Beint í efni

Sonur stjarnanna og Árdís

Sonur stjarnanna og Árdís
Höfundar
Grzegorz Rosinski,
 Jean van Hamme
Útgefandi
Fjölvi
Staður
Reykjavík
Ár
2007
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Sonur stjarnanna og Árdís
Höfundar
Grzegorz Rosinski,
 Jean van Hamme
Útgefandi
Fjölvi
Staður
Reykjavík
Ár
2007
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Það er orðið alllangt síðan myndasögur hafa verið þýddar á íslensku. Síðasta tilraunin til þess var gerð fyrir næstum áratug síðan þegar Nordic comics gaf út nokkrar bækur. Nú eru þær næsta upplesnar á bókasafninu líkt og aðrar og eldri þýðingar á myndasögum, en vinsældir þýddra myndasagna á bókasöfnum eru gífurlegar og vaxandi. Það er því kærkomið að fá spánnýjar þýðingar í hendurnar, þó að bækurnar sjálfar séu komnar nokkuð til ára sinna, en sagan af Þórgný hóf göngu sína í Belgíu árið 1977. Höfundarnir eru hinn belgíski Jean Van Hamme og pólski teiknarinn Grzegorz Rosinski en þeir eru báðir orðnir vel þekktir fyrir þessar vinsælu sögur.

Þó uppruninn sé belgískur er Þórgnýr norrænn, eins og nafnið gefur til kynna. Sögurnar gerast (aðallega) á víkingatímum og lýsa samfélagi miðalda. Þær eru þó alls ekki eingöngu raunsæar, heldur einmitt vel heppnuð blanda af hversdagsleika og ævintýrum, sem hinn pólski teiknari fangar af sérstakri list, en þó sögur Van Hamme séu góðar þá er ég enn hrifnari af teikningum Rosinskis.

Þórgnýr og Árdís voru fullorðin þegar þau birtust í fyrstu sögunum, en þegar vinsældir sagnanna voru tryggðar komu sögur sem sögðu frá fortíð þeirra og uppvexti. Þetta er algengt í myndasögum, fyrst er ný hetja kynnt til sögunnar, næsta fullsköpuð, en þegar vinsældirnar aukast þarf að fylla betur upp í myndina og segja frá bakgrunni hennar og fortíð, sem síðan leikur iðulega lykilhlutverk fyrir framrás sögunnar. Þannig er því farið með Þórgný, en í sjöundu bókinni er sagt frá æsku hans, en hann er fóstursonur víkingsins Leifs. Hann er utanveltu meðal víkinganna en vingast við dverg og aðstoðar hann í mikilvægri leit og miklu ævintýri og í lok sögunnar kemur í ljós hvaðan drengurinn er upprunninn, en hann er barn stjarnanna, síðasti afkomandi deyjandi mannkyns frá fjarlægri plánetu í framtíðinni. Þessi upprunasaga minnir dálítið á aðra velþekkta hetju myndasagnanna, en hinn bandaríski Súpermann var einmitt líka síðasti afkomandi deyjandi kynþáttar á fjarlægri plánetu. En þar enda líkindin, sagan af Þórgný gerist eins og áður sagði á miðöldum, Súpermann sögurnar fjalla hins vegar um nútímann. Að auki gengur Þórgnýr ekki í búningi, né býr yfir ofurstyrk þó vissulega sé hann afskaplega fimur.

Sagan af æsku Árdísar er sömuleiðis sögð í miðri seríu, en hún er höfðingjadóttir. Þegar faðir Þórgnýs deyr er Árdís sú eina sem vingast við Þórgný og sinnir honum og segist ætla að verða konan hans og bjargar honum ítrekað úr klemmum, auk þess sem hún lendir sjálf í ýmsum ævintýrum. Þrátt fyrir að aðaláherslan sé á Þórgný og hetjuskap hans, þá er Árdís ekki bara sýnd sem viðhengi hans, heldur bæði öflug og kraftmikil í sjálfri sér og margar bókanna fjalla um hana eingöngu.

Í ævintýrum beggja koma norrænir guðir og goðmögn við sögu og að því leyti minna sögurnar nokkuð á hinar geysivinsælu Goðheima bækur sem þýddar voru fyrir næstum tveimur áratugum, en hurfu svo af markaði á óskiljanlegan hátt þrátt fyrir að njóta enn mikilla vinsælda á Norðurlöndum. Stíll þeirra sagna sór sig nokkuð í ætt við kunnuglegar evrópskar myndasögur eins og Ástrík, en þar ríkja hreinar línur og frekar einfaldir litir. Stíll Rosinskis minnir hinsvegar meira á nýrri evrópskar sögur, línurnar eru lausari og litapalettan all óvenjuleg og dregur á áhrifamikinn hátt fram ólíka birtu og skapar ósvikinn ævintýrablæ.

Það er verulegt fagnaðarefni að fá þessar sögur í íslenskri þýðingu og vonandi verður þetta framtak til þess að endurlífga frekari þýðingar á erlendum myndasögum.

Úlfhildur Dagsdóttir, október 2007