Beint í efni

Spor

Spor
Höfundur
Lilja Sigurðardóttir
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2009
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Ingvi Þór Kormáksson

Raðmorðingi gengur laus í Reykjavík. Áhugi hann virðist beinast að óvirkum alkóhólistum en þeim kemur hann fyrir kattarnef með ýmsu móti. Hugsanlega tengjast þessi morð reynslusporunum tólf sem óvirkir fíklar hafa sér til leiðbeininga á lífsins vegi. Aðalsöguhetjan í skáldsögunni Spor heitir Magni og er rétt að skríða úr afvötnun í upphafi sögu. Fyrrverandi eiginkona hans er rannsóknarlögreglumaður og munstrar Magna sem hjálparkokk sinn eða ráðgjafa og á hann að reyna að þefa uppi grunsamlega karaktera á fundum óvirkra alkóhólista. Í ljós hefur komið tenging við þau samtök, en þetta eru náttúrlega AA-samtökin þótt þau séu ekki nefnd á nafn í sögunni.

Þessi fyrsta bók Lilju Sigurðardóttir er allrar athygli verð. Hún er greinilega vel ritfær og tekst ágætlega að halda athygli lesandans með læsilegum texta. Það er líka þokkaleg spenna í sögunni, svona framan af. Höfundur sýnir nokkra dirfsku með því að hafa óvirka alkóhólista og samtök þeirra í forgrunni enda fer þar minnihlutahópur sem ekki allir eru sáttir við. Reynslusporin tólf eru líka áberandi í sögunni eins og sjá má af titlinum og kunna sumir því eflaust ekki illa en öðrum kann að leiðast óskaplega að fá svona mikla kynningu á þeim aðferðum sem notaðar eru til að viðhalda edrúlífi fíkla. Einnig lýsir það nokkurri dirfsku að nota raðmorðingjaþemað enda hefur það af eðlilegum ástæðum lítið verið notað í íslenskum glæpasögum til þessa.

Það telst galli að áður en maður er hálfnaður með lesturinn þykist maður nokkuð viss um hver morðinginn er og sú ágiskun reynist rétt. Höfundur reynir að vísu að dreifa athyglinni frá þeirri persónu og lætur Magna fara að eltast við annan karakter en maður veit alveg að það er ekkert vit í þeim grunsemdum. Spennuþáttur sögunnar hefur þar með minnkað verulega. Þá er líka orðið ljóst hvaða ástæður liggja að baki morðunum. Þegar á líður missir frásögnin að auki trúverðugleikann og fær á sig blæ ódýrs pölp-reyfara, morðin einfaldlega orðin of mörg og allt vesenið í kringum þau frekar yfirkeyrt. Hugmyndin að fléttunni er þannig séð góð þótt útfærslan í heildina mætti hafa tekist betur; erfitt er að taka trúanlega ástæðuna fyrir morðunum. Ástæður raðmorðingja eru vissulega ekki rökréttar og því vart hægt að meta þær af eðlilegri skynsemi en hér þarf lesandinn að teygja sig ansi langt til að trúa því sem gerist.

Vangavelturnar um sporin eru að mörgu leyti áhugaverðar og eiga fullan rétt á sér í bók á borð við þessa. Trúarþáttur sporanna er umdeilt fyrirbrigði enda farið fyrir brjóstið á mörgum. Á endanum gerist maður þó eilítið þreyttur á allri fræðslunni sem því miður mun tæplega laða fólk að samtökunum ónefndu.

Þrátt fyrir galla í byggingu sögunnar er margt vel gert. Samtöl eru óþvinguð og eðlileg. 101-R hverfið er ljóslifandi fyrir hugskotsjónum lesandans. Þeir sem eru forvitnir um viss samtök fá líka eitthvað fyrir sinn snúð. Persónur þær sem tengjast samtökunum eru sæmilega lifandi nema kannski "vondi kallinn" sem er hálfgerður vandræðagripur í fleiri en einni merkingu, löggurnar eru svolitlar pappalöggur en allt í lagi með það.

Spor er að mörgu leyti góð glæpasaga, vantar aðeins herslumuninn. Það hlýtur að mega búast við meiru frá þessum höfundi í framtíðinni.

Ingvi Þór Kormáksson, nóvember 2009