Beint í efni

Stórar tilfinningar, hryllingur, leikgleði og ömmur

Stórar tilfinningar, hryllingur, leikgleði og ömmur
Höfundar
Lolita Séchan,
 Camille Joudry
Útgefandi
AM forlag
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Barnabækur
Stórar tilfinningar, hryllingur, leikgleði og ömmur
Höfundar
Mary-Sabine Roger ,
 Marjolaine Leray
Útgefandi
Drápa
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Barnabækur
Stórar tilfinningar, hryllingur, leikgleði og ömmur
Höfundar
Meritxell Martí ,
 Xavier Salomó
Útgefandi
Drápa
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
Kristín Lilja

Ömmur eru stórkostlegar. Þær eru hlýjar, fyndnar, vitrar, góðar og svo endalaust margt fleira. Það hlýtur því bara að vera að bækur um ömmur séu prýddar þessum kostum líka og svo endalaust mörgum fleiri. Hér á eftir fylgir umfjöllun um þrjár nýútkomnar barnabækur sem allar eiga það sameiginlegt að hafa ömmu í persónugalleríinu. Bækurnar sem um ræðir eru Feluleikur eftir Lolitu Séchan og Camille Joudry í þýðingu Sverris Norlands,  Stóri Grrrrr - Þröskuldur þolinmæðinnar eftir Mary-Sabine Roger og Marjolaine Leray og Skemmtilega og skelfilega húsið hennar ömmu eftir Meritxell Martí og Xavier Salomó, báðar í þýðingu Elínar G. Ragnarsdóttur. Bækurnar eru allar ríkulega myndskreyttar og textinn er tilvalinn til upplestrar fyrir leikskólabörn eða fyrir nýlega læs börn til að spreyta sig sjálf á.

Skemmtilega og skelfilega húsið hennar ömmu er saga sem er ekki öll þar sem hún sýnist. Í fyrstu virðist hún fjalla um ósköp venjulegan strák sem fer í heimsókn til ósköp venjulegrar ömmu sinnar en fljótlega kemur í ljós að í húsinu hennar ömmu er ýmislegt dularfullt á seyði. Bókin er flipabók þar sem hin ýmsu herbergi í húsi ömmunar virðast hversdagsleg en þegar fliparnir eru opnaðir leynast óhugnalegir hlutir á bak við þá.

Í fyrstu, eftir að strákurinn kemur inn í anddyri hússins er yfirbragðið mjög drungalegt og börnin mín urðu dálítið smeyk. Þar má sjá beinagrind undir gólffjölunum og málverk sem opnar augun þegar flipinn er opnaður. En strax á næstu opnu er bjartara yfir og augljóst er að strákurinn er ekkert hræddur við allan óhugnaðinn. Þá fór börnunum mínum að finnast atburðarásin bæði spennandi og spaugileg. Strákurinn ferðast í gegnum húsið í leit að ömmu sinni og er að flýta sér, hann má ekki verða of seinn, en hvers vegna er ekki látið í ljós fyrr en undir lok bókarinnar. Þá komast lesendur að því að amman er í raun galdranorn og strákurinn sjálfur er varúlfur sem fer alltaf í heimsókn til ömmu sinnar á fullu tungli.

Hrekkjavakan er nýafstaðin og þá eykst áhugi barna á öllu óhugnalegu. Fjögurra ára sonur minn er virkilega áhugasamur um hinar ýmsu myrkraverur og bregður sér í hlutverk varúlfa og beinagrinda á hverjum degi. Hann er engu að síður hræddur við þetta allt saman en sækir þó í tilfinninguna sem fylgir því að vera dálítið smeykur. Þetta þekkja allir aðdáendur hryllingsbókmennta og –kvikmynda. Það er spennandi tilfinning að láta hræða sig smávegis (eða helling) í gegnum skáldskap. Við þurfum smá hræðslu og spennu í lífið og það er gott að geta upplifað þessar tilfinningar í öryggi með því að ögra sér alltaf aðeins meira í gegnum lestur eða áhorf. Þetta þekkir myndhöfundur bókarinnar, Xavier Salomó, greinilega en hann tileinkar bókina minningu ömmu sinnar sem leyfði honum að horfa á hryllingsmyndir og borða popp.

Ég varð aðeins efins þegar ég sá skilaboðin á kápu bókarinnar um að það ætti ekki að opna flipana. Mér varð hugsað til bóka sem hafa komið út undanfarin ár sem gera út á að börn eigi ekki að hlusta á þegar þau eru beðin um að láta eitthvað vera, t.d. að fletta á næstu síðu eða snerta skrímsli með spennandi áferðum. Slíkt finnst mér tímaskekkja og kenna þeim að virða ekki mörk í heimi þar sem við erum alltaf að verða meðvitaðri um hvað það er mikilvægt að hlusta á og virða mörk annara manneskja sem við eigum í samskiptum við. En í þessari bók er annað uppi á teningnum, með því að opna flipana eru þau að ögra sjálfum sér og þora að takast á við óttann. Það eru hvergi annars staðar skilaboð um að ekki eigi að opna flipana og það sem leynist á bak við þá er oft alveg sprenghlægilegt.  

Stóri Grrrrr – Þröskuldur þolinmæðinnar segir frá Stóra Grrrrr sem rekur flutningsþjónustuna Grrrofsafljótur sem lofar afhendingu á mínútum. Þegar lesendur koma inn í söguna er Stóri Grrrrr á leiðinni með pakka í lítið fallegt hús. Stóri Grrrrr hringir bjöllunni en fær ekkert svar. Þolinmæði er ekki hans sterkasta hlið og ekki líður á löngu þar til hann hefur gjörsamlega rústað húsinu vegna þess að enginn kemur til dyra. Þá komast lesendur að því að litla fallega húsið er í eigu mjög, mjög gamallar ömmu sem hafði brugðið sér út í búð og var þess vegna ekki heima. Pakkinn er afmælisgjöf frá barnabörnunum hennar og hún er svo ánægð með gjöfina að hún verður ekkert reið við skömmustulegan Stóra Grrrrr. Stóri Grrrrr endurbyggir svo húsið fyrir ömmuna á meðan hún hjúfrar sig í flutningabílnum hans og les innihald pakkans, rómantískar ástarsögur.

Myndirnar eru einfaldar teikningar sem minna á þær sem börn teikna sjálf með trélitum. Förin eftir litina eru sjáanleg og eru sérstaklega gróf í sjálfum Stóra Grrrrr. Myndirnar eru aðeins í tveimur litum, bleikum og gráum og kjarnast andstæður persónanna tveggja í beitingu litanna. Stóri Grrrrr og bíllinn hans eru gráir og grófir en amman, húsið hennar og pakkinn sem á að berast henni, eru bleik og línurnar mýkri og blíðari. Áhrifamikil opna er fyrir miðju bókarinnar þegar Stóri Grrrrr er orðinn alveg brjálaður í skapinu. Hann stendur með útréttar hendur og kreppta hnefana og rekur upp öskur. Á meðan bylja á honum bleikir regndropar. Enginn texti er á opnunni en myndin er mjög áhrifarík og skilar tilfinningum Stóra Grrrrrs til barnanna.

Flest þekkja þau það eflaust að missa stjórn á skapi sínu. Óþolinmæði er tilfinning sem er mjög sterk hjá litlum börnum og sumir fullorðnir ná aldrei að hrista hana af sér. Sagan um Stóra Grrrr sýnir hvernig óþolinmæði og reiðin sem brýst út í kjölfar hennar eru oftar en ekki byggðar á óraunhæfum kröfum og iðulega er alveg rými til þess að doka aðeins við. Stóri Grrrrr var sjálfur búinn að setja sér þær kröfur að afhenda pakkann á mínútum, en viðtakandinn bjóst ekkert við honum svo fljótt. Enda verður amman ekkert vonsvikin þegar Stóri Grrrrr hefur rústað húsinu hennar, hún er svo ánægð með gjöfina sína að hún setur það ekkert fyrir sig að bíða meðan hann leiðréttir mistök sín.

Feluleikur er myndasaga sem segir frá Núk og Bartok sem fara í feluleik, Bartok telur og Núk felur sig. Leikurinn hefst inni á heimili Bartoks en færist fljótlega út í garð og þaðan yfir á og út í skóg á meðan Núk leitar að nógu góðum felustað. Talning Bartoks ferðast í gegnum fyrstu opnurnar í talblöðru sem teygir sig yfir alla opnuna yfir á þá næstu. Þannig nýtir sagan myndasöguformið á skemmtilegan máta. Það gerir hún líka þegar amma kemur til sögunnar og byrjar að tala. Aðrar persónur tala í þægilegu letri en amman talar með tengiskrift sem nýlega læsum börnum þykir erfitt að ráða fram úr. Þannig er aldur og fornt far ömmunnar undirstrikað.

Myndirnar í römmunum er mjög litríkar, heimili Bartoks er þakið mynstruðu veggfóðri og á hverri opnu má sjá mörg lítil, vel úthugsuð smáatriði sem lesendur geta dokað lengi við þó textinn taki ekki langan tíma í lestri. Það er skemmtilegt hvernig lesendur fá að fara tvisvar í sama ferðalagið í sögunni. Fyrst þegar Núk leitar að felustað og síðan þegar Bartok leitar að henni. Ýmsar aukapersónur verða á vegi þeirra beggja og við sjáum afleiðingar þess sem hefur á daga þeirra drifið frá því að Núk hitti þær og þangað til Bartok kemur á staðinn. Þannig eru margar hliðarsögur sem lesendur fá einungis nasaþef af þegar aðalpersónurnar hlaupa í gegnum þær. Núk og Bartok standa alltaf út úr, þau eru svarthvít í litríku umhverfinu sem undirstrikar það að þau eru ekki hluti af öllum þeim atburðum sem þau verða vitni að. Þau eru í feluleik.

Það sem er líka áhugavert að sjá er hvernig Núk og Bartok taka ólíkt á þeim aðstæðum sem þau lenda í. Núk er varfærnari, hún fer á báti yfir ána og hryllir sig við skordýrum sem hún finnur í trjábol sem hún ætlar að fela sig í. Bartok aftur á móti syndir yfir ána og hámar svo í sig skordýrin. Að lokum finnur Bartok Núk en hún hefur þá gert merkilega uppgötvun í skóginum. Hún er búin að finna grimman úlf sem sefur í hengirúmi. Þau flissa og gera gys að úlfinum og hann vaknar og byrjar nýjan feluleik þar sem ekkert er talið, bara hlaupið af stað. Það er alls ekki skýrt hvort úlfurinn er í alvöru grimmur og ljótur. Börnin hlaupa frá honum en það gæti allt eins verið hluti af leiknum. Sagan endar þannig í óvissu en með leikgleðina á lofti.

Bækurnar sem hér hefur verið fjallað um eiga það allar sameiginlegt að skarta skemmtilegum persónum, litrófi tilfinninga og ömmum. Varúlfurinn fer á flug með ömmu sinni galdranorninni eftir skelfilegt en skemmtilegt ferðalag í gegnum Skelfilega og skemmtilega húsið hennar ömmu. Stóri Grrrrr lærir að flýta sér hægar og kannski grípur hann í rómantíska ástarsögu þegar hann hefur lokið við að laga húsið hennar ömmu. Núk og Bartok þjóta í gegnum skóginn í felum frá úlfinum í Feluleik. Vonandi rekst hann ekki á ömmu þeirra í garðinum heima. Ömmur eru stórkostlegar og bækur þar sem þær koma fyrir eru það líka.
 

Kristín Lilja, nóvember 2022