Beint í efni

Þór: Leyndarmál guðanna

Þór: Leyndarmál guðanna
Höfundur
Friðrik Erlingsson
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2010
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
Ragnhildur Blöndal

Það er glaður og kraftmikill strákur sem flytur í Valhöll og er útnefndur Verndari frjálsra manna í annarri bók Friðriks Erlingssonar um þá félaga Þór Óðinsson og Mjölni, töfrahamarinn ógurlega. Saman þjóta þeir um himinhvolfið í vagni Þórs og slást við jötna á milli þess sem þeir leggja  fólkinu í Miðgarði lið. Það líður heldur ekki á löngu þar til Þór verður hvers manns hugljúfi enda er hann snöggur að bregðast við hverju kalli og hverri bæn. Mannkynið tekur að snúa sér beint til Þórs með vandræði sín og færir honum miklar fórnir í þakklætisskyni.

Það er fátt sem minnir á ólundarlega járnsmiðinn úr fyrri bók Friðriks, Þór í heljargreipum. Áhyggjulaust lífið í Valhöll hefur gert þá Þór léttari í bragði. Það er erfitt að ímynda sér að þeir, sem kátir og hamingjusamir kalla upp á dorrísku: „Við erum frábærastir og langsamlega bestastir!“ hafi þegar gengið í gegnum miklar mannraunir. 

Félagarnir galvösku hafa nóg að gera, enda komust gömlu guðirnir að því fyrir löngu, að því minna sem þeir gerðu, því meira fengu þeir borgað! Þegar goðin hættu svo með öllu að leggja hönd á plóg, varð ýmislegt mannkyninu mótdrægt. Mennirnir óttuðust að þeir hefðu reitt goðin til reiði og fórnirnar urðu bæði stærri og fleiri.

Þór telur það vera skyldu sína eftir að hann flytur í Valhöll að leggja mannkyninu lið. Gömlu goðin njóti ávaxtanna af erfiði Þórs en þola illa vaxandi vinsældir hans. Þau ákveða að grípa til sinna ráða.  

Í þeirri spennandi atburðarás, sem nú fer í hönd, þarf Þór að kljást við ill öfl og vætti. Klækjarefurinn Loki heldur um taumana á bak við tjöldin og áður en Þór veit af, hefur hann sjálfur stofnað öllu mannkyni í hættu.

Þór er flókinn hálfguð. Hann er í senn ósigrandi, fljúgandi ofurhetja og hálfrogginn stráklingur sem er tregur til náms þótt hann búi vissulega yfir heilbrigðri skynsemi. Þessi lífsglaði dugnaðarforkur þráir ofar öllu að verða fullgildur í samfélagi goðanna. Hann leggur ákaflega hart að sér til að öðlast viðurkenningu sem gerir hann veikan fyrir hrósi og smjaðri.

Það eru veikleikar Þórs, sem stefna öllu í voða. Hann verður að takast á við bresti sína til að geta nýtt styrk sinn í flóknu valdatafli goða, jötna og máttugra vætta. En Þór er ekki einn. Óðinn vakir yfir honum og birtist í mismunandi gervum þegar honum finnst tími til kominn að kenna syni sínum lexíu.

Sagan um Þór sækir efnivið sinn í Gylfaginningu og Skáldskaparmál. Flestar sögupersónurnar koma þaðan en hafa í sumum tilfellum breyst nokkuð eða fengið nýtt hlutverk. Þannig er íkorninn Ratatoskur ævinlega nálægur í bókinni um Þór þótt hann haldi sig við askinn í Gylfaginningu en samur að eðli, meinfýsinn og illgjarn.

Hugsanlega á Hrungnýr, steinmaðurinn ógurlegi sem Loki fær jötnana til að smíða, ættir sínar að rekja til Skáldskaparmála. Þar segir frá jötninum Hrugni og leirmanninum Mökkurkálfa með merarhjartað og viðskiptum þeirra við Þór. Hrungnýr þarf lífssteininn Sæhjarta til að kvikna og það er Þór sjálfur sem nær honum með eftirminnilegum hætti úr krúnu Ægis konungs. Oft gætir teiknimyndaáhrifa í sögunni en sterkust eru þau í þessari ferð Þórs í höll sjávarkonungsins, glyðrunnar Ránar og daðurdrósanna dætra þeirra.

Þór, leyndarmál guðanna, er einstaklega vel skrifuð, lifandi og skemmtileg og byggir á frábærri hugmynd. Eins og svo oft á við um skáldverk sem sækja efnivið að einhverju leyti í miðaldabókmenntir, er sögusviðið of framandi til að lesandi geti virkilega lifað sig inn í söguna. Hann er áhorfandi að brjálæðislegri reiði Þórs, þegar hann sveiflar hamrinum, án þess þó að finna  fyrir hamslausum ofsanum eða kraftinn sem þeytist frá hamrinum. Hvort það takist aftur í forneskju að bjarga mannkyninu frá útrýmingu á elleftu stundu,  getur aldrei orðið verulega spennandi því lesandi veit hvernig það fór en lesandi veit hins vegar ekki af hverju það fór eins og það fór.

Sagan um Þór er svo myndræn að heimur gömlu goðanna lifnar á ný með öllum sínum litríku kynjaverum. Í átökunum milli góðs og ills er það umfram allt samkennd og ábyrgð sem er drifkrafturinn í baráttunni við græðgi, öfund og illgirni. Þeirri baráttu ætlar seint að ljúka en það er önnur saga.

Ragnhildur Blöndal, desember 2010.