Beint í efni

Til hughreystingar þeim sem finna sig ekki í samtíma sínum: Lög og textar

Til hughreystingar þeim sem finna sig ekki í samtíma sínum: Lög og textar
Höfundur
Ragnar Helgi Ólafsson
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2015
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Ragnar Helgi Ólafsson hefur um árabil hannað kápur á bækur. Bókakápur hans eru haganlega gerðar og bera því vitni að hönnuðurinn hefur bæði þekkingu á bókunum og því hvernig best sé að koma þeim til lesenda. Fyrir tveimur árum síðan sneri hönnuðurinn sér að innihaldi bóka, fyrst sem ritstjóri og útgefandi hliðarútgáfu sem kennir sig við tungl, og síðan sem höfundur. Fyrsta bók hans kom út undir merkjum Tunglbóka og var jafnframt fyrsta bókin í þeirri seríu. Hún nefnist Bréf frá Bútan (2013) og inniheldur smáprósa sem mynda lauslega samfellda sögu. Síðan hefur Ragnar Helgi sent frá sér tvær bækur, báðar á þessu ári, smásagnasafnið Fundur útvarpsráðs þann 14. mars 1984 og mótandi áhrif hans á kynverund drengsins og ljóðabókina Til hughreystingar þeim sem finna sig ekki í samtíma sínum. Fyrri bókin var ein af fjölmörgum í þriðja hefti tímaritraðarinnar 1005, en Ragnar Helgi er einnig einn af aðstandendum hennar. Ljóðabókin hlaut nú á dögunum Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar.

Þetta er í sjálfu sér athyglisverður ferill skálds (og freistandi að nefna ættartöluna líka, en faðir Ragnars Helga, Ólafur, var bókaútgefandi og stýrði Vöku Helgafelli um árabil). Það þarf svo ekki að koma á óvart að ljóðabókin ber merki hönnuðarins fagurt vitni og er afskaplega fallegur prentgripur. Á síðunum má einnig finna fjölmargt athyglisvert og vel gert.

Það vekur sérstaka athygli að ljóðin sjálf fjalla mörg hver á einn eða annan hátt um rými og kallast þannig á við þetta ferli höfundarins frá hönnun til innihalds – og til baka aftur. Ljóðið „Innrými“ lýsir fyrirbærinu:

Þótt það sé vissulega nokkur einföldun að segja að
innrýmið sé „það sem er undir heimsefninu“ leyfi ég
mér stundum að byrja á slíkri skilgreiningu. Dæmi:
Innrými kökunnar er allt það sem ekki er kaka.
Það er að segja negatív afsteypa af köku en einnig
allt hitt innrýmið í heiminum sem er ekki kaka.
Innrýmið er sem sagt það rými sem er ekki. Ég hef
stundum í hálfkæringi kallað innrýmið rönguna.

Ljóðmælandi tekur svo fram að ‚ranga‘ sé of neikvætt orð í vísindalegu samhengi, en gæti nýst í ljóðrænu. Í ljóði á sömu opnu, sem nefnist „Gluggar og speglar“ er umfjöllun um þessi tvö fyrirbæri og hvernig þau geta einmitt snúið augum „á rönguna“. Annað speglaljóð, „Hún/hann“, fjallar um gæðaeftirlit með speglum sem gengur út á að „grandskoða hvern einasta spegil persónulega með því að stara í augu sín, algerlega ótta- og svipbrigðalaus, í fjórar mínútur“. Ástarljóðið „Þungt vatn“ lýsir þrá ljóðmælandans til að falla fullkomlega að líkama ástmeyjarinnar, breytast í lög og komast þannig inn í hana líka: „Núna er ég alger, fullkomlega nákvæm, negatív / afsteypa af líkama þínum. Ég er allt það efni í / leginum sem ert ekki þú. Og snerti þig alla í einu; / hvern einasta fersentimetra af yfirborði þínu, jafnt / utan á sem inn í þér.“ Þess má geta að í „Innrými“ er einnig fjallað um þau göt sem hægt er að komast innum til að ná innrýminu, „Niðurföll, / innstungur, augu og sólir ...“

Eins og áður segir eru þessi ljóð áhugaverð í samhengi við feril höfundar, sem einmitt hefur í verkum sínum skapað skáldskap einskonar ‚innrými‘ á ytra borði bókakápunnar, með því að fanga andrúmsloft bókar í einni mynd. Myndin verður síðan ‚gat‘ sem opnar lesandanum leið inn í verkið, þar sem hann fyllir það sjálfum sér – og lætur það fylla sig, líkt og þegar spegillinn snýr augunum á rönguna.

Mér varð hugsað til skúlptúra bresku listakonunnar Rachel Whiteread, sem einmitt hefur unnið með álíka hugmyndir um rými. Aðferð hennar er sú að fylla rými af gifsi eða steypu og taka síðan utan af, þannig að eftir stendur afsteypa, neikvætt rými sem samt er einmitt rýmið sjálft. Verkin standa sem minnismerki um rými sem var og er ekki lengur – en er samt til staðar ef svo má segja: „Innrými kökunnar er allt það sem ekki er kaka. / Það er að segja negatív afsteypa af köku en einnig / allt hitt innrýmið í heiminum sem er ekki kaka.“

Þessi tilfinning fyrir rými sem bæði er og er ekki kemur einnig fram í Bútan-bókinni, en þar er fjallað um leit að rými, að húsi í Bútan sem á að uppfylla allar þarfir um einveru og nærveru. Eitt ljóð í Hughreystingunni vísar til þessarar bókar og nefnist „Ekkert póstkort enn“. Þar segir ljóðmælandi frá því að vinkona hans sé stödd í Bútan að leita að „kofa í afskekktum dal“:

Þetta er timburkofi með blikk-
þaki. Hann stendur í miðri fjallshlíð sem vaxin er
djúpgrænu mittisháu kjarri. Ef maður stendur upp
sér maður vel til allra átta en ef maður leggst niður
hverfur maður.

Einnig kemur fram að þau munu „aldrei vera í kofanum á sama tíma því kofinn rúmar / einungis eitthvað eitt: Einn mann; eina konu; eitt / eitthvað.“

Þarna er enn á ný komið rými sem er bæði nærtækt og hverfandi í senn, draumastaður sem hlýtur alltaf að vera ómögulegur.

Tími og ferðalög eru annað þema sem Ragnar gæðir þessu einkennilega lífi fjarveru og nærveru. Ljóðið sem bókin heitir eftir ber undirtitilinn „eða: í framtíðinni #3“ og þar er lýst tímaferðalögum framtíðarinnar, en þau fara að mestu fram í frítíma fólks:

Í framtíðinni
mun það koma fyrir
– sum kvöld –
að þar verður enginn.

Hér fellur tíminn saman í einhverskonar ómögulega andhverfu sína, framtíðin er tími þar sem enginn er til staðar því allir eru að ferðast í tíma.

Annað dæmi um tímaferðalag er „1491-2013“, en þar kemur fram að „Morgunhiminninn yfir Bláfjöllunum“ er eftirlíking af bláma og skýjum „yfir Feneyjum / árið 1491“ eins og sést í verkum endurreisnarmálara. Og það hefur tekið fimmhundruð ár að endurskapa þessa liti og fjarvídd. Önnur fyndin athugasemd um tíma er „Objet trouvé #237“, en þar er fjallað um skipaferðir:

„Hingað sigldu farmskip með vistir, reglubundið frá
1903, þótt engin væri höfnin. Allt selflutt í land á
smábátum, í næstum öld. Höfnin, hafnargarðurinn
og smábátahöfnin voru ekki gerð fyrr en 1995.
Þremur árum síðar, 1998, lögðust strandsiglingar af.“

Þetta ljóð um hversdagslegt tímarugl, kallast á við annað ljóð um strandsiglingar, sem nefnist „„Gamla gengið““. Þar er því lýst hvernig áhöfnin á MS Sýsifossi hafði haldist söm í áratugi og fór „umhverfis landið á sex dögum, 52 hringi á ári í 22 ár.“ Ferðirnar eru ekki endilega allar eins og það er ekki stoppað á sömu stöðunum, en „alltaf siglt rangsælis“. En svo leggjast strandsiglingar af og áhöfnin verður eirðarlaus, millilandaferðir rugla „gamla gengið“ í ríminu, því það er alltaf „siglt stystu leið, eftir beinni línu, / fram og til baka. Slíkir túrar eru / eðlisólíkir reglubundnum hringsiglingum.“ Og áhöfnin hættir, „Skipstjórinn hvarf síðastur frá borði.“

Þetta er að mörgu leyti ekki óraunsæ lýsing á sögulegum staðreyndum, en tilfinning í ljóðinu kallar fram skemmtilega skynjun á tíma og brautir. Heiti skipsins, sem vísar í streð án árangurs, ferð án endastöðvar, ítrekar enn frekar hringlandann sem skapar heildarmynd: „„Gamla gengið“ starfaði sem einn maður“, en hvorttveggja leysist upp þegar ferðirnar verða línulegri og markvissari.

Það er sérstaklega í prósaljóðunum sem textar Ragnars Helga komast á góða siglingu, líkt og í Bútan-smáprósunum hentar þessi tegund örsagna vel því að koma inn tilfinningu, lýsingu og dálítilli sögu.

Hringformið setur mark sitt á bókina alla, en kápan er samansett úr tveimur blöðum sem bæði eru með hinglaga gati í miðjunni, misstóru. Utan í ytra gatinu hangir svo hringurinn með merki Bókmenntaverðlaunanna, og í hugann koma bæði plánetur og tungl og mengi. Innrýmið smitar því heildarmynd bókarinnar, er mögulega einskonar ‚ranga‘ hennar.

úlfhildur dagsdóttir, nóvember 2015