Beint í efni

Sumartungl

Sumartungl
Höfundur
Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson
Útgefandi
Dimma
Staður
Reykjavík
Ár
2016
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Rósa María Hjörvar

Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson hefur sent frá sér rúman tug ljóðabóka á löngum ferli. Hann hefur einnig samið fjölda söngtexta, ritað barnabækur og þýtt ljóð og barnabækur úr ensku, norsku og sænsku. Fyrsta ljóðabók hans, Skyndivísur af skólabekk, kom út árið 1976 og Ósánar lendur fylgdu eftir árið 1977. Sumartungl er fyrsta ljóðabók Aðalsteins síðan Sjálfsmyndir komu út árið 2012.

Sumartungl telur rúmar 70 síður með stuttum  athugasemdakafla. Bókin sameinar það tvennt sem felst í nafni hennar, annarsvegar tunglið – melankólíu, hina hrjóstugu auðn; og hinsvegar sumarið – frjósemi, von og gleði. Þessi tvö þemu, ást og tregi, gleði og missir togast á í verkinu og úr verða mörg hugljúf og falleg ljóð. Sum ljóðanna hafa verið gefin út áður, á íslensku og ensku í bókinni Ruin Memories (Routledge, 2014).

Ljóðin lýsa mörg hver trega og eftirsjá, eins og til dæmis ljóðið „Ósk um Ösku“ þar sem ljóðmælandinn brennir það sem eftir stendur án þess að takast að eyða því sem máli skiptir: „Allt nema rústir / hugsaði hann, allt / nema niðurdrepandi / fúabrakkið, sargandi / beyglaðar blikkdræsur“ (bls. 16).

Einmannaleikinn er ávallt til staðar, líkt og í ljóðinu „Bergdrangi“ þar sem nokkrir steinar standa einir eftir af gömlu merki og einmanaleiki þeirra speglast af stökum hrafni sem sveimar yfir. Bergdrangarnir hugsa aftur til áhugaverðari tíma og ljóðið er ekki laust við nostalgíu.

Myndmálið er kunnuglegt. Við erum oftast stödd í Reykjavík nútímans, þó við bregðum okkur einstaka sinnum af bæ og þá til dæmis til ljóðinu „Morgunn við Skáldaflóa“ þar sem ljóðmælandi rifjar upp þá sorglegu atburði sem tengjast andláti hins unga P.B. Shelley. Hér eru treginn og eftirsjáin, sem lita mörg ljóða bókarinnar, mjög svo í forgrunni.

En það er ekki einungis hin skáldlega upphafning sem ræður ríkjum, við kynnumst líka vessunum; horinu, blóðinu og legvatninu. Þeim er lýst sem „marglit undirdjúp/ freyðandi hafsjór.“

Sum ljóðana eiga það til að lokast um sig sjálf og það er stundum erfitt fyrir lesandann að finna leið inn í þau. Það á til dæmis við um ljóðið „Afleiðingar“, þar er lesandinn er hálfpartinn skilinn út undan og það er erfitt að átta sig á við hvern ljóðmælandi er að tala.

Höfundi tekst best til þegar hann vinnur úr einföldum myndum. Eins og til að mynda í ljóðinu „Leiðalok“, þar sem Reykjavík skreppur saman og: „Ófært úr draumi í draum / okkur sundlar við dyr / sem opnast ekki framar / út á stræti og torg / umflotin úfnum sjó“ (bls. 24). Bilið milli húsanna hverfur, séreinkenni leysast upp og þar með þær tengingar sem halda uppi minningum okkar og draumum. Þetta er einföld en mögnuð mynd sem er unnin úr reykvískum hversdagsleika.

Bókin lumar líka á einstaklega skemmtilegum ljóðlínum, líkt og í ljóðinu „xx“ þar sem segir: „eftirlitsmyndavél fylgist með þresti“, og lesandinn sér fyrir sér spígsporandi þröst á vappi fyrir framan hátækni eftirlitsgræjunnar.

Í lok bókarinnar er kafli með athugasemdum. Þær eru margar hverjar áhugaverðar og bæta við skilning og túlkun ljóðana. En staðsetningin er ekki sú besta, þær koma svo að segja aftan að lesendanum. Betra hefði verið að hafa þær sem formála að þeim ljóðum sem við á eða í neðanmálsgreinum svo lesandi gæti kynnt sér þær jafn óðum.

Rósa María Hjörvar, desember 2016