Beint í efni

Svar við bréfi Helgu

Svar við bréfi Helgu
Höfundur
Bergsveinn Birgisson
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2010
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Björn Unnar Valsson

Í Handbók um hugarfar kúa (2009) eftir Bergsvein Birgisson verða tvisvar sögumannaskipti. Sagan fjallar um menningarfræðidoktorinn Gest Sigurjónsson og geðveikina sem ágerist innra með honum eftir áfall í Hvalfirði. Gestur segir sögu sína í fyrstu persónu allt þar til andlegri heilsu hans hefur hrakað svo mjög að hann ,,hættir að segja frá” og næsti sögumaður tekur við. Gestur heldur þó áfram að færast inn í sjálfan sig og að því kemur að sögumaður númer tvö missir sambandið við hann. Hlutverk sögumanns er þá falið þeim þriðja, sem er öðrum fremur fær um að elta Gest inn í ,,Fjósið”, en þegar þar er komið sögu hefur Gestur svo til sagt skilið við veruleikann.

Hugmyndin er í sjálfu sér góð en hitt er annað að þessum þriðja og síðasta hluta bókarinnar, ,,Fjósinu”, er ofaukið. Skammlaust hefði mátt fækka sögumönnum um einn heilan og e.t.v. hefði lunginn úr ,,Fjósinu” gengið betur sem saga út af fyrir sig, án nokkurra tengsla við fyrri hluta Handbókarinnar. Nú er það með ást í hjarta sem ég ræðst á fyrra verk Bergsveins þegar ætlunin er að fjalla um nýja bók hans, Svar við bréfi Helgu, vegna þess að þar sem Handbókinni fipast flugið svífur Svarið hærra. Handbók um hugarfar kúa einkennist af mikilli hugmyndaauðgi, hún er skrifuð með talsverðum tilþrifum og lesandi fær á tilfinninguna að þar sé allt látið flakka, engu eirt og rykkt í alla þræði. Inni í henni logar eitthvað sem keyrir hana áfram, en þegar á því slokknar í síðasta hlutanum situr snarlega allt fast. Frásögnin í Svari við bréfi Helgu er aftur á móti taktviss og næm, þar er hægt og rólega undið ofan af stuttri sögu sem er samt -- eins og styttri sögur eru gjarnan -- talsvert stærri inn á við.

Svar við bréfi Helgu er í formi bréfs sem aldraður bóndi, Bjarni Gíslason á Kolkustöðum, sendir fyrrum ástkonu sinni, sem bjó eitt sinn á næsta bæ. Hann rekur söguna af því hvernig hann dregst að henni, hefur við hana samband og slítur því að lokum þegar hann neitar að flytjast með henni suður til Reykjavíkur. Þau eru þá bæði gift, en bóndi og sögumaður lýsir því vel og vandlega hversu snargeðveik og ómöguleg kona hans var, og að bóndi Helgu hafi ekki sinnt henni sem skyldi. Þetta tímabil kallar hann fengitíð lífs síns og sjálfur er hann ,,þokkaleg skepna”, hann þuklar Helgu eins og ærnar, dreymir hana í líki tröllskessu og sér brjóst hennar í þúfunum skammt utan við bæinn. Í frásögninni verður samband þeirra þannig náttúrulegt og óumflýjanlegt, hluti af framgangi lífsins í sveitinni eins og er með allar skepnur, og flóttinn á mölina aldrei inni í myndinni. Þannig reynir Bjarni með bréfinu að útskýra sína hlið málsins, eða að sannfæra sjálfan sig um að hann hafi þrátt fyrir allan vafa og eftirsjá breytt rétt.

Sjálf sagan af ástarævintýrinu gengur því skarkalalaust fyrir sig. Inn í hana fléttast styttri frásagnir af lífinu í Hörgárhreppi, heimabrugguð heimspeki og nokkrar vísur sem kastað er fram eftir efni. Bergsveinn heldur þessu öllu saman, með sögumanninum Bjarna. Hann skrifar Helgu mjög innilegt bréf í nokkuð skrautlegu máli, en textinn er þýður og tær eins og góðum sagnamanni sæmir: ,,Ég hef heyrt garnagaulið kallast á við þrumuna, lítill maður undir stórum himni; heyrt lækinn hvísla að hann sé eilífur. Gert jörðina að kærustu minni. Haft hönd á kröftugum laxi.” (80) Bjarni tekur sig og samband sitt við sveitina alvarlega, eða eins og hann segir nokkru áður: ,,Hér í sveitinni hef ég verið mikilvægur. Og hafi ég ekki verið mikilvægur, þá hefur mér fundist ég vera mikilvægur.” (78) Sveitin lifnar við í hugskoti Bjarna, enda er hún ástin fyrsta og síðasta í lífi hans þrátt fyrir fengitíðina björtu með Helgu. Í samanburði verða þær Helga og Unnur, eiginkona Bjarna, fremur sviplausar og sveitungarnir hálfgerðar fígúrur, en þau eru til þess gerð að þjóna stemningunum, tilsvörunum og svipmyndunum sem Bjarni dregur saman og þar er einfaldleikinn dyggð. Það væri forvitnilegt að fá að gægjast í sjálft bréfið hennar Helgu, og óvíst að sömu sögu mætti lesa úr því, en hitt er víst og rétt að Bergsveinn má vera stoltur af Svarinu. Handbók um hugarfar kúa lofaði góðu og Svar við bréfi Helgu uppfyllir þau loforð.

Björn Unnar Valsson, nóvember 2010