Beint í efni

Tími nornarinnar

Tími nornarinnar
Höfundur
Árni Þórarinsson
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2005
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Ingvi Þór Kormáksson

Fyrir utan að lýsa yfir áhuga sínum á lagasmíðum Donovans hefur Árni Þórarinsson einhvers staðar tjáð sig um dálæti sitt á bandaríska glæpasagnahöfundinum Ross MacDonald. Ásamt John D. MacDonald var Ross einn af sporgöngumönnum einkaspæjarahefðarinnar eins og hún birtist hjá Raymond Chandler. MacDonaldarnir bættu að sumu leyti um betur og segja má að skandinavískar löggu- og einkaspæjarasögur taki dálítið mið af þeim nú í seinni tíð. Það er kannski ekki síst raunsæið og samfélagsrýnin í verkum þeirra kumpána sem höfða svona vel til meðvitaðra rithöfunda Norður-Evrópu. Flestir muna eftir sögum þeirra hjóna Sjöwall og Wahlöö sem nutu mikilla vinsælda á árum áður og segja má að hafi lagt grunn að þeirri glæpasagnahefð sem hvað mestra vinsælda nýtur á Norðurlöndum. Allir þessir höfundar og margir fleiri hafa lagt í púkkið til að gera hina nýju flauelsbyltingu íslenskra glæpasagna á síðustu árum þannig úr garði að sögurnar virðast ekkert ankannalegar. Um og eftir 1980 gerðu Gunnar Gunnarsson, Jón Birgir Pétursson, Viktor Arnar og Leó Löve tilraunir með þessa gerð glæpasagna en þá var eins og Íslendingar væru ekki alveg tilbúnir fyrir þær. Konur lásu þá Agötu Christie og karlar lásu spennusögur eða njósnaþrillera úr smiðju Alistair MacLean, Hammond Innes, Jack Higgins og Colin Forbes sem virtust, alla vega í þá daga, talsvert fjarri íslenskum veruleika.

En nú er öldin önnur.

Snúum okkur að bókinni Tími nornarinnar árið 2005. Það er þægilegt og áreynslulaust yfirbragð á stíl Árna Þórarinssonar. Allnokkur húmor þegar það á við. Aðalsöguhetjan, blaðamaðurinn Einar, sem margir þekkja úr fyrri bókum höfundar, býr núna á Akureyri. Þar er Síðdegisblaðið með útibú og Einar hefur verið sendur þangað í eins konar útlegð. Kannski er þessi útlegð hans sjálfskipuð að nokkru, enda er hann að reyna að hætta að drekka. Þar sem hann er “á hnefanum” eins og það kallast, reynist það honum erfitt á köflum þótt ekki fari hann í gegnum neinar hræðilegar sálarpíslir eins og stundum gerist hjá ekki ósvipaðri sögupersónu, Matt Scudder, í sögum Lawrence Blocks.

Á Akureyri á ýmislegt sér stað, þar á meðal glæpsamlegir atburðir. Staðnum er vel lýst og sérstaklega birtist Menntaskólinn manni sem lifandi og áhugaverð stofnun. Atburðarásin tengist enda námsmönnum við þann skóla, en svo vill til að einn þeirra finnst látinn og leikur strax grunur á að um morð hafi verið að ræða. Einar reynir auðvitað að grafast fyrir um málið. Annað dauðsfall kemur við sögu, þannig að Einar er áður en varir farinn að pota í ýmis, og að því er virðist, óskyld mál. Hann þarf líka að fara nokkrar ferðir austur á land, nánar til tekið til Reyðargerðis sem stendur náttúrlega fyrir Reyðarfjörð eins og Síðdegisblaðið stendur trúlega fyrir DV eða álíka blað. Þótt tilbúin heiti séu notuð fyrir dagblöð og stað eins og Reyðargerði eru flest önnur staðarheiti raunveruleg. Þetta er aðferð sem glæpasagnahöfundar nota stundum, t.d. með því að skálda götuheiti inn í borg eins og London.

Árna hefur tekist vel að skapa frásögninni rólegt andrúmsloft sem hentar fremur bæ en borg. Þótt sjaldnast sé um stórátök að ræða er samt nóg sem heldur athygli lesandans. Ýmsar skemmtilegar persónur birtast í sögunni og má nefna hér gömlu konuna, Gunnhildi, og lögreglumanninn Ólaf Gísla sem ég vona að höfundur muni halda lífi í upp á seinni tíma. Smákrimmarnir frá Reyðargerði eru nokkuð spaugilegir, en samt ekki um of, þannig að þeir ná að virka ógnandi á sinn hátt. Í bakgrunni er svo fjölskyldudrama, fíkniefnamisferli og fleira.

Tími nornarinnar sver sig í ætt við áðurnefnda harðsoðna einkaspæjarahefð að því leyti að Einar er einfari sem berst fyrir því að réttlætinu sé fullnægt. En bókin tekur þó enn meira mið af skandinavísku löggusögunum sem áður eru nefndar og margir hafa fylgt eftir hérlendis. Er það vel. Ekki má heldur gleyma bresku hefðinni sem höfundar á borð við Colin Dexter, Peter Robinson og fleiri eru fulltrúar fyrir, enda í sögunni minnst á dálæti Gunnhildar á þeim félögum Morse og Taggart. Annars er þessi höfundaupptalning ekki til þess gerð að ýja að því að höfundur sé undir þá hallur, heldur bara til að sýna úr hvað jarðvegi sögur af þessari gerð spretta. Veikasti hlekkur fyrstu bókanna um Einar var fléttan, en hérna gengur hún miklu betur upp. Hún kemur mátulega á óvart, ekkert óskaplega svo sem, en er alveg fullnægjandi. Þess er nú einu sinni krafist þegar um glæpasögu er að ræða. En það skiptir líka máli að ferðin á leiðarenda sé ánægjuleg. Góð samfélagslýsing lyftir sögunni og tengsl við bókmenntalega fortíð þjóðarinnar kemur fram í uppsetningu menntaskólanema á Galdra-Lofti. Tími nornarinnar er ekkert stórfenglegt bókmenntaafrek en þetta er hörkufín glæpasaga með öllu sem til þarf.

Ingvi Þór Kormáksson, nóvember 2005.