnið grafalvarlegt. Það er glettni í stílnum og fagmannlega spilað á tvíræðni tungumálsins.

Ljóð Natöshu S. gera það sem góð ljóð gera, þau vekja til umhugsunar og þau gleðja. Hún er vinsamlegast beðin um að halda áfram – bæði að anda og skrifa.
 

Þórunn Hrefna, nóvember 2022