Beint í efni

Útlagar

Útlagar
Höfundur
Sigurjón Magnússon
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2010
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Sigurður Ólafsson

Ávallt ber nokkuð á þeirri tilhneigingu hjá ákveðnum hópi fólks að sjá ástæðu til þess að réttlæta, upp að vissu marki, tilverurétt einræðisríkja sem virða hvorki frelsi borgara sinna né lýðræðislega skipan mála. Þetta er gert með því að reyna að draga fram einhverja kosti slíkra þjóðskipulaga til móts við gallana og með því að gera það afstætt hversu skelfilegt það er í raun að vera ófrjáls borgari í einræðisríki.

Þessa hefur til dæmis orðið vart í umræðunni um Austur-Þýskaland undanfarin ár. Þegar að kvikmyndin stórgóða Das Leben der anderen var sýnd í kvikmyndahúsum fyrir nokkrum misserum ræddi leikstjóri hennar einmitt um að einn tilgangur myndarinnar hafi verið að vega að rótum ákveðinnar hneigðar þess efnis að líta fyrst og fremst þannig á að saga um Austur-Þýskaland sé saga um skrýtið og sérviturt land. Þessari mynd hafi verið komið á í kvikmyndum á borð við Goodbye Lenin og þá kannast gestir Austur-þýska-safnsins (DDR Museum), við safnaeyjuna í miðborg Berlínar, við svipaða sýn. Þjóðverjar hafa fundið upp hugtakið  „Ostalgie“ (samansett úr „nostalgie“ og þýska orðinu „Ost“ fyrir austur) sem lýsir svona kómísku sjónarhorni þar sem horft er mildum augum á sögu Austur-Þýskalands. Það virkar kannski ekki svo voðalegt að til sé fólk sem heldur þessari sýn á lofti en það tekur þó á sig nokkuð alvarlegri mynd þegar þetta smitast inn í hina pólitísku umræðu. Þá fer þetta rósrauða sjónarhorn að valda því að fólk fer í raun og veru að halda því fram að það sé eftirsjá í austur-þýska þjóðskipulaginu. Og þá er full ástæða til að bregðast við og minna á að einræðiskerfi eru alltaf hryllileg og aldrei krúttleg eða fyndin í eðli sínu á nokkurn hátt.

Að þessu leyti er bók Sigurjóns Magnússonar, Útlagar, gott innlegg í umræðuna. Bókin gerist mestöll á ofanverðum sjötta áratugnum og öndverðum þeim sjöunda og er sannkölluð örlagasaga. Aðalpersónurnar eru leiksoppar á sviði kalda stríðsins, einkum þó aðalpersónan, íslenski námsmaðurinn Jósef og austur-þýsk eiginkona hans.

Jósef á ráðríka móður sem er sanntrúaður kommúnisti. Hún sendir son sinn, nánast óviljugan, til náms í Leipzig í Austur-Þýskalandi. Þar lendir hann upp á kant við íslenska samstúdenta sína og hrekst úr þeirra félagsskap, kynnist austur-þýskri konu sinni og saman fara þau að lokum huldu höfði úr landi til Íslands, flýja kerfið óvinveitta í Austur-Þýskalandi. Persónuleg vandamál valda því hins vegar að flóttinn er til lítils, brestirnir fylgja þeim eins og skugginn alla leið norður í næðinginn í Vesturbæ Reykjavíkur.

Segja má að sögupersónurnar verði flestar fórnarlömb tortímandi afla úr sögu seinni hluta síðustu aldar enda er það ekki bara kalda stríðið sem vinnur á fólkinu varanlegar skemmdir, seinni heimsstyrjöldin skilur einnig eftir sín djúpu og ljótu ör á þýskum sálum. Útlagar er mikil harmsaga. Það gengur á með mikilli dramatík; átökum og svikum. Áhugafólk um sögulegan skáldskap, þar sem engin lognmolla ræður ríkjum, ættu því að finna í henni efni við sitt hæfi.

Bókmenntaverkið sjálft sætir hins vegar ekki miklum tíðindum. Það er svo sem heldur ekki yfir miklu að kvarta heldur, þetta er allt afar vel gert hjá Sigurjóni og hann er augljóslega fimur höfundur. Bæði framvindan og persónurnar líða þó fyrir að vera nokkuð fyrirsjáanlegar, sérstaklega þegar í það fer að skína að fyrir höfundi vaki að sýna fram á skelfingu þess kerfis sem byggt var upp austantjalds. Slíkt er gagnlegt sem sögulegur fróðleikur, og engu er ofaukið um þann harm, en bitnar um of á listaverkinu sem slíku og gerir það of predikunarkennt. Lesandinn hefði líka stundum haft gott af því að fá meira rými til eigin túlkunar, til dæmis á endanlegum örlögum aðalpersónunnar og brennimarki heimspólitískra viðburða á sögupersónurnar.

Útlagar er, þrátt fyrir þetta, prýðileg lesning og sem söguleg áminning þjónar hún hlutverki sínu ágætlega.

Sigurður Ólafsson, nóvember 2010