Beint í efni

Snjóblinda

Snjóblinda
Höfundur
Ragnar Jónasson
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2010
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Ingibjörg Rögnvaldsdóttir

Höfundurinn, Ragnar Jónasson þekkir greinilega til á Siglufirði og ég stóð sjálfa mig að því að rifja upp hvar einstaka götur eru í bænum, sá fyrir mér Ráðhústorgið og bíóið eins og það var fyrir rúmum 30 árum þegar ég var að alast þar upp. 

Snjóblinda er önnur glæpasaga Ragnars, en sú fyrri, Fölsk nóta, kom út fyrir ári. Ragnar er hins vegar vanur þýðandi, hefur meðal annars þýtt margar af bókum Agöthu Christie yfir á íslensku.

Ég verð að játa það að ég hef ekki lesið Falska nótu en þegar ég hóf lestur Snjóblindu sá ég að um framhald hennar er að ræða. Það kom hins vegar ekki að sök, höfundi tókst að vekja hjá mér löngun til að lesa fyrri söguna með því að koma því til skila að aðalpersónurnar ættu sér fortíð sem þar væri sagt frá, án þess að segja svo mikið að allt sem þar gerist komi fram í nýju bókinni.

Snjóblinda hefst á því að lögregluskólaneminn Ari er að ljúka námi og býðst í framhaldi af því staða við lögregluembættið á Siglufirði. Hann er nýbyrjaður að búa með kærustu sinni, læknanemanum Kristínu, sem ekki verður par hrifin af framtíðarplönum unnustans. Enda fer það svo að Ari fer einn norður en Kristín verður eftir í Reykjavík.

Á Siglufirði hittir Ari fyrir sér vanari menn í lögreglustarfinu, þá Tómas og Hlyn, en sá fyrrnefndi er yfirmaður stöðvarinnar, gamall Siglfirðingur sem alla þekkir í bænum. Margar persónur eru kynntar til sögunnar, innanbæjar- jafnt sem aðkomumenn, meðal annars stúlkan Ugla sem flutt hefur til Siglufjarðar vestan frá Patreksfirði. Höfundur dagsetur kafla sögunnar og staðsetur hana þannig í samtímanum en Ari kemur til Siglufjarðar seinni part ársins 2008 og eftir áramótin fara vofeiflegir atburðir að gerast kringum leiksýningu leikfélagsins í bænum.  Þegar Ari kemur norður er liðið á haustið og fannfergi og innilokun setja mark sitt á söguna og hafa mikil áhrif á líðan hans. 

Sjóblinda er lipurlega skrifuð og flétta sakamálasögunnar gengur fyllilega upp. Það sem helst má að frásögninni finna er að hún er óþarflega margorð og hægt hefði verið að koma innilokuninni og snjóþyngslunum betur til skila  með því að segja minna, endurteknar lýsingar á veðurfarinu og áhrifum þess á aðkomumanninn Ara verða frekar til þess að draga úr áhrifunum en hitt. 

Af því ég veit að Ragnar hefur þýtt margar sögur Agöthu Christie er freistandi að skoða hvernig hann nýtir sér ýmis trix frá þessari drottningu sakamálafléttunnar, til dæmis innilokunina og grunsamlegu aðkomumennina en einnig þemað um fávísu þjónustustúlkuna og  glæpi fortíðar sem hér fylgja persónum frá erlendum stórborgum til íslenskra smábæja.

Ragnar Jónasson er höfundur sem vert er að fylgjast með, endirinn bendir til þess að lesendur eigi eftir að heyra meira af lögreglumanninum Ara, hvort sem hann verður áfram fyrir norðan eða heldur á nýjar slóðir. 

Ingibjörg Rögnvaldsdóttir, nóvember 2010.