Beint í efni

Týndu augun

Týndu augun
Höfundur
Sigrún Eldjárn
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2003
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Týndu augun eftir Sigrúnu Eldjárn ber þess nokkur merki að nú er kominn upp aukinn áhugi á átakameiri sögum fyrir börn, í kjölfar vinsælda bókanna um Harry Potter, Hringadróttinssögu og hinna rammíslensku Blíðfinnsbóka. Með 'átakameiri' meina ég hér bæði það að bókin er lengri og í henni er að finna heilmikil átök, tilfinningaleg og efnisleg, auk þess sem söguþráðurinn er fullur af furðum og undrum. Reyndar hafa söguþræðir Sigrúnar alltaf einkennst af ævintýralegum leik með ævintýri og þjóðsögur, og jafnvel vísindaskáldsögur, en hér finnst mér hún hafa slegið ákveðið met.

Það sem byrjar eins og hefðbundin sveitasaga af tveimur systkinum sem leiðist voðalega í sveitinni og ákveða að strjúka (úff hvað ég þjáðist á sínum tíma yfir slíkum barnabókum, fullum af rómantískri sveitasælu) breytist fljótlega í stórfurðulega sögu af álögum, dvergum, illmennum nær og fjær, neðanjarðarhellum, göldrum og ég veit ekki hvað. Í ljós kemur að bærinn sem systkinin dvöldu á er undir álögum frá svikinni álfkonu sem sló íbúa hans blindu svo þeir tvístruðust. Einn er enn í sveitinni, kona hans lendir á smáeyju úti í miðju vatni og afgangurinn af íbúunum lendir í hraunhelli þarsem þeim er haldið föngnum af óðum presti sem dýrkar hauskúpur. Reyndar eru þessar sviptingar í söguþræði gefnar til kynna með einskonar inngangi, sem er kafli innan úr miðri bók, en þar hafa systkynin orðið viðskila, og stóra systir sem hefur dottið ofan í hraungjótu eina alldjúpa sest niður og skrifar látinni móður sinni bréf. Þessar bréfaskriftir til móðurinnar eru síðan stef í gegnum alla bókina og skapa raunsæa stemningu sorgar og tilfinningaátaka mitt í ævintýralegri atburðarás.

Að vanda heldur Sigrún vel um alla þræði, og sagan gengur bara afbragðsvel upp. Hún nýtir bæði þjóðsögur – svo sem álög álfkvenna, heila heima sem byggjast undir hrauni, dverga og galdra – og ævintýralegar (erlendar) barna og unglingabækur frá fyrri tíð, bækur þarsem allt gat gerst og gerðist. Inn í þetta fléttast svo dálítið spennusögustef, þegar börnin þurfa að takast á við mjög venjulega gullgráðuga glæpamenn. Eins og fyrri bækur höfundar er Týndu augun myndskreytt af henni, og sem fyrr eru myndirnar skemmtilegar og skapa mikla stemningu.

Þótt mér fyndist á stundum sem þessi furðulega atburðarás gengi of langt eða væri of langsótt, þegar hvert undrið rak annað svo ekkert lát virtist ætla að verða á, þá verð ég að segja að þegar lestrinum var lokið stóð ég bara vel sátt, já var eiginlega bara hæstánægð!

Úlfhildur Dagsdóttir, október 2003