Beint í efni

Valkyrjur

Valkyrjur
Höfundur
Þráinn Bertelsson
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2005
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Það er óhætt að segja að það sé mikið fjallað um konur og málefni kvenna í nýrri glæpasögu Þráins Bertelssonar, Valkyrjur. Það er líka alveg óhætt að segja að þar sé mikið fjallað um pólitík samtímans á skáldskaparlegu rósamáli. Persónulega hef ég skömm á vafstri stjórnmálamanna og flokkadráttum hverskyns og ætla því að sniðganga þann þátt verksins hér í þessari umfjöllun - en er viss um að margir sem ekki deila þessu viðhorfi mínu muni skemmta sér vel yfir dulkóðuðum lyklunum Þráins. Þráinn hefur áður leikið sér að því að fjalla um menn og málefni samtímans í skáldverkum sínum, en í glæpasögu hans frá í fyrra, Dauðans óvissi tími, var einnig vísað til pólitískra átaka og samfélagsbreytinga. Sú saga deildi persónum með enn eldri sögu Þráins, Tungumáli fuglanna (1987), en hún var gefin út undir nafninu Tómas Davíðsson, og tók á hinu pólitíska landslagi síns tíma, án þess þó að vera beint glæpasaga. Þessi nýja saga, Valkyrjurnar, er hinsvegar hreinræktaður krimmi, og þarsem við hittum hér fyrir sama lögguliðið og í Dauðans óvissa tíma (og sömu pólitíkurnar) þá er auðvelt að ætla að hér sé Þráinn kominn á skrið inn í glæpaseríu, sem, svo ég bara tali púrt uppúr pokanum, lofar afar góðu. Því þrátt fyrir að ég hafi takmarkaðan áhuga á þeim hluta sögunnar sem kalla mætti lykilsögu, þá skemmti ég mér vel yfir sögunni í heild.

Og sagan í heild er, semsé, heilmikil kvennasaga. Lík umdeilds femínista finnst í bíl við Rauðhóla, í fyrstu mætti ætla að um sjálfsmorð sé að ræða, en fljótlega kemur í ljós að svo er ekki. Konan, sem heitir auðvitað Freyja, hafði unnið að bók um slæma stöðu kvenna á (nú)tímum klámvæðingar og mansals, en hluti bókarinnar átti að vera í formi viðtala við tvær fyrrverandi eiginkonur áhrifamanna í samfélaginu. Væntu menn því mikilla afhjúpanna og fór um suma. Eins og áður sagði er lögguteymið frá fyrri bókinni mætt með hinn þunglynda Víking í fararbroddi, en lögguliðið er jafnframt að leita uppi lík konu nokkurrar, sem virðist hafa verið banað af eiginmanni sínum. Inn í málið blandast svo yfirvofandi skilnaður einnar lögreglukonunnar og átök milli toppa innan lögreglunnar. Nýráðinn ríkislögreglustjóri er kona og telja sumir að til embættisins hafi verið stofnað til að útvega henni starf - hún er, sumsé, vel tengd.

Í heildina séð er Valkyrjur mun heilsteyptari – eða ætti ég að segja heildrænni? – skáldsaga en Dauðans óvissi tími og hér sýnir höfundur mun meiri fimi við að flétta samfélagslegum vísunum inn í framrás sögunnar. Þó glæpirnir sjálfir séu ekki eins hressilegir og blóðugir og í fyrri sögunni kemur það ekki (mikið) að sök, er reyndar alveg í takt við það að þessi nýja saga er öll mun agaðari og meitlaðari en hin. Þetta kemur meðal annars fram í því hvernig hið femíníska viðfangsefni - morðið - er stutt með því að gera hlut kvenna veigamikinn og á allan hátt mjög sýnilegan.

Sjálf glæpafléttan er sömuleiðis ágætlega unnin, þó vanir krimmalesendur séu væntanlega fljótir að átta sig á málunum. Stíll Þráins einkennist af því sem kalla mætti launfyndni og nýtur sín afskaplega vel hér, hvort sem er í alvarlegri þáttum sögunnar eða þarsem háðsádeilan er hvað hressilegust. Sérstaklega hafði ég þó gaman af því hve vel unnin ýmis smáatriði eru, má þar nefna lýsingu á samskiptum manns og hests þegar þeir ramba á lík (hesturinn heitir Stjörnufákur en er kallaður Mói). Þessi smáatriði gefa sögunni mikinn lit og líf og eru bæði sæt og smart, reyndar má í heildina segja að þetta sé bara helvíti smart.

Úlfhildur Dagsdóttir, október 2005.