Beint í efni

Teikn

Teikn
Höfundur
Guðrún Hannesdóttir
Útgefandi
Salka
Staður
Reykjavík
Ár
2012
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Teikn er þriðja ljóðabók Guðrúnar Hannesdóttur en áður hafði hún sent frá sér barnabækur og einnig sinnt myndskreytingum. Hún hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör árið 2007 og ljóðabækur hennar Fléttur (2007) og Staðir (2010) hlutu almennt jákvæðar viðtökur, enda um vönduð verk að ræða. Þó er ekki hægt að segja að Guðrún sé áberandi höfundur í íslenskum bókmenntum, það fór til dæmis ekki mikið fyrir henni og þessari bók í jólabókaumræðu síðasta árs. Þó hefði verið full ástæða til að gera smá hávaða: bæði var ekki mikið um ljóðabækur það árið og svo er bókin einfaldlega góð. Sem út af fyrir sig er mikilvæg ástæða til að vekja á henni athygli, koma ljóðum hennar ekki bara til sinna, heldur allra hinna, svo ég leyfi mér að skella fram asnalegum frasa – en slíkt bull myndi Guðrún aldrei láta um lyklaborð sitt fara.

Eitt einkenni Staða var þjóðsagnaþema, en á sínum tíma kenndi Helga Kress mér að það væru helst konur sem vísuðu til þjóðsagna í ljóðum sínum. Vissulega eru á þessu undantekningar (Þorsteinn frá Hamri og Gyrðir Elíasson koma strax upp í hugann), en þó get ég ekki betur séð en að Helga hafi haft rétt fyrir sér; heimur þjóðsögunnar virðist einfaldlega nærtækari kvenhöfundum, eins og sést meðal annars í ljóðum ólíkra skáldkvenna á borð við Þóru Jónsdóttur, Vilborgu Davíðsdóttur og Gerði Kristnýju (beygist eins og ný: G. Kristný, G. Kristnýrri, etc.). Afsakið, ég er aftur farin að bulla.

Það er eitthvað sem ég hef tilhneigingu til að gera þegar ég les góð ljóð, það losnar um eitthvað í huganum og allt fer á fleygiferð. Ég flissa eins og vitleysingur, ekkert endilega af því að ljóðin eru fyndin (sem þau reyndar eru oft hjá Guðrúnu) heldur vegna þess hvað flínk meðferð tungumáls getur verið mikill gleðigjafi.

Mig grunar að Guðrún viti vel af þessu, allavega birtist púki í ljóðinu, „umgangur (engill dauðans)“, sem reyndar er sál sem situr á bita, og hefur „safnað að sér forða sem þér sást yfir / fullum poka af ískrandi kátínu og gleði / sem ég hef gert ráðstafanir til að skili sér / á réttan stað að mér genginni“.

Þjóðsagnaþemanu fylgir svo oft einhverskonar náttúrusýn, sem þarf ekki að koma á óvart en auk þessa er ákveðinn andi eldri skáldskapar í bókinni, sem kemur hvað helst fram í leik með form, ljóðin leika mörg á mörkum þess að vera háttbundin. Og svo er líka vísað hingað og þangað, dónaljóð um Lousiu Bourgeois kallaði fram glatt glott og Kjarval fær að vera með – enda Guðrún tengd myndlistinni eins og áður hefur komið fram. Og af því ég nefndi Gerði Kristnýju áðan, þá er ekki úr vegi að benda á að báðar þessar skáldkonur hafa setið við sauma á síðasta ári: saumaskapur kemur við sögu í ljóðabálki Gerðar í Ströndum, „Skautaferð“, og í ljóði Guðrúnar, „í rökkri“ er einnig dundað við nál og tvinna:

þræddu augnaráðið
gegnum setningarnar
varlega
eins og svartan þráð
í lósvart klæði

notirðu letiþráð
verður ekki að sökum spurt
tapir þú þræðinum
færðu nálina beint í augað 

Ég ætla þó að halda mig á slóðum þjóðsögunnar, enda sló það mig sérstaklega í Stöðum hvað tök Guðrúnar á henni voru skemmtileg, og eru enn hér í Teiknum (sem ég kýs að telja fleirtöluorð í þessu tilfelli). Í ljóðinu „dans“ er vísað til þjóðsögunnar „Móðir mín í kví kví“, en þar er það útburðurinn sjálfur sem dansar. „Örfiri“ er dularfullt ljóð um fortíð sem er svo myrk að andskotinn lá „enn í vöggu / og nagaði hendur sínar // helvíti hafði ekki enn skotið rótum“, „skoffínið skríður / afturábak inn í eggið sitt“ og í lokin vex á ströndinni „stór steinn / beittur eins og vígtönn“. Þetta finnst mér skemmtileg vísnagáta og sjálfsagt er lausnin augljós öllum nema mér.

Í „mold“ er fjallað um örugga greftrun:

ég þríf handfylli og þeyti henni tilbaka

það er eins og enginn kunni til verka í
þessu landi lengur vita menn ekki að þegar
draugur er vakinn upp þarf að fara varlega að
mokstrinum annars liggur moldin aldrei kyrr
upp frá því

gusurnar ganga

Náttúrutilvísunin í moldinni, tákni frjósemi og landgæða – lands og þjóðar – umbreytist hér í krafti draugasögunnar og verður að sviði átaka. Samskonar viðsnúningur á fegurð náttúru er að finna í næsta ljóði, „jurt“, en það hefst á ljúfri lýsingu á jurt sem unir undir björkum, næfurkyrrð, ljómandi dögg, „og bikar blómanna / fullur af blíðustu þögn“. En þegar hlustað er grannt heyrist að rótin er „illvíg og eitruð / krækir fyrir stein og höfuðbein / inn um augu, út sem tunga / smýgur hún og sýgur ramma mold / vítisvatn og dómsdagsmyrkur“. Og hver er hún svo þessi rót? „Nafn mitt er malurt í ykkar munni / en innfæddir kalla mig / chernobyl“. Við þetta má bæta að malurtin er einnig mikilvægt efni í eðaldrykknum absinth, sem einmitt er grænn og fagur.

En það er fleira sem hér kemur til. Ljóðin í Stöðum búa yfir lymskulegri og snarpri ádeilu á þjóðfélagsmál og pólitík, gróðæri og hrun. Og ég get ekki betur séð en að í Teiknum megi einnig greina slíkt, án þess þó að gusurnar gangi. Helsta vísbending sem ég hef um að Guðrún skemmti sér við að skjóta á ýmis málefni er í eftirfarandi ljóði – sem segir í raun allt sem segja þarf (og um svo margt...):

úr þingræðum (vitjunartími)

góðir landsmenn!

nú eru veður válynd
og ýmsar blikur á lofti:

viðhlæjendur komnir
í vina stað
við skynjum hvorki
auðsýnda tryggð
né ríkidæmi okkar
til sjávar og sveita

aðeins eitt til ráða:

það verður
að margfalda
marbendlakvótann
umsvifalaust!

úlfhildur dagsdóttir, apríl 2013