Beint í efni

Svik

Svik
Höfundur
Lilja Sigurðardóttir
Útgefandi
JPV
Staður
Reykjavík
Ár
2018
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Björn Halldórsson

Með bókinni Búrið, sem kom út 2017, lokaði Lilja Sigurðardóttir þríleik sínum um ástkonurnar Sonju og Öglu sem lesendur kynntust fyrst í Gildrunni (2015) og aftur í Netinu (2016). Hefur serían hlotið góðar viðtökur innan sem utan landssteinanna, en Lilja er með sama breska útgefanda og Ragnar Jónasson og hefur verið gaman að fylgjast með umsvifum hennar á viðburðum og bókahátíðum erlendis á vegum Orenda Books.

Svik er sett fram sem sjálfstæð bók en engu að síður er hún hluti af þeim söguheimi sem Lilja skapaði í þríleiknum. Meðal annars neyðist ein af aðalpersónunum til að heimsækja Litla-Hraun til að funda með höfuðpaur síðustu bókar Lilju, en  með því er ýjað að nýju plotti sem verður forvitnilegt að sjá hvort fái veigameira hlutverk í næstu bókum. Hér má auk þess finna mörg af höfundareinkennum Lilju—bæði er hliðarsaga um lesbískt ástarsamband sem og ýmsir karakterar sem ganga gegn siðferðisvitund sinni og þurfa síðan að berjast fyrir uppreisn æru sinnar. Líkt og í þríleiknum er hér ekki um að ræða beina lögreglurannsókn sem fylgt er í gegnum rannsóknarferli þó að persónurnar sem vinna að lausn gátunnar séu ekki beint almennir borgarar heldur.

Bókin er titluð sem pólitískur reyfari sem er einn af þeim undirflokkum glæpasagnageirans sem ekki hefur borið mikið á í íslensku glæpasagnaflórunni hingað til. Það virðist sem íslenska glæpasagan sé komin í heldur fastmótað form og verður gaman að sjá þá útúrsnúninga og tilfæringar sem nýir höfundar eiga eftir að bæta við þetta tiltölulega unga afsprengi íslenskra bókmennta. Fjölbreytileiki glæpasagnaformsins er í raun óendanlegur, þótt formúlan sjálf haldist annað hvort óbreytt eða leiki á lesendur með því að ganga þvert á eigin hefðir, og því ljóst að víða er óplægður akur fyrir íslenska glæpa sagnahöfunda. Ástríðan og átökin sem einkenna pólitíkina ættu til dæmis að vera  gjöfull jarðvegur fyrir morð og yfirhylmingar en samt hefur sögusvið íslenskra glæpasagna mestmegnis verið innan stofnana löggjafarvaldsins og í undirheimum Reykjavíkur. Aðalpersóna bókarinnar  er hinsvegar nýskipaður innanríkisráðherra Íslands sem þarf að leiða hugann að vegagerð og innflytjendamálum jafnframt því að takast á við þá háskalega atburðarás sem fer af stað eftir að hún tekur við embætti.

Sagan er spunnin út frá sjónarhornum fimm mismunandi persóna. Þar ber helst að nefna Úrsúlu sem er nýstigin í ráðherrastól eftir frækilegan framgang í hjálparstarfi í þriðja heiminum. Hún þjáist af áfallastreituröskun eftir æsinginn sem gerir henni erfitt um vik að tengjast fjölskyldu sinni og rólyndislífinu á Íslandi á nýjan leik. Þegar henni taka að berast  dularfullir miðar sem birtast á dyraþrepinu hjá henni sem og nauðgunar- og morðhótanir í gegnum tölvupóst, ákveður hún að þiggja þjónustu ráðherrabílstjórans, þrátt fyrir að hafa upphaflega ætlað að neita sér um slíkan munað til að sýna gott fordæmi. Þannig kynnist hún Gunnari, bílstjóra sínum, sem lítur fremur á sig sem lífvörð en ráðherrabílstjóra og gengur æði vasklega fram í starfi sínu til að tryggja öryggi Úrsúlu og hafa upp á þeim sem standa að baki hótununum.

Hinar persónurnar þrjár sem sagan hverfist um eru ógæfumaðurinn Pétur sem ráfar um götur Reykjavíkur, heltekinn af hugsunum um þá hættu sem yfir Úrsulu vofir af hálfu einhvers sem hann kallar einfaldlega „Djöfulinn“. Skúringastúlkan Stella sem vinnur í innanríkisráðuneytinu og sér þar ýmislegt úr sinni láglaunastöðu. Hún á sér einnig dularfullt  líf sem hálfgerð seiðkona og beitir íslenskum galdrastöfum í sífellu þrátt fyrir að vera upphafleg af suður-amerískum ættum. Hún sér einnig um að viðhalda því þema lesbískra ástarsambanda og tilfinningalífs sem voru í forgrunni í áðurnefndri trílógíu um Sonju og Öglu. Að lokum er það svo hin færeyskættaða Marita. Hún býr á Selfossi þar sem samfélagið hefur skipt sér í tvær fylkingar, með og á móti fjölskyldu hennar, eftir að eiginmaður hennar, lögreglumaðurinn Jónatan, er kærður fyrir nauðgun af unglingsstúlku í bænum. Svo vill til að á sínum fyrsta degi í ráðherrastóli einsetur Úrsúla sér einmitt að setja það mál í réttan farveg, en kæra stúlkunnar virðist hafa strandað einhverstaðar í kerfinu.

Hér er lagt upp með kunnuglega fléttu þar sem tveir eða fleiri mismunandi söguþræðir eru tvinnaðir saman í eitt stórt plott og knúnir áfram af persónum sem eru í litlu eða engu innbyrðis sambandi. Ekki eru þó allir söguþræðir bókarinnar jafn sterkir og er sumum undirþemum þeirra allt að því ofaukið—líkt og í tilfelli skúringastúlkunnar Stellu sem er í litlu hlutverki þegar kemur að því að fletta ofan af plottinu en fær þó æði drjúgt pláss í textanum. Hún er engu að síður eftirtektarverður karakter og hver veit nema Lilja ætli sér að beita henni frekar í öðrum bókum, nú þegar ljóst er að bækur hennar tengjast innbyrðis.

Kaflar Lilju eru knappir og er því skipt ótt og títt á milli karakteranna fimm. Slíkt ýtir undir hraðan og ákafan lestur—sem hjálpar bókinni að halda góðum dampi. Sökum þess hve kaflarnir eru stuttir þótti mér samt einkennilegt hve mikla þörf höfundur fann til þess að hamra endurtekið á tilteknum einkennum persónanna—hvort sem það var hjálparstarf Úrsúlu eða áherslur Gunnars á að hafa stjórn á skapi sínu í öllum aðstæðum. Þessar sífelldu endurtekningar verða eilítið þunglamalegar og sérstakleg eru upplifanir Úrsúlu í hjálparstarfinu í Líberíu og Sýrlandi dregnar fram svo oft að manni verður nóg um. Einna best útfærðir þóttu mér hinsvegar kaflar ógæfumannsins Péturs, en Lilja nær  að ljá honum sannfærandi rödd og gera ringulreiðinni í huga hans góð skil. Maður upplifir sig mun nákomnari honum en hinum karakterunum sem útlista flausturslega tilfinningalíf sitt fyrir lesandanum við minnsta tilefni.

Fléttan sjálf er alveg ágæt. Þótt mann sé vissulega farið að gruna eitt og annað þegar sígur á seinni hluta bókarinnar kemur það ekki að sök þar sem stór hluti af ánægju glæpasagnalesturs er einmitt að uppgötva lausn gátunnar á sama tíma og persónur bókarinnar—ekki á undan þeim eða á eftir. Þótt Svik jafnist ekki á við fyrrnefnda trílógíu er engu að síður ljóst að Lilja ætlar sér stórt hlutverk á vettvangi íslenskra glæpasagna—með fjórar bækur á jafn mörgum árum—og verður gaman að fylgjast með áframhaldinu. Sérstaklega ef hún heldur áfram að tengja saman bækur sínar og persónur svo að úr verður heildstæður sagnaheimur sem lesendur fara að þekkja og geta notið þess að heimsækja aftur og aftur.

Björn Halldórsson, 2018