Beint í efni

Suðurglugginn

Suðurglugginn
Höfundur
Gyrðir Elíasson
Útgefandi
Uppheimar
Staður
Reykjavík
Ár
2012
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Gunnþórunn Guðmundsdóttir

Rithöfundurinn í Suðurglugganum, nýjustu skáldsögu Gyrðis Elíassonar, reynir að skrifa bók á olivetti ritvélina sína sem er með bilað b. Hann drekkur þó nokkuð af kaffi, en líka bjór, einu sinni danskan bjór með 1944-réttinum sem honum finnst hálf ómóralskt. Hann á í basli með fólkið sem er að skrifa um, sem er fúllynt í sumarfríi í Tyrklandi. Hann fær of mörg símtöl frá móður sinni, of fá frá konunni sem hann skrifar bréf en sendir ekki.

Verkið er í formi eins konar dagbókar rithöfundarins, stutt brot sem skipt er í fjóra hluta árstíðanna sem gefa til kynna stefnu verksins, frá vori til vetrar. Á milli brotanna eru svo fyrirsagnir á víð og dreif; fréttir eða einhvers konar yfirlýsingar sem mynda mjög skemmtilega samræðu við textabrotin. Sögumaður lýsir einsemd, skrifum og sérkennilegum samskiptum við fólkið í þorpinu þar sem höfundurinn dvelur í einhvers konar útlegð, líkt og listamaðurinn í Sandárbókinni, skáldsögu Gyrðis frá 2007. Þessar tvær bækur kallast stöðugt á og eru hluti af ákveðinni hefð innan bókmenntanna, bækur um sköpun, skrif, um hlutskipti rithöfundarins og vangaveltur um hvernig bækur og listaverk verða til. En Suðurglugginn sker sig frá ýmsum slíkum verkum því höfundur forðast stöðugt einhvers konar upphafningu eða hyllingu. Miklu frekar er skrifunum lýst fyrst og fremst sem veseni: pirrandi persónur sem höfundinum tekst ekki að gera neitt með, biluð ritvél sem í vantar borða, aðstæður allar einhvern veginn á skjön.

Tónninn í verkinu er sérlega vel heppnaður og ekki alveg einfalt að lýsa honum, því Gyrðir nær utan um svo margvíslegar mótsagnakenndar stemningar í óþvinguðum texta: hinn algjöra hversdag, fullkomnar furður, einmanaleika og depurð, orðaleiki og aulabrandara, sambandsleysi við umheiminn í bland við nákvæma eftirtekt eftir öllu sem þar gerist. Vandi höfundarins hefur sjaldan verið orðaður betur, en maður hlær líka upphátt, ekki síst gladdi þennan lesanda þegar smiðurinn var að taka í sundur pallinn fyrir framan hús í grenndinni svo ‚hún var orðin verönd sem var‘ (83).

Þetta er ákaflega hrífandi verk sem maður ætti helst að lesa á jólanótt, í svörtu húsi, í litlu þorpi með snjóskafla fyrir utan gluggann og sérkennilega nágranna í einkennilegum erindagjörðum.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, desember 2012